09.03.1932
Neðri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2812)

30. mál, vigt á síld

Ólafur Thors:

Hv. þm. Ísaf. þótti ég nota of mikil stóryrði, þar sem ég talaði um svik og að hafa fé af mönnum. En hv. þm. talaði sjálfur