20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í C-deild Alþingistíðinda. (11137)

248. mál, lögskráning íslenskra manna á erlend fiskiskip

Haraldur Guðmundsson:

Það er því miður að miklu leyti rétt hjá hv. þm. Borgf., að við þm. Alþýðuflokksins höfum ekki getað bætt úr atvinnuleysi sjómanna og verkamanna að verulegum mun, en við höfum þó sýnt viðleitni í þá átt. Aftur á móti minnist ég þess ekki, að hv. þm. Borgf. hafi nokkru sinni lagt þeim málum lið, heldur hefir hann þvert á móti reynt að spilla fyrir þeirri viðleitni, eftir því sem hann hefir getað. Hv. þm. veit, að ég hefi engan atvinnurekstur með höndum, og get ekki haft eins og stendur, og hefi þess vegna engin tök á því að bæta sjálfur úr atvinnuleysinu. Ég get ekki seð, hvernig hv. þm. getur réttlætt það fyrir samvizku sinni, ef hann ætlar nú að svipta nokkra tugi sjómanna atvinnu sinni, vitandi það, að þeirra bíður ekkert nema atvinnuleysi, ef till. hans ganga fram.

Hv. þm. segir, að með því að ráða sig á þessi skip spilli sjómenn atvinnuhorfum sínum í framtíðinni. Ég er þess alveg fullviss, að hv. þm. álítur ekki, þó að hann haldi því fram, að þessi útgerð Spánverja velti á því, hvort frv. hans verður samþ. eða eigi. Svo grunnhygginn er hv. þm. ekki. Hann veit vel, að ef Spánverjar álíta sér nauðsynlegt að ráða íslenzka sjómenn á skip sín, þá horfa þeir ekki í að kosta til þess að flytja þá til næstu landa — Noregs eða Englands — og lögskrá þá þar á skipin. Ég get fullvissað hv. þm. Borgf. um, að alþjóðasamband verkamanna eða félög norskra og enskra sjómanna hafa ekkert á móti því, þó að íslenzkir sjómenn verði skráðir á spönsk skip í þeim löndum. Það er aðeins hugarburður hv. þm., sem ekkert hefir við að styðjast. Ég held því fast við það, sem glöggt hefir komið fram í þessum umr., að jafnvel þó að þetta frv. verði samþ., þá sé ekki girt fyrir, að Spánverjar ráði ísl. menn á skip sín. Og jafnvel þó að Íslendingar ráði sig ekki á skip þeirra, þá veltur þessi útgerðartilraun Spánverja ekki á því, hvort þeir hafa Íslendinga á skipunum eða ekki, — það má öllum vera ljóst. En hitt er vitað, að þetta veitir allmörgum ísl. sjómönnum atvinnu, í bili að minnsta kosti. Og þeir geta lært margt á því að fara með vélar og önnur fullkomin tæki á þessum nýtízku skipum.