23.07.1931
Efri deild: 8. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (2449)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Pétur Magnússon:

Ég ætla ekki að tala um efni þessa máls. Um það veit ég, að hv. 1. flm. er einfær. En ég vildi mótmæla ummælum hv. 2. landsk. um afstöðu bæjarstj. Reykjavíkur til Sogsvirkjunarinnar. Það er ekki svo að skilja, að það sé ný bóla að heyra jafnaðarmenn hamra á því, að svokallaður „íhaldsmeirihluti“ í bæjarstj. hafi jafnan verið þessu máli fjandsamlegur. Á þessu hefir verið hamrað í Nd. og í blöðum Alþýðuflokksins ár eftir ár, og ósannindin hafa svo oft verið endurtekin, að mér þykir mjög sennilegt, að hv. 2. landsk. sé nú farinn að trúa þeim sjálfur.

Þetta mál hefir nú verið á dagskrá í 7 ár. Sjálfstæðismenn beittu sér þegar fyrir undirbúningi þess í rafmagnsnefnd, en hinsvegar sýndi jafnaðarmaður sá, er þar átti sæti, engan áhuga á málinu. Mér er kunnugt um þetta, þar sem ég átti sjálfur sæti í rafmagnsnefnd til 1928. Þrír af fjórum sjálfstæðismönnum í rafmagnsstjórn töldu þetta mál brýna nauðsyn, en einn vildi láta stöðina við Elliðaárnar borga sig betur niður áður en hafizt væri handa. Þegar Sigurður Jónasson var kosinn í bæjarstj. 1928, var búið að gera virkjunaráætlun og fallvatnið athugað. Þessi maður hefir, sem kunnugt er, beitt sér fyrir málinu af talsverðum hávaða og vafalaust af miklum dugnaði, en ekki er ég viss um, að hann hafi flýtt fyrir framgangi þess að sama skapi. En það liggur í hlutarins eðli, að málið gæti ekki verið komið svo langt áleiðis sem það er, ef Sjálfstæðisflokkurinn í bæjarstjórn hefði verið því andvígur, þar sem hann hefir ávallt haft, og hefir enn, hreinan meiri hl. í bæjarstj. Sannleikurinn er sá, að sjálfstæðismenn eiga frumkvæðið að þessu máli og hafa jafnan stutt að framgangi þess. Jafnaðarmenn mega gjarnan eigna sér heiðurinn af því, ef þeim er ánægja í því, en þeir ættu helzt að venja sig af því að segja vísvitandi ósatt um afstöðu andstæðinganna.