19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

1. mál, fjárlög 1932

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 342, og vil ég nú fara nokkrum orðum um þær. Fyrstu brtt., þá, sem fer fram á stærsta upphæð, flyt ég ásamt hv. 1. þm. Reykv. Það er framlag til Hafnarfjarðarvegar til atvinnubóta fyrir Rvík og Hafnarfj. Ég býst við, að öllum hv. þdm. sé kunnugt um það, hversu ískyggilegt það atvinnuleysi er, sem nú steðjar að, svo alvarlegt, að ef ekki verður reynt að bæta eitthvað úr því, má búast við, að sultur verði í vetur í búi margra verkamanna, bæði í þessum tveimur bæjum, sem ég hefi nefnt, og eins annarsstaðar á landinu. Það hafa nú verið gerðar ýmsar ráðstafanir, þó að kannske af vanefnum sé, bæði í þessari hv. d. og eins í Nd. til að veita fé til ýmissa fyrirtækja, sem á að gera þeim kaupstöðum þar með kleift að halda uppi atvinnu nú í bráð, og má e. t. v. byrja á þeim atvinnubótum strax í haust. Aftur hefir ekkert verið ákveðið um þessa tvo bæi, sem hér um ræðir.

Þegar rætt var um atvinnubætur í Nd. við 2. umr. fjárlagafrv., var það helzt fundið til foráttu þeim till., sem þá komu fram, að ekki væri ákveðið að vinna nein tiltekin verk fyrir það fé, sem ríkið átti að leggja fram, og í öðru lagi var ekki gert ráð fyrir, að viðkomandi bæir legðu neitt af mörkum sjálfir til atvinnubóta. Hér er nú sleginn varnagli við hvorutveggja, bæði tekið skýrt fram, til hvers eigi að verja fénu, og einnig er tekið fram, að hvort bæjarfél. fyrir sig eigi að leggja jafnmikið fé á móti, hvor bær að tiltölu við fólksfjölda.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að því er Hafnarfj. snertir, að þar verður nú mjög ískyggilegt útlit á komanda hausti, og kemur það líka til af því, hvað mikið atvinnuleysi var þar síðastl. vetur og að ekkert fékkst til atvinnubóta af stjórnarinnar hálfu, þar sem Rvík fékk þó nokkuð, þótt af skornum skammti væri. Þess vegna var það, að fátækraframlag í Hafnarfirði var 40–50 þús. kr. meira síðastl. vetur en vanalega hefir verið. Því er það svo, að þar sem brtt. hæstv. forsrh. gerir ráð fyrir, að bæjarfélögin leggi fram 3/5, á móti ríkissjóði, allt að 300 þús. kr., þá býst ég ekki við, að Hafnarfj. geti fengið nægilegt fé á móti framlagi ríkissjóðs nema með aðstoð stj. þannig, að hún veiti þá hjálp, sem Hafnarfj. þarf með nú í atvinnuleysinu. Aftur á móti væri talsverð bót ráðin á, ef bærinn þyrfti ekki að leggja nema helming fram á móti ríkissjóði.

Þess má geta í sambandi við þessa tvo bæi, sem nú er farið fram á að veita þessa hjálp, að það eru þeir, sem að undanförnu hafa veitt ríkissjóði mestar tekjur, og er því ekki nema réttlætiskrafa, að þeim sé nú veittur þessi styrkur.

Það liggur í hlutarins eðli, að þegar ríkið á að leggja fé í einhverjar framkvæmdir, þá ber að vinna þau verk, sem eru þörf og nauðsynleg. En þetta verk, sem hér er talað um, vegurinn milli þessara tveggja bæja, er verk, sem ríkið verður óhjákvæmilega að láta vinna nú á næstu árum, til að fullnægja þeirri vaxandi þörf, sem er á góðum vegum.

