09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2809)

30. mál, vigt á síld

Vilmundur Jónsson:

Ég vil fyrst svara því, sem hv. frsm. minni hl. sagði í gær, að það sæti ekki á mér að mæla með vigtun síldar fram yfir mælingu, þar sem skip Samvinnufél. Ísfirðinga hefðu orðið að hverfa frá Siglufirði full af síld, fyrir það, hve afgreiðslan gekk þar seint. Ég hefi nú síðan í gær talað við forstjóra ísfirzku skipanna, og hann hefir upplýst, að þetta er tilhæfulaust með öllu. Hann hefir leyft mér að hafa eftir sér að afgreiðsla síldarskipa væri ágæt á Siglufirði og gengi ekki annarsstaðar betur, þó mælt væri. Ástæðan til þess, að skipin hurfu frá Siglufirði í það skipti, sem hv. þm. minntist á, var sú, þau bræðsluverksmiðjurnar voru svo fullar, að þær gátu ekki tekið á móti meiri síld. Hv. þm. las upp í ræðu sinni í gær útdrátt úr skýrslu um síldarflugið, þar sem getið er um, að skipin frá Ísafirði hafi orðið að hverfa frá Siglufirði óafgreidd, en svo bætti hv. þm. við þeirri ályktun, að það hafi verið fyrir of seina afgreiðslu. Um það stendur ekki eitt orð í skýrslunni og framkvæmdarstjóri skipanna hefir einmitt upplýst, að ástæðan hafi verið öll önnur, eins og ég hefi þegar getið.

Út á ræðu hv. þm. G.-K. hefi ég það helzt að setja, að mér þótti allt of oft koma fyrir í henni orðin svik, þjófnaður, fölsuð mæliker og þessháttar. Það mesta, sem ég sagði í ræðu minni í gær, var það, að í sambandi við mælingu síldar hefðu komið fyrir hneyksli, og ég nefndi tvö tilfelli, hið fyrra í Krossanesi og hið síðara á Hesteyri í sumar. Og nú liggur fyrir játning frá honum um það, að kerin hafi verið of stór. Okkur greinir ekki mikið á um það, hve mikið of stór þau hafi verið. Ég sagði, að þau mundu hafa verið til uppjafnaðar um 10% of stór, en hann segir, að þátt hafi verið 6% of stór. Ég skal ekkert um það segja, hvort er réttara. En stærðarmeðaltal mælikeranna segir ekki að fullu til um, hve miklu hefir getað munað á síldarmælingunni. Það er sannað og játað, að sum málin voru langt yfir 10% of stór. Og það má vel vera, að oftar hafi verið mælt í stærri kerunum. Það er ekkert ólíklegt, að þeir trúu þjónar fyrirtækisins, sem smíðuðu sum málin of stór, en engin of lítil, hafi öllu oftar notað þau stærstu en hin, sem minni voru.

Hér er um það að ræða, hvort tryggilegar skuli um hnútana búið við sölu bræðslusíldar en verið hefir til þessa. Okkur kemur saman um, að þar, sem síld er vegin, hafi aldrei orðið ágreiningur milli kaupanda og seljanda, og að sú aðferð að vega síld hafi því reynzt betur.

Því að í sambandi við síldarmælingu hafa hinsvegar tvisvar orðið alvarleg hneyksli.

Það eina, sem ég sagði, er talizt getur til miska hv. þm. G.-K., var það, að framkoma hans í þessu efni væri tortryggileg. Þegar frv. liggur fyrir þinginu 1930 um það að vega síldina á löggiltar vogir, sem árlega séu endurskoðaðar, og að löggiltir vigtarmenn eigi að vega á þær vogir, smeygir hann inn í frv. ákvæði um undantekningu um að síld megi mæla á sumum stöðvum án opinbers eftirlits eða nokkurar tryggingar fyrir því, að málin séu rétt eða rétt í þeim mælt. En á sama tíma og þetta gerist eru einmitt á hans síldarstöð notuð til þess að mæla síldina of stór mál, sem hann vill ekki láta skoða árlega eða líta á annan hátt eftir. (ÓTh: Hvenær hefi ég færzt undan, að málin yrðu skoðuð?) Ég segi aðeins, að þessi framkoma hv. þm. líti tortryggilega út, og illgjarnir menn muni álíta, að undantekningu frá vigtuninni hafi hann verið að koma inn í löggjöfina vegna sinna eigin röngu mælikera, þó að ég sé svo góðgjarn að segja ekki, að svo hafi verið. Hv. þm. talar um, að ólíklegt sé, að þetta hafi verið gert af ásettu ráði . En það er aukaatriði. Það liggur fyrir játning um, að málin hafi verið röng á Hesteyri, og þá þýðir ekkert að tala um, hvað sé ólíklegt eða ekki. Staðreynd er staðreynd. Ég vona, að hv. þdm. sé orðið ljóst undir umr. um þetta mál, að það sé nauðsynlegt að leiða síldarkaupendur ekki lengur í freistni í þessu efni með því að heimila mælingu á bræðslusíld, svo að almenningur þurfi ekki lengur að tortryggja þá eins meinlega og nú hefir átt sér stað um hv. þm. G.-K. Og þó að hv. 1. þm. S.-M. léti á sínum tíma ginnast til að gleypa við umræddum fleyg, þá gefi hann nú að fenginni nýrri reynslu sitt ótrautt fylgi til þess að fella hann úr gildi.