06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

1. mál, fjárlög 1932

Héðinn Valdimarsson:

Það sem hv. þm. G.-K. þykist hafa unnið með þessari nefndarskipun er það, að við jafnaðarmenn fáum mann í n., en ég held, að við séum einfærir um að gera okkar kröfur, og við báðum hv. þm. ekki um neina aðstoð né afskipti af okkar eigin málum.

En hitt er öllum kunnugt, hvað Sjálfstæðisfl. hefir gert í verðtollsmálinu. Flokksmenn hans úti í bænum og úti um land hafa sagt, að flokkurinn mundi fella verðtollinn fyrir Framsóknarfl., til þess að sýna honum, að hann gæti ekki fengið peninga hjá þinginu, ef andstöðuflokkarnir standa saman og stöðva allar fjárveitingar til stj., þrátt fyrir meiri hl. í Nd. Þetta er það, sem flokksmenn hans kröfðust, að flokkurinn gerði, og það hefði orðið til þess, að Framsóknarfl. hefði ekki haft fé til þess að geta farið með stj. í landinu. En á þessu gugnuðu sjálfstæðismennirnir á þingi. Þeir hugsuðu meir um sæti sín heldur en að berjast fyrir kjördæmaskipunarmálinu, sem þeir þykjast þó bera fyrir brjósti.

En það er ekki aðeins í þessu eina máli, sem þeir hafa gengið í lið með Framsóknarfl. Það sést á hverju málinu á fætur öðru, og ekki sízt á fjárl., þar sem þeir sitja saman í n. dag eftir dag, skila áliti saman, eru saman um brtt. og saman um að halda fjárl. eins og þau eru, draga úr verklegum framkvæmdum og auka þar með á atvinnuleysið í landinu.

Það var hægt að búast við þessu af Framsóknarfl., því að þótt talað sé um atvinnuleysi á kjósendafundum, þá vilja sumir framsóknarmenn alls ekki viðurkenna, að atvinnuleysi sé til; það sé ekki í sveitunum og þá sé það náttúrlega alls ekki til, sbr. ummæli hv. 3. landsk. og fleiri hans líka. En það var síður hægt að búast við því, að Sjálfstæðisfl., sem er að leita sér atkv. í kaupstöðum og þykist bera velferð almúgans fyrir brjósti, skriði undir kjólfald Framsóknarfl. eins og hann hefir nú gert. En svo miklir aumingjar eru þó varla í Sjálfstæðisfl., að það eina, sem þeir þykjast hafa grætt á því að gefa Framsóknarfl. verðtollinn, sé að jafnaðarmenn geti nú fengið einn mann í milliþinganefndina! Enda er það öllum kunnugt, að það er meira, sem fylgir. Þeir eiga að fá þau áhrif á stj., að hún verði bræðingsstj. þessara tveggja flokka, með einum fulltrúa sjálfstæðisíhaldsins. Það færi bezt á því, að þeir

rynnu alveg saman og kölluðu sig sameiginlegan Íhaldsflokk sveita og bæja.