15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það er ekki fyrir það að synja, að Reykjavíkurvaldið hefir sýnt nágrönnum sínum ásælni, sem síðast bar ávöxt, er Skildinganes var lagt undir höfuðstaðinn. Eins og mátti vænta, voru þm. Reykv. í broddi fylkingar í þeirri ásælnisherferð, en Framsóknarbændur í halanum. Þetta sameinaða lið fékk því áorkað, að Reykjavík tók Skildinganes án samþykkis Kjósarsýslu.

Það er því full ástæða fyrir mig að vera þakklátur hv. þm. Borgf, og öðrum, sem vilja vera á verði gegn áleitni Rvíkur á nágrannana. En ég verð að viðurkenna, að það var rétt, sem form. n. sagði, að ég hefði verið spurður um það, hvort ég teldi, að með þessu væri gengið á rétt kjósenda minna. Ég hefi kynnt mér málið nokkuð og get ekki séð, að svo sé. Ég hefi leitað álits tveggja merkra innanhéraðsmanna og þeir hafa verið mér sammala. Einn áhrifamaður í héraði, sem sjálfur gæti hér átt hlut að máli, hefir snúið sér út n., og hún hefir efnislega tekið vilja hans til greina í frv. Ég ætla því, að í þessu máli sé ekki gengið á rétt neins og mér beri því ekki að hreyfa mótmælum. Ég efast ekki um, að Rvík hafi hagsmuni af því að víkka höfnina, en ég held, að þeir hagsmunir séu ekki frá neinum teknir. Hitt nær auðvitað engri átt, að með frv. sé verið að létta bagga af Kjósarsýslu.

Ég tel ekki ástæðu til að beita mér gegn frv., en úr því að raddir hafa heyrzt um, að hér gæti verið um viðsjárverðan laut að ræð, en ég er ekki svo fróður í þessum málum sem skyIdi, væri ég þakklátur, ef n. vildi milli umræðna leita sér upplýsinga um það, hvort gagnaðilar teldu sér skaða að frv. Mætti tala við oddvita og hreppsnefnd í Mosfellshreppi og sýslumanninn í Kjósarsýslu til að fá vissu sína um þetta.