15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (1728)

272. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum

Pétur Ottesen:

Eftir því sem smábátaútvegurinn vex og menn sækja lengra út á hafið, verður að gera frekari ráðstafanir til að tryggja öryggi manna og skipa. Björgunarstarfsemi hér við land hefir þó eigi til þessa verið haldið uppi af hálfu hins opinbera, nema að því er til Vestmannaeyja kemur. Öllum er þó ljóst, hve þörfin er brýn, fyrst og fremst að vernda mannslífin og þar næst að forða frá glötun verðmætum þeim, sem liggja í skipastól og veiðarfærum.

Ég verð að segja það, að ef á að gera þær ráðstafanir, sem farið er fram á í þessari till. um björgunarstarf og eftirlit bæði fyrir Norður- og Vesturlandi, þá er tæplega hægt að komast hjá því að gera einhverjar slíkar ráðstafanir við Faxaflóa, því að hvergi er tiltölulega meiri útgerð en þar. Þar sækja um 200 bátar á sjó á hverri vertíð. Þeir eru flestir ekki stærri en það, að þeir verða að leita hafnar daglega. Veiðar þessar fara líka fram á þeim tíma, sem veður eru hörðust í skammdeginu, frá miðjum nóvember og til sumarmála. Er því fyllsta ástæða til þess, að gerðar séu ráðstafanir til þess að vernda öryggi fiskiflotans á þessum slóðum, enda hefir fjöldi áskorana þess efnis verið sendur atvmrn. frá fiskimönnum, sem sjó stunda hér við Faxaflóa. Það kemur líka oft fyrir á þessum miðum, að togararnir gerast ærið nærgöngulir bátunum, draga botnvörpur sínar yfir línur og net og valda margháttuðum skemmdum á veiðarfærum fiskimannanna. Er því hin fyllsta þörf á að vernda ekki einungis líf hinna mörgu sjómanna, sem sjó stunda á þessum miðum, heldur og veiðarfæri hins mikla bátafjölda, sem fólkið á afkomu sína undir. Ef Alþingi gerir svo víðtækar ráðstafanir sem gert er ráð fyrir í till. þessari, þá verður ekki gengið framhjá því að gera hliðstæðar ráðstafanir gagnvart fiskiveiðunum við Faxaflóa.

Ég vil því taka undir till, hv. þm. Vestm. um að fresta umr. og vísa málinu til hv. sjútvn., og taki n. síðan málið til athugunar með fiskveiðarnar við Faxaflóa og annarsstaðar fyrir augum, á þeim grundvelli, sem ég hefi bent á.

Ég vil taka það fram, að það er síður en svo, að ég vilji vera þrándur í götu þess, að eitthvað sé gert til öryggis á þeim stöðum, sem till. tekur til. En ég vil eins og hv. þm. Vestm., að því verði vísað til n., til þess að n. athugi málið í heild, því nauðsyn ber til, eins og ég nú hefi sýnt fram á, að færa það á miðara svið heldur en gert er í till. Vænti ég, að hv. flm. till. hafi ekkert á móti því að það sé gert.

Vitanlega er ekki hægt að ætlast til þess, að þetta eina varðskip, Þór, geti haft allt starfið með höndum á þeim tíma, sem hér er um að ræða. Það er engin von til þess, að eitt skip geti komizt yfir allt þetta starf, og yrði því annaðhvort hinna varðskipanna að taka þátt í þessu starfi.

Eins og hv. þm. Vestm. benti á, hefir björgunar- og eftirlitsstarfið farið ágætlega saman við landhelgisgæzluna í Vestmannaeyjum, og svo myndi það vera víðar. Það atriði, að skipin myndu tefjast um of frá landhelgisgæzlunni, ef þau tækju þetta starf að sér, getur því tæplega komið til greina. Hitt er auðvitað, að á meðan við höfum ekki fleiri varðskip en við höfum nú, þá verður að gæta þess til hins ýtrasta, að þau geti notið sín sem allra bezt við höfuðhlutverk sitt, landhelgisgæzluna, en séu ekki á ýmsan hátt bundin við aðra hluti, starfi þeirra alveg óviðkomandi, eins og óneitanlega hefir átt sér stað nú á síðustu árum. (Ýmsir dm.: Það er bezt að fresta umr. og vísa málinu til sjútvn.).