20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2125)

29. mál, opinber vinna

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Við skulum segja, að svo væri, að 1. gr. frv. gengi of langt, en það er þá alls ekki óalgengt, að frv. verði fyrir breyt., svo auðvelt er fyrir hv. þm. V.-Húnv. að gera brtt. við frv. og undanskilja bændurna frá því, að þeim verði nokkur skilyrði sett. Það er þó fjarri því, að ég sé þar á sama máli og hv. þm., og ég segi fyrir mitt leyti, að ég myndi greiða atkv. á móti till., en hinsvegar mundi ég greiða atkv. með frv., þótt þetta yrði fellt burtu. Ríkið á að láta starfsmönnum sínum líða eins vel og unnt er, a. m. k. heldur betur en einstakir atvinnurekendur; og þegar styrkur er veittur úr ríkissjóði, á að setja skilyrði fyrir því, að þeir, sem styrkinn fá, noti hann ekki til þess að halda niðri kaupi verkafólksins, bókstaflega steli peningum úr sjálfs sín vasa, sem þeir ættu að greiða verkafólkinu. Viðvíkjandi vinnutímanum hefir ekki verið hreyft neinum mótmælum, svo að ég hygg, að hv. þm. séu ekki á móti honum eða að öðru leyti á móti frv. Annars er það fjarri því, að við jafnaðarmenn æskjum ekki eftir því, að skipulag sé á vinnu í sveitum eins og í kaupstöðum og samtök um þau mál. Hinsvegar hefir kaupgjaldið í sveitum hingað til ekki verið svo lágt í samanburði við kaupgjald í kaupstöðum, að við sæjum ástæðu til þess að skipta okkur af því, meðan næg er þörfin fyrir mikið skipulagsstarf við sjóinn. Ég vænti þá, að hv. þm. geti með góðri samvizku greitt atkv. með þessu frv., þótt hann réðist á móti því í vetur sem leið.