31.07.1931
Efri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

5. mál, verðtollur

Magnús Torfason:

Það hefir ýmislegt verið sagt um þetta mál, og hefir það að mestu farið framhjá því, sem kom til orða í fjhn., sem hafði þetta mál til meðferðar. Ætla ég ekki að fara út í þá sálma að öðru leyti en því, sem hv. minni hl. n., hv. l. landsk., gaf mér tilefni til, þar sem hann setti hér fram í d. skilyrði fyrir samþykkt frv. að sínu leyti, sem mér fannst hann leggja aðalþungann og áherzluna á og var þetta skilyrði það, að sett yrði trygging fyrir því, að núv. eða væntanleg stj. Framsóknarfl. væri hér eftir í meira samræmi við fjárveitingavaldið en verið hefir á síðustu árum. Með því nú að hv. 1. landsk. hefir borið þetta fram hér í d. en ekki í samtali við n. eða hæstv. stj., vildi ég mega beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort hann vildi ekki hér gefa upplýsingar um það, í hvaða átt þessar tryggingar eiga að ganga. Vænti ég þess, að hæstv. forseti leyfi hv. þm. að svara þessu í aths. sinni, þar sem hann hefir nú talað sig dauðan.