20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1343)

205. mál, kosning sáttanefndarmanna í Reykjavík

Frsm. (Pétur Magnússon):

Tilhögun sú, sem nú er á kosningu sáttanefndarmanna hér í Reykjavík, er ákveðin með tilskipun frá 10. júlí 1795 og er því orðin talsvert á annað hundrað ára gömul. En tilhögunin er þannig, að bæjarstj. á að tilnefna 4 til 6 menn og bæjarbúar að kjósa á milli þeirra. Áhugi bæjarbúa fyrir því að velja þessa starfsmenn hefir ekki verið meiri en það, að ég hygg, að aldrei hafi fleiri en hundrað manns neytt atkvæðisréttar síns við þessa kosningar.

Hinsvegar er nokkur kostnaður og fyrirhöfn við þetta, að hafa til kjörskrá, auglýsa kjörfund og yfirleitt að setja þær vélar í gang, sem nauðsynlegar eru við allar kosningar. Sýnist því ástæðulaust að haga þessu þannig lengur.

Í frv. er lagt til, að þessu verði breytt á þann veg, að bæarstj. kjósi sáttanefndarmennina með hlutfallskosningu til þriggja ára í senn. Með því móti sparast öll sú fyrirhöfn og allur sá kostnaður, sem nú er við val þeirra. Virðist áhættulaust að fela bæjarstj, að skera úr um þetta, og má benda á, að henni er falið að velja menn til starfa, sem vissulega er meira um vert en starf sáttanefndarmannanna. Á ég þar t. d. við niðurjöfnunarnefndina, sem kosin er með hlutfallskosningu af bæjarstjórninni.

Frv. þetta var borið fram í Nd. af hv. 2. þm. Reykv., og gekk það gegnum þá hv. d. mótmælalaust. Hér í Ed. var því svo vísað til allshn., og leggur hún einróma til, að það sé samþ. óbreytt. óbreytt.