Vegamálastjóri hefir sent samgmn. bréf um þetta efni, og þar er það skýrt tekið fram, að mjög mikil þörf sé á vegi milli þessara tveggja bæja, vegna þess að sá vegur, sem nú er þar á milli, svari alls ekki þeirri kröfu, sem gera verði til vegarins. Hinsvegar er hann ekki jafnviss um það, hvort heppilegra muni að leggja nýjan veg eða bæta þann gamla. Þó hefir mér skilizt á bréfi hans, að hann hallist frekar að því, að vegur til frambúðar fáist aðeins með því móti að leggja nýjan veg, eins og farið er fram á í frv. mínu, sem legið hefir fyrir þessari hv. d. Þess vegna er ekkert tekið fram um þetta í till. minni. hvora leiðina skuli fara, aðeins gert ráð fyrir því, að vegamálastjóri verði svo fljótt búinn að átta sig á því, hvora leiðina skuli fara, að hægt verði að byrja á því í haust og bæta þannig úr atvinnuleysinu. Það má meira að segja gera ýmislegt, þó að vegamálastjóri sé ekki búinn að taka endanlega ákvörðun um þetta, t. d. mylja grjót og annað þessháttar, vegagerðinni til undirbúnings. Það veitir talsverða atvinnu og því minni bagi að því, þó að ekki verði byrjað undir eins á verkinu, enda segir vegamálastjóri í þessu erindi sínu, að sér sýnist þessi vegur tilvalinn til atvinnubóta í haust.

Ég veit, að allir hv. dm. eru sammála um það, að það beri að gera meira en lítið til þess að bæta úr atvinnuleysi þessara tveggja bæja, því að ef hér verður atvinnuskortur, þá líður allt landið við það. Sveitirnar fá ekki síður að kenna á því. Bæði þurfa þær að koma afurðum sínum hingað á markaðinn og auðvitað fá gjald fyrir þær, og þar að auki hlýtur það að rýra tekjur ríkissjóðs, bæði tolla og skatta, ef lítil verður kaupgetan. Þrátt fyrir það þó að fleiri brtt., sem ganga í svipaða átt, verði samþ., svo og till. hæstv. forsrh., þá býst ég ekki við, að veiti af að samþ. þessa till. líka, þar sem svo alvarlegt atvinnuleysi steðjar að sem nú er fyrirsjáanlegt.

Þá kem ég að VIII. brtt. á sama þskj. Þar er farið fram á að veita 2000 kr. til aukakennslu í læknisfræði, og skal svo læknadeildin ráðstafa því fé. Jafnframt þessu er ætlazt til, að niður falli 3 liðir, þar sein er kennsla í lagalæknisfræði, augnlækningafræði og geðsjúkdómafræði. Ég minntist á þessa liði við 2. umr. og fer því ekki frekar út í það nú, en vil bara árétta það, hve mikil nauðsyn er á þessu, einkanlega þó með geðsjúkdómafræðina, sem er brýn þörf á, að kennd sé við háskólann.

Hvað viðvíkur brtt. við þennan lið, sem fram er borin af hv. 5. landsk., þá er því þar til að svara, að ég býst við því, að enginn sé færari um að velja hæfan mann í þessa stöðu en einmitt læknadeild háskólans. Hún er sá aðili, sem hefir vegna þekkingar sinnar vit til og heiðurs síns vegna vilja til að velja bezta manninn. Það kemur líka dálítið kynduglega fyrir, að í þessari brtt. er eingöngu gert ráð fyrir, að sá maður, sem valinn yrði, sé reyndur að reglusemi og skyldurækni við lækningastörf. Við vitum, að meðal lækna eins og annara starfsmanna eru margir, sem eru ekki vel að sér í sínu starfi, þó að þeir séu reyndir að skyldurækni og reglusemi, en hér verður aðallega að fara eftir því við valið, að maðurinn sé vel að sér í þeirri grein, sem hann á að kenna. Reglusemi og skyldurækni eru auðvitað ágætir kostir, sem þurfa að fylgja með.

Þá kem ég loks að síðustu brtt. minni á þessu þskj. Það er styrkur til bókasafnsins í Hafnarfirði. Ég þarf ekki að fara langt út í það nú, þar sem var svo rækilega talað um það mál við 2. umr., en ég vil aðeins vona, að hv. d. sé nú svo örlát að veita umbeðinn styrk til þess að hægt sé að halda opinni lesstofu, en þar sem ekki fékkst sá styrkur, sem farið var fram á við 2. umr., ber ég nú fram till. um lægri upphæð, þá lægstu upphæð, sem hugsanlegt er að veita til bókasafnsins. Þó að þessi styrkur sé lítill, er það skoðun mín, að hann yrði samt til þess, að hægt væri að hafa bókasafnið opið ofurlítið lengur á hverjum degi en annars er hægt.

Þá á ég brtt. á þskj. 346. Þar er farið fram á, að hækkuð sé áætlun á nokkrum tekjustofnum ríkissjóðs. Ég hefi borið fram þessar till., af því að ég álít, að tekjuáætlun fjárlagafrv. sé svo varleg, að það virðist vel forsvaranlegt að bera fram brtt. um þessa hækkun, 200 þús. kr., sömu uphæð og ætlazt er til, að fari til Hafnarfjarðarvegar.

Ég tók einmitt þessa liði, þar sem um mestu óþarfavörurnar er að ræða, af því að ég álít, að bezta dæmið sé að taka munaðarvörurnar í slæmu árferði og sjá, hvort þeir liðir fara fram úr áætlun fjárlaganna, því að ef þeir liðir fara fram úr áætlun, þá hljóta hinir liðirnir líka að vera varlegir, þar sem óþarfavörur hljóta að vera minna keyptar í slæmu árferði.

Ég hefi gert samanburð á nokkrum liðum í landsreikningi og fjárl. 4 síðustu ára. Það var með vilja, að ég tók ekki 5. árið, 1925, ég gerði það til að forðast alla hlutdrægni, því að það ár voru allar tolltekjur yfirleitt hærri en hin árin. Þá kom það í ljós, að þessir liðir voru með brtt. mínum um 200 þús. kr. hækkun lægri en meðaltal þessara tekjuliða í síðustu 4 ár, og er þó þar með talið kreppuárið 1926 og afleiðingar þess kreppuárs 1927. Og þetta eru munaðarvörur, sem í slæmu árferði ættu að vera minna keyptar og því minni tekjur af fyrir ríkissjóð heldur en þegar árferði er gott. Ég álít það því fullforsvaranlegt að koma með þessar hækkunartill. jafnframt því, sem lagt er til, að sömu upphæð sé varið til þeirra atvinnubóta, sem ég hefi minnzt á, þar sem tekjubálkurinn er svo varlega áætlaður sem sjá má af þessum samanburði mínum.

Ég vil ekki setjast svo niður, að ég minnist ekki með örfáum orðum á aðra brtt. hér frá hv. 5. landsk. Hún er á þskj. 342, styrkur til Stórstúkunnar. Þar er farið fram á, að 1/3 af þeim styrk sé varið eftir fyrirmælum kennslumálaráðuneytisins til að efla bindindisstarfsemi í skólum. Það liggur í hlutarins eðli, að ef þessi brtt. er samþ., þá er þessi styrkur til Stórstúkunnar rýrður að miklum mun, því að þessi hluti kemur þá ekki að þeim notum, sem ætlazt hefir verið til. Á hinn bóginn virðist það vera sett kennslumálaráðuneytinu á vald, ef það vill, að gera eitthvað í þessu máli í skólunum. Ég býst við, að í öllum skólum sé kennd náttúrufræði og víða heilsufræði, og ég veit, að þeir kennarar, sem kenna þessar námsgreinar, mundu með ljúfu geði halda fyrirlestra í skólunum um bindindi og skýra skaðsemi áfengis og tóbaks fyrir nemendum sínum. Slík fræðsla mundi koma alveg að sama gagni og það, sem á að vinna með framkvæmd þessarar brtt.