10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

1. mál, fjárlög 1932

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég vil minnast ofurlítið á berklavarnastyrkinn og hvernig hann lækkaði fyrir breytta löggjöf og bættar framkvæmdir. Er mér þetta mál vel kunnugt.

Áður en berklavarnalögin komu til framkvæmda, greiddu hreppar sinn hluta af kostnaðinum, en ríkissjóður greiddi 3/5, þó ekki meira en 3 kr. á dag. Svo kom ný löggjöf, og var hreppsfélögunum þá gert að skyldu að borga vissa upphæð á hvern mann, en ríkið annaðist sjúklingana að öðru leyti. Þann 29. febr. komu svo bréf til allra sjúkrahúsa á landinu, þar sem sagt var, að upp frá því yrði aðeins goldin ákveðin upphæð, hvað sem gert væri við sjúklingana, eða 5 kr. á dag.

Það hafði auk þess tíðkazt, að sjúklingar, sem þurftu á ljóslækningum að halda, fengju ókeypis læknishjálp, enda þótt ekki væru í sjúkrahúsi að öðru leyti, en þessu var einnig kippt í burt með áðurnefndu bréfi. Og raunin hefir orðið sú, að berklavarnakostnaðurinn hefir ekki minnkað, heldur hefir hann færzt yfir á fátæk bæjar- og sveitarfélög að því leyti, sem ríkisstyrkurinn hrekkur ekki til fyrir kostnaðinum. Fari daggjaldið upp úr 5 kr., verða bæjar- og sveitarfélög að borga afganginn, og hvað ljóslækningarnar snertir, hefir kostnaðurinn við þær ekki minnkað, heldur kemur það nú aðeins í hlut sveitar- og bæjarfélaga að greiða hann. Þessar „bættu stjórnarframkvæmdir“, sem talað er um í skýrslunni, eru því fólgnar í því, að stj. hefir brotið lög, sem henni bar að fara eftir, og þannig tekizt að láta fátæk bæjar- og sveitarfélög borga það, sem ríkissjóður hafði undirgengizt að borga. Hvort hér er um „bættar stjórnarframkvæmdir“ að ræða, skal ég láta hvern um að dæma fyrir sjálfan sig, en ég fyrir mitt leyti lít svo á, að þetta hafi verið til hins verra.