28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Pétur Ottesen:

Ég hefi borið fram brtt. við þetta frv. á þskj. 558.

Eins og menn rekur minni til, sætti þetta frv. nokkrum andmælum við 2. umr. hér í þessari d., og þá sérstaklega þau ákvæði frv., að takmörk Rvíkurhafnar skyldu vera færð út fyrir takmörk lögsagnarumdæmis Rvíkur, þannig, að höfnin skyldi ná alla leið til Geldinganess að austan og utan Grafarvogs, fyrir utan land Grafar og Keldna, og sömuleiðis til eyja þeirra, sem liggja að höfninni, en eru fyrir utan lögsagnarumdæmi Rvíkur. Það er nú ekki nema eðlilegur hlutur, þó að þetta hafi sætt talsverðum andmælum af hálfu þeirra manna og hreppsfélaga, sem að þessu leyti á að draga undir hafnarstj. Rvíkurkaupstaðar, því að ef þessi ákvæði gengju í gildi, væru allar athafnir á og meðfram ströndinni á þessu svæði öllu háð fyrirmælum hafnarstj., og öll gjöld fyrir skipaafgreiðslur og allar slíkar athafnir rynnu í sjóð Rvíkurhafnar. Það er því eðlilegt, að þeir menn, sem hér eiga hlut að máli, rísi upp til andmæla gegn slíkum yfirgangi. Með þessu er verið að draga úr greipum viðkomandi hrepps- og sýslufélags verðmæta aðstöðu til þess að koma upp bryggjum og öðrum tækjum til skipaafgreiðslu og góðu skipalægi. Þar við bætist svo það, að það er engin þörf á þessu fyrir Rvík, því að svæðið með allri strandlengjunni að norðanverðu, frá vestur- til austurtakmarka lögsagnarumdæmis Rvíkur, er býsna stórt. Rvík hefir því ekkert við stærri höfn að gera með allri þessari strandlengju. Auk þess er nú allmikið svæði af Skerjafirði orðið tilheyrandi lögsagnarumdæmi Rvíkur, eftir að Skildinganes var lagt undir bæinn. Mér virðist því vera hér um óþarfa ágengni að ræða af hendi Rvíkur, og sýnist mér því rétt af Alþ. samþ. ekki þetta frv., heldur láta viðkomandi sveitar- og sýslufélag halda þeim möguleikum, sem þarna kynnu að vera til að koma upp höfn og hafnarmannvirkjum. Auk þess er það svo, að á einum stað á þessu svæði, í Viðey, er löggilt höfn og allmikil hafnarmannvirki, og útgerð hefir verið þar allmikil um undanfarin ár, og þó að svo sé ráð fyrir gert í frv., að höfnin nái ekki lengra en að þeim netlögum, sem eru 60 faðma frá stórstraumsfjöru, þá getur samt farið svo, að þessi hafnarmannvirki nái út yfir þetta svæði, og eru þau þá komin undir ákvæði Rvíkurhafnar um gjaldskyldu og allt annað. Og það er vitanlega algerlega ósamrímanlegt því, að þarna er löggilt höfn, sem hefir sín sérstöku skilyrði og rétt til hafnarrekstrar, án þess að vera nokkuð háð Rvíkurhöfn eða í sambandi við hana. Þess vegna flyt ég brtt. um, að hafnarréttindi Rvíkur nái aðeins yfir lögsagnarumdæmi bæjarins, en þó er gert ráð fyrir, að þau nái að netalögum Engeyjar, enda er ekki kunnugt um, að þar verði gerð nein hafnarmannvirki, því að hún liggur svo nærri innri höfninni, og kemur þá ekki að sérstökum notum fyrir Seltjarnarneshrepp.

Ég held, að það sé fullkomlega séð fyrir þörfum Rvíkurhafnar, þó að réttindi hennar nái ekki út fyrir lögsagnarumdæmið. Brtt. mín er ekki um annað en þetta og þarf ég ekki að fara um hana fleiri orðum, en vænti, að hv. þdm. séu mér sammála um, að ekki skuli gengið að þarflausu á rétt annara hreppsfélaga eða verið að leggja stein í götu þess, að þau hreppsfélög geti sjálf ráðið yfir sínu landi og komið upp hafnarmannvirkjum hjá sér, algerlega óháð þeim reglum og kvöðum, sem nú eða síðar kunna að gilda um Rvíkurhöfn.