14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

5. mál, verðtollur

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. fór um það nokkrum orðum, hve vel Framsóknarflokkurinn hefði snúizt við nauðsynlegum ráðstöfunum í kreppunni 1929. Skal ég ekki draga úr því, að flokkur hæstv. ráðh. lét þáv. stj. í té þann tekjuauka, sem nauðsynlegur var, en ég get þó ekki vegna þessara ummæla hæstv. ráðh. látið hjá líða að minna á það, að ekki hafði þó flokkur hans einbeittari vilja í þessa átt en það, að fresta varð fundum hér í d., til þess að flokkurinn gæti ráðið með sér, hvaða afstöðu hann skyldi taka um þau mál. Sýnir þetta, að einhver efi hefir ríkt í flokknum um það, hvernig rétt væri að bregðast við um þessar málaleitanir þáv. stj. — Ég skyldi orð hæstv. ráðh. svo sem hann vildi þakka okkur sjálfstæðismönnum fyrir það, að við hefðum ekki snúizt gegn verðtollinum að þessu sinni. Mætti ýmislegt í því sambandi segja, en ég vil ekki fara út fyrir þann ramma, sem þessar umr. skapa. Þó get ég ekki látið því ómótmælt, að goðgá hefði verið, þó að dregið hefði verið úr verðtollinum á ýmsum sviðum frá því, sem hann er nú, eins og hæstv. forsrh. vildi halda fram. Ég lít þvert á móti svo á, að nauðsynlegt sé að draga úr tollinum á ýmsum nauðsynjavörum, því að það er fullvíst, að þær eru nú margar hverjar allt of hátt tollaðar. Vil ég taka undir það með hv. þm. Seyðf., að ekki fáar nauðsynjavörur almennings eru nú svo hátollaðar, að ekki nær nokkurri átt. Vill líka svo vel til, að bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa látið uppi álit sitt um þessi mál, þar sem er frv. meiri hl. þeirrar milliþinganefndar, sem skipuð var í skattamálunum, um verðtollinn meðal annars. Vil ég í þessu sambandi benda á það frv., og ekki síður beina því til hv. þm. Seyðf. en hæstv. forsrh., því að hv. þm. Seyðf., sem einnig átti sæti í þessari mþn., hefir talað hér í kvöld eins og hann væri á móti verðtolli yfirleitt, hverju nafni, sem hann nefndist, en ekki greindi hann þó meira á við okkur samnm. sína en svo, að hann gat látið sér nægja að bera fram 2–3 brtt. við frv. okkar. En rétt er, að ég láti þess getið, að þær till. hans voru að vísu allróttækar.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að við sjálfstæðismenn hefðum svikið kjósendur okkar með því að játa stj. fá framlengingu á þessum tekjuaukalögum. Þessu vil ég algerlega neita. Ég veit ekki til þess, að nokkrar slíkar skuldbindingar hvíli á okkur sjálfstæðismönnum, enda á enginn flokkur að nota slíkar aðferðir, nema stj. brjóti svo mikið af sér, að með öllu sé óviðunandi. Ég þykist vita, að hv. þm. Seyðf. hafi með þessu átt við kjördæmaskipunarmálið, en stj. hefir ekki síðan eftir kosningar brotið svo mikið af sér í því máli, að ástæða sé til að neita henni um tekjur fyrir nauðsynlegum gjöldum. Vil ég fyrir mitt leyti bíða eftir því, að milliþinganefndin, sem skipuð verður í það mál, lúki störfum, en ef Framsóknarflokkurinn vill þá ekki unna öllum landsmönnum sanngjarns kosningaréttar, getur komið til mála að nota þau meðul, sem hv. þm. Seyðf. telur, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að nota strax. Annars fer því mjög fjarri, að jafnaðarmenn hafi sýnt stj. slíka hörku, því að þeir hafa nú flutt meiri og stórkostlegri tekjuaukafrv. en nokkru sinni áður, og þó þau séu flutt í sérstökum tilgangi, er auðsætt, að stj. með þeim fengi svo mikið fé til umráða, að hún þyrfti ekki neinu að kvíða af þeim ástæðum.

Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég vil að lokum minna á það, að löggjafarvaldinu er skylt að stilla sköttunum svo í hóf, að þeir drepi ekki niður atvinnuvegi þjóðarinnar. Er einkum ástæða til að minna hv. þm. Seyðf. á þetta, því að hann virðist oft gleyma því. Og hvað verður um hið vinnandi fólk, ef atvinnuvegirnir eru sligaðir með of háum sköttum?

Ég læt svo lokið máli mínu og óska öllum, sem enn eru vakandi og á mig hlusta, góðrar nætur.