14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

5. mál, verðtollur

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv þm. Seyðf. hefir hin sama hátt í sinni síðari ræðu sem hinni fyrri, og ég get látið mér það vel líka, að hann hefir það fullkomlega á tilfinningunni, að hann þurfi aðallega að snúa máli sínu til mín. Ég veit, að hann hefir fundið af viðskiptum þessum, að hann telur sig ekki hafa hlotið þann sigur, sem hann hugði sér, þegar hann óskaði eftir útvarpsumræðum.

Ég þarf aðeins einu atriði að svara úr ræðu hv. 4. þm. Reykv. Hann lýsti yfir því, að framsóknarm. hefðu enga stefnuskrá í skattamálum. Þessu get ég verið fljótur að svara, af því að hv. fulltrúi jafnaðarmanna hefir gert mér þann greiða að lesa upp stefnuskrá okkar framsóknarmanna, sjálfsagt þrisvar sinnum. Er ég honum þakklátur fyrir.

Þá mun ég víkja nokkrum orðum að síðustu ræðu hv. þm. Seyðf., en þar sem reglum um útvarp frá Alþingi er þann veg háttað, að hann hefir ekki leyfi til að tala aftur, mun ég ekki nota mér af því, þó að ég fái að tala á eftir honum, né bera fram neina hluti eða staðhæfingar, sem hv. þm. gæti talið ástæðu til að svara sérstaklega. Ég mun því aðeins fara nokkrum orðum um það, sem ræða hv. þm. gaf mér beint tilefni til.

Hv. þm. vildi enn halda því fram, að ég hefði verið svo slyngur að gabba hann og flokksbræður hans í þessu máli á þinginu 1928, og hefði ég fengið þá til að snúa frá stefnu síns flokks í málinu og taka upp aðra stefnu, sem ég hefði sjálfur fylgt fram. Vil ég algerlega neita þeim ákúrum, sem í þessu felast í garð hv. þm. Seyðf. sjálfs og flokksmanna hans, og þá einkum í garð sjálfs form. flokks hans, hv. 2 landsk. Hv. þm. gerir allt of lítið úr sjálfum sér og flokksbræðrum sínum. Sú afstaða, er flokkur hv. þm. tók til þessa máls 1928, átti ekki rætur sínar að rekja til þess, að ég hefði verið svo slyngur að geta vafið hv. jafnaðarmönnum um fingur mér, heldur var hún þann veg til komin, að jafnaðarmenn höfðu þá meiri ábyrgðartilfinningu til að bera en nú, og mátu meira að skapa sér aðstöðu til þess að geta raunverulega unnið að því að bæta hag hins vinnandi fólks. Þeir vildu þá taka á sig ábyrgðina á því að leggja byrðar á þjóðina að sínum hluta, til þess að verða þess megnugir að bæta aðstöðu og lífskjör hins vinnandi fólks úti um landið. Ég harma hina breyttu afstöðu hv. þm. Seyðf. og flokks hans, því að hún ber því vitni, að jafnaðarmenn láta ímyndaða flokkshagsmuni vega meira en að halda áfram samvinnunni við þá menn, sem reiðubúnir eru til að stuðla að bættum hag smælingjanna í sveitum og kaupstöðum landsins. Í þessu sambandi kom hv. þm. Seyðf. inn á það, sem ég hafði sagt um hina ólíku aðstöðu og ábyrgðartilfinningu hans sem útibússtjóra Útvegsbankans á Seyðisfirði og sem þingmaður, og vildi hv. þm. láta skína í það, að ég héldi sverðinu yfir höfði hans og gæti svipt hann stöðunni, þegar mér sýndist svo. Vildi hv. þm. auðsjáanlega gera sig að einskonar píslarvotti út af þessu í augum hlustenda okkar beggja úti um landið. Mér er nú spurn: Gaf ég tilefni til þessa? Sagði ég nokkuð það, sem gæti gefið hv. þm. ástæðu til að koma með þessar aðdróttanir? Nei, þvert á móti. Ég sagði, og lagði áherzlu á það, að einmitt í skylduverkum sínum sem útibússtjóri hefði hv. þm. staðið vel í stöðu sinni og breytt rétt, þó að hið sama yrði ekki sagt um hann sem þm. Og eins féllu orð mín um flokksbræður hv. þm. Ég gaf einmitt hv. þm. traustyfirlýsingu fyrir það, hve vel hann rækti þetta starf sitt, svo að ef ég hefi valdið til að svipta hann stöðunni, fer því mjög fjarri, að hann þurfi að óttast um sig í þessu efni eða kvíða píslarvættis af minni hendi, þar sem einmitt sá maðurinn, sem að dómi hv. þm. hefir sverðið hangandi yfir höfði hans, hefir lokið lofsyrði á frammistöðu hans í þessu embætti. En hvað sem því líður, að ég hafi sverðið hangandi yfir höfði hv. þm. Seyðf. sem bankastjóra, þá hefi ég þó ekki valdið til að láta það hanga yfir höfði hans sem þm., svo gjarnan sem ég kysi mér það vald í hendur, því að sem þm. brýtur hann á móti því, sem vera á. Hann hefir staðið vel í stöðu sinni sem starfsmaður við útibú Útvegsbankans á Seyðisf., en illa sem umbjóðandi verkamanna og sjómanna á þessum sama stað. Hv. þm. Seyðf. og flokksbræður hans hér á þingi hafa látið hagsmuni hins vinnandi fólks úti um landið víkja fyrir ímynduðum hagsmunum jafnaðarstefnunnar hér á landi. Og er það illa farið.

Ég get látið þetta nægja út af ræðu hv. þm. Seyðf. og mun ekki víkja fremur að einstökum efnisatriðum í ræðu hans, og þá meðfram af því, að hv. þm. gefst ekki tækifæri til að svara mér aftur, en ég vil aðeins, um leið og sá tími styttist, sem ég hefi til umráða, láta í ljósi gleði mína yfir þessum umr., sem hafa varpað skýru ljósi yfir afstöðu flokkanna til þessa máls. Er gott til þess að vita, að fólkið úti um land hefir nú fengið ferskar og glöggar fregnir af þinginu og því, sem þar gerist, og vil ég sérstaklega láta það koma fram, hvernig ég álít, að flokkarnir eigi að ganga undir ábyrgðina á þessum alvörutímum, sem nú hafa komið yfir okkar land. Vil ég því enda ræðu mína út frá því, sem hv. þm. Seyðf. beindi til mín og annara framsóknarmanna í niðurlagi ræðu sinnar, út af því, sem ég hafði sagt um ólíka ábyrgðartilfinningu jafnaðarmanna fyrr og nú. Hv. þm. Seyðf. beindi því til okkar framsóknarmanna, hvar væri ábyrgðartilfinning okkar og í hverju hún hefði komið fram. Er mér þetta kærkomið tilefni til að rifja upp sögulegt dæmi um það, hvernig við framsóknarmenn höfum sýnt það í verkinu, hvaða skyldur við álítum, að hvíli á þm. á slíkum alvörutímum. Þarf ég ekki að fara langt aftur í tímann til þess að finna þetta dæmi, því að það er frá þinginu 1924, því fyrsta þingi, sem ég átti sæti á. Þá voru nýafstaðnar nýjar kosningar, alveg eins og nú, og afstaðan í þjóðfélaginu að mörgu leyti lík sem nú er hún. Það höfðu gengið harðæri yfir landið, atvinnuvegirnir stóðu höllum fæti, afurðasalan var afaróhagstæð og kreppa og vandræði fram undan. Á þessu þingi, fyrir 7½ ári síðan, tók ný stjórn við völdum, stj., sem við framsóknarmenn vorum í fullri andstöðu við, enda höfðum við fulla reynslu um tvo af þremur ráðh. Hafði ég sem ritstjóri t. d. farið mjög hörðum orðum um það, hversu þessum mönnum hafði mistekizt í að stjórna landinu. En við framsóknarmenn létum það ekki ráða afstöðu okkar til þessarar stj. og mála þjóðarinnar á þessum alvörutímum, þó að við hefðum verið í andstöðu við stj. og treystum henni ekki til að stýra málefnum landsins –þegar voðinn stóð fyrir dyrum létum við ábyrgðartilfinninguna ráða og settum okkur alveg við hlið stjórnarvaldanna um fjármál landsins og afgreiðslu fjárlaganna. Við lögðum miklu vinnu í það að afgreiða fjárl. á forsvaranlegan hátt, tókum okkar þátt í því að afla ríkissjóði nauðsynlegra tekna og tókum á okkur ábyrgðina að okkar hluta um það að leggja óhjákvæmilegar byrðar á þjóðina, til þess að fleyta landinu yfir kreppuna. Við gerðum það að eina atriðinu að sjá landinu fjárhagslega borgið í kreppunni.

Nú stendur líkt á og 1924, og þó að sumu leyti enn erfiðar. Atvinnuvegirnir búa við enn skuggalegra útlit en þá. Verðfall afurðanna er þegar orðið gífurlegra en nokkru sinni áður, og má þó búast við, að ástandið versni enn. Nú hefir það komið fyrir, sem ekki var 1924, að í eitt ár var ekki hægt að selja eina aðalframleiðsluvöru landsmanna. Þess vegna ber nú eins og árið 1924 að láta allt annað víkja fyrir því að sjá landinu fjárhagslega borgið. Er nú gott að minnast þess, hvernig við framsóknarmenn vikumst undir ábyrgðina 1924 og studdum að okkar hluta að því að koma landinu þá yfir kreppuna. Nú eiga allir, eins og við framsóknarmenn gerðum þá, að láta það sitja fyrir öllu að standa í skilum og forða áföllunum. Sú skylda hvílir jafnt á öllum fulltrúum þjóðarinnar.

Nú, þegar aðeins eru ósögð síðustu orðin í þessum umr., vil ég með leyfi hæstv. forseta beina nokkrum kveðjuorðum til þeirra víðsvegar úti um land, sem nú í fyrsta skipti hafa hlustað á útvarp frá Alþingi.

Við þm. óskum heilla þeim mönnum víðsvegar úti um byggðir landsins, sem nú hafa hlustað á okkur. Við óskum þeim heilla um framleiðsluna í hinni góðu tíð, sem dregur úr afleiðingum ótíðar í vor og kreppunnar. Margir eru þeir í þingmannahópnum, sem vildu nú fegnir vera burtu úr hinum þröngu sölum Alþingis út í náttúruna, út til starfa mitt á meðal okkar. Óskipta samúð vill Alþingi í heild geta sýnt hinu vinnandi fólki, hvar sem er á landinu, og stuðla að því, að áfram geti sem flest landsins börn fengið að njóta blessunar vinnunnar. En þó ríður mest á því, að við fulltrúar þjóðarinnar vinnum saman á þessum alvörutímum.

Hafi þeir svo þökk, sem hlýddu, hvar sem þeir eru staddir á landinu. Góðar nætur.