28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Pétur Ottesen:

Af því að hv. þm. N.-Ísf. var ekki staddur hér, er hv. 1. þm. Rang. talaði fyrir brtt. sinni, sem vill fella seinni hl. aftan af till. hans, vil ég taka það fram, að það er ekki á misskilningi byggt, sem tekið er upp í þessa till., heldur er miðað við það, að frv. verði samþ., og hafnarsvæði Rvíkur nái að netalögum Viðeyjar. Ef nú verða sett hafnarlög í Viðey eftir skýlausum réttindum, felli svæðið utan við netalögin undir hafnarlög Rvíkur, og réttindi Viðeyjar yrðu þar með skert af ágangi Rvíkur, ef hafnarmannvirki hennar næðu út fyrir netalög. Því er gert ráð fyrir, að skip, afgreidd í Viðey, verði ekki gjaldskyld til hafnarsjóðs Rvíkur, þótt þau varpi akkerum utan við netalögin. Ef mín brtt. verður samþ., er brtt. hv. þm. N.Ísf. alveg óþörf og mun þá verða tekin aftur.

Hv. 1. þm. Rang. færði engar sönnur á það, að nauðsynlegt væri fyrir Rvík að færa svo mjög út hafnarsvæði sitt sem frv. fer fram á. það er áreiðanlegt, að Rvík má vaxa mikið að mannfjölda og skipakomum, ef núv. hafnarsvæði fullnægir ekki þörf bæjarins, án þess að hún fari að seilast út fyrir lögsagnarumdæmið, enda mun vera annað, sem liggur hér til grundvallar, eins og ég mun seinna víkja að.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að hér væri ekki gengið á rétt nokkurs manns. En þetta er auðvitað hin mesta fjarstæða. Með því að leggja sundið undir hafnarsvæði Rvíkur er tekinn réttur af viðkomandi hreppum og sýslufélagi til að setja þar upp hafnarmannvirki og setja sjálfstæð ákvæði um þau. Hrepparnir eru sviptir þessum möguleikum við innlimun sundanna í hafnarsvæði Rvíkur, og ef þau verða lögð undir það nú, verður erfitt að ná þeim úr þeim tengslum aftur. (BSt: Má ekki skattleggja Rvík fyrir hafnarafnot í þessum hreppum?). Ég býst ekki við því, að slíkt verði hægt nema með því að breyta útsvarslögunum. Í löggjöfinni er ekki gert ráð fyrir þeirri ágengni, að nokkur bær eða sveitarfélag fari að sölsa undir sig bæði sjó og land frá nágrönnunum. Sá möguleiki liggur í rauninni fyrir utan takmörk heilbrigðrar löggjafar.

Þess má geta, að algengt er, að töluvert af síld veiðist þarna í sundunum, og hingað til hafa menn fengið að veiða hana óátalið og ekki verið meinað að bjarga sér á þann hátt. Nú stendur sá möguleiki opinn, að með reglugerð verði heimtaðar tekjur af þessari veiði til handa hafnarsjóði Rvíkur. Þar með er búið að loka þeim möguleika fyrir hreppsbúum að veiða frjálst, og búið að skattleggja þá til Rvíkur. Þau miklu verðmæti, sem felast í þeim möguleika, að gera þarna höfn og hafnarmannvirki, eru með þessu frv. tekin af Mosfellssveit og Kjósarsýslu. Þar með er rænt tekjustofni, sem hreppurinn og sýslan eiga nú til frjálsra og ótakmarkaðra afnota, og hann lagður undir valdsvið Rvíkur. Þetta felst í frv. og fleira en þetta, eins og ég mun síðar sýna fram á.

Það er næsta hatramlegt, að sú ástæða skuli vera færð fyrir rétti Rvíkur til Eiðsvíkur, að Rvíkingar hafi látið sökkva þar nokkra ryðkláfa, sem þeir hafa lagt þar í óleyfi og síðan ekkert hirt um. Það á sem sagt að nota trassaskap og yfirgang Rvíkinga sem ástæðu til þess að ræna eigendurna rétti sínum. (HV: Rvík hefir keypt þarna land fyrir 160 þús. kr.). Já, en það gefur Rvík engan rétt utan lögsagnarumdæmis síns frekar en hverjum öðrum einstaklingi, sem á eignir utan síns lögsagnarumdæmis.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að engir möguleikar væru til þess, að þorp eða bær rísi upp þarna inni við sundin og að höfn yrði gerð þar. Ég veit nú, að hann er svo bjartsýnn og víðsýnn maður, að hann sér, að ekkert er líklegra en að svo verði, og þá er eðlilegast, að þeir möguleikar komi til góða því sýslufélagi og hreppsfélagi, sem nú eiga þessi framtíðarskilyrði. Hinsvegar sé ég ekkert til fyrirstöðu því, að Rvík geti eins og aðrir skapað sér aðstöðu til að nota Eiðsvík með frjálsu samkomulagi við hina réttu aðila og ná burt ryðkláfunum, sem Rvíkingar hafa látið sökkva þar. En þeir út af fyrir sig skapa Rvík engan rétt til Eiðsvíkur. Rvík ætti að vera fullnægjandi að geta náð afnotum af þessari vík með frjálsu samkomulagi, sem ég efast ekki um, að mundi nást, ef þess væri leitað.

Hv. 1. þm. Rang. sagði það um Viðey, að allir væru ánægðir með ákvæði frv. gagnvart henni, og þeir, sem ættu eignir þar, hefðu ekkert við frv. að athuga. En hverjir eru þessir eigendur? Eru það ekki lánstofnanirnar, og eru þeir, sem stjórna þeim, ekki búsettir Reykvíkingar? Mig furðar ekki, þótt þeir setji sig ekki á móti frv. Þetta er því engin sönnun. — En það er annað, sem liggur til grundvallar fyrir þessari ásælni en þörf Rvíkur fyrir stærri höfn. Það hefir legið í loftinu og eru nú fengnar sannanir fyrir því, að ameríska flugfélagið ætli að hefja hér flugferðir, og þarf það þá vitanlega á flughöfn að halda á hentugum stað. Sundin munu hafa þótt einna ákjósanlegastur staður í þessu skyni. Í sambandi við flughöfnina þarf auðvitað allmikil mannvirki á landi og jafnframt umbúnað á sjó. Það eru möguleikarnir til að geta skattlagt þessi hafnarmannvirki, sem valda því, að Rvík er nú að seilast inn á þetta svæði. Þetta er nú aðalástæðan.

Ég mun ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni. Ég vil aðeins taka það fram, að ég lít á þetta sem áframhald af þeirri yfirgangsstefnu Rvíkur hin síðari árin, að reyna að mylja undir sig nágrannana og krækja sér í nýja skattstofna með því að rýra gjaldþol næstu hreppa.

Mér finnst Alþ. hafa verið allt of snúningaliðugt í þessum efnum við Rvík hingað til, en einhversstaðar hljóta þó takmörkin að vera. Ég vænti þess því, að hv. þdm. taki undir með mér og segi: hingað og ekki lengra.