18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

1. mál, fjárlög 1933

Jörundur Brynjólfsson:

Ég hefi leyft mér ásamt hv. þm. Rang. að flytja hér brtt. á þskj. 418,X., um að veita vöruflutningsstyrk til hafnleysishéraðanna á Suðurlandi, ef frv. það um bifreiða- og benzínskatt, sem nú liggur fyrir þinginu og komið er til Ed., verður að lögum. Eins og kunnugt er, er á Suðurlandsundirlendinu mesta hafnleysissvæði landsins. Þar er sjaldan hægt að koma vörum á land, og verða því allir aðalflutningarnir að fara fram landleiðina frá Reykjavík. Sú leið er bæði löng og erfið og flutningarnir mjög kostnaðarsamir, því að nú er svo komið, að bændur geta ekki flutt vörur sínar til og frá öðruvísi en á bifreiðum. Bæði er leiðin seinsótt á annan hátt, og svo er bílaumferðin orðin það mikil um þjóðveginn, að ókleift má telja að fara um hann með hestvagna. Verði frv. um bifreiðaskatt samþ., verður því afleiðingin sú, að allmikill skattur leggst á flutninga héraðanna austanfjalls, og ekki sízt á þeim tímum, sem nú eru, má það heita óbærilegt, ef ekki koma einhverjar ívilnanir á móti. Það má vera að víu, að þessi skattur komi illa við einstakar sveitir annarsstaðar á landinu, en ég hygg þó, að því verði ekki móti mælt, að þyngst kemur hann niður á Árness og Rangárvallasýslum. Þar eru 20 til 30 hreppar, sem þurfa að flytja vörur sínar frá fimmtíu upp í talsvert á annað hundrað km. leið með bílum, og má nærri geta, að eftir frv. eins og það nú er gert úr garði leggst mjög þungur skattur á flutninga þeirra. Við höfum því stílað þessa brtt. okkar svo, að hún á aðeins við hafnleysishéruðin á Suðurlandi. En ég viðurkenni, að sanngjarnt væri að taka tillit til einstakra héraða víðar á landinu, sem erfitt eiga um flutninga, og mundi ég fyrir mitt leyti ekki hafa á móti brtt. eða viðaukatill. í þá átt.

Ég get svo látið útrætt um þetta efni. Væntanlega er hv. þdm. það ljóst, að það er ekki að ástæðulausu, að við flytjum þessa till. Ég fyrir mitt leyti fylgdi frv. um bifreiðaskatt vegna þeirrar nauðsynjar, sem er á því að leggja meira fé til viðhalds og nýbygginga vega heldur en maður getur búizt við að hægt sé nú, að skattalöggjöfinni óbreyttri. Og það er ljóst, að sú greiðsla eða ívilnun, sem við fórum fram á í brtt., er ekki nema sem svarar nokkrum hluta af því, sem greiða þarf af flutningum jafnvíðlends og fjölmenns héraðs eins og hér er um að ræða eftir frv. um bifreiða og benzínskatt. Verður maður að beygja sig þar fyrir nauðsyninni á að fá aukna fjármuni til veganna.

Þá hefi ég enn á ný leyft mér að flytja brtt., sem er XXXII. á sama þskj., um að greidd verði til Búnaðarbankans skuld, sem Áslækjarrjómabúið stendur í við viðlagasjóð. Ég gerði nokkra grein fyrir þessu máli við 2. umr. fjárl., og skal ég ekki þreyta hv. þdm. með endurtekningu á því, sem ég sagði þá, en mun aðeins drepa á höfuðatriðin. Í upphafi var stofnað til þessarar skuldar, til þess að kaupa áhöld til smjörlíkisgerðar. En þegar þessi áhöld höfðu verið keypt, komu fram upplýsingar um það frá fróðum mönnum í þessu efni, að það gæti stafað hætta af því að hafa smjörlíkisgerð í sambandi við rjómabú, að smjörið kynni að taka í sig keim af þeirri iðju. Voru þá samþ. lög um, að þessi starfsemi mætti ekki fara saman. Nú fékk að vísu þetta rjómabú undanþágu frá þeim lögum, en vegna þeirra umr., sem urðu um málið, sýndi ráð sig, að neytendurnir óttuðust, að smjörið kynni að vera gallað frá þessu rjómabúi, svo að þeir, sem starfræktu það, sáu sér þann kost vænstan að hætta algerlega smjörlíkisgerðinni, til þess engin tortryggni gæti komizt að. Þeir sátu þá uppi með áhöldin verðlaus, og sökum ýmiskonar annara framkvæmda, sem ráðizt hefir verið í í þessu hreppsfélagi, og sökum hins almenna ástands atvinnuveganna, geri og ráð fyrir, að bændunum þarna verði um megn að standa straum af umræddu láni til að greiða það. En nú hefir verið kallað allmjög eftir greiðslu þess, sem von er til.

Ég vænti að hv. þd. sýni þessari till. minni fulla sanngirni, og skal ekki fjölyrða um hana frekar.

Þá á ég enn brtt. á sama þskj., nr. XLV., um að stj. skuli heimilt að skipa þriggja manna n., til að athuga ástand Flóaáveitunnar og fjárhagsgetu bænda á áveitusvæðinu til greiðslu á skuldum við ríkissjóð vegna áveitunnar og mjólkurbúss Flóamanna, og að stj. skuli svo að fengnu áliti þeirrar n. leggja till. fyrir næsta þing unz lausn þessara mála. Eins og kunnugt er, er áveitu þessari nú lokið og byggingu mjólkurbúsins einnig. Kostnaðurinn við þessar framkvæmdir hefir orðið mikið meiri en gert var upphaflega ráð fyrir. Er ekki að undra, þótt þannig tækist til, þar sem slík mannvirki sem þessi voru áður svo að segja óþekkt hér á landi. Samkv. Flóaáveitulögunum eiga þeir, sem á áveitusvæðinu búa, að greiðu kostnaðinn af áveitunni að undanskildum þeim ríkisstyrk, sem þar er ákveðinn. En tilskilið er, að eigendur jarðanna þar megi greiða kostnaðinn að meira eða minna leyti með landi, eftir því sem um semst, eins og ég tel líka sjálfsagt, þar sem landrými er nægilegt og því verður við komið. En þegar fara á að framkvæma þessi ákvæði og ráða þessum málum til lykta, þarf til þess náinn kunnugleita og mikla athugun, ef allt á ekki að verða af handahófi gert. Það þarf eitthvert samræmi að vera í slíkum aðgerðum, og ég hygg, að ekki verði fengin niðurstaða í þessu máli með öðru móti en því, að ýtarleg rannsókn sé látin fram fara fyrst. Finnst mér því vel út fallið, að nú séu fengnir til þrír góðir menn til að framkvæma þá rannsókn og að hæstv. stj. geri svo í samráði við þá till. um málið og leggi þær fyrir næsta þing. Ég tel í alla staði nauðsynlegt, að fengin verði einhver niðurstaða um það, með hverju móti leyst verður úr þessu máli; óvissa og aðgerðaleysi ár eftir ár er alveg óviðunandi fyrir alla hlutaðeigendur, bæði ríkissjóð og bændurna á áveitusvæðinu. Ég vænti, að hv. d. sjái nauðsyn þessa mals og geti fallizt á þá uppástungu, sem ég leyfi mér að bera fram með þessari brtt. til undirbúnings. Seinna gefst svo þinginu kostur á að segja álit sitt um þær till., sem fram yrðu bornar samkv. áliti n., hvort það getur fallizt á þær eða hvort það telur einhverja aðra lausn heppilegri.

Um aðrar brtt. við fjárlagafrv. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Ég mun með atkv. mínu sýna, hvaða augum ég lít á þær hverja fyrir sig.