03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

125. mál, fasteignamat

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta er flutt af hv. 2. þm. Eyf., fyrrv. fjmrh., í samræmi við frv., er fram kom á síðasta þingi um það að skipa yfirmatsnefnd, til þess að samræma fasteignamat, er fram fór á síðasta ári. Fjhn. leggur til, að frv. verði samþ. Einn nm. hafði sérstöðu til málsins, og geri ég ráð fyrir því, að hann muni sjálfur gera grein fyrir henni.

Það er sjálfsagður hlutur, að svo hagar til víða í sveitum, að nauðsynlegt er, að yfirmat fari fram, til þess að samræma ósamræmi það, sem á sér stað milli hinna ýmsu héraða. Kom það greinilega í ljós við fasteignamat 1918–19, að ekki var sami grundvöllurinn lagður undir matið í öllum héruðum. Reyndar held ég, að minna muni bera á þessum mismun nú. en þó er sjálfsagt, að yfirmat fari fram. Um kaupstaði er öðru máli að gegna. Þar er erfiðara að bera saman og varhugavert að ganga þar alstaðar út frá sömu forsendum. Þess vegna er starfssvið n. að mínum dómi aðallega það að samræma fasteignamat í sveitum. Hinsvegar er varla hægt að telja nefndinni skylt að vinna þetta starf í kaupstöðum, þó að það þyrfti að gera, því að slíkt væri geysimikið verk.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum fyrir hönd n., enda geri ég ráð fyrir, að hv. d. líti svipuðum augum á málið og frv. nái fram að ganga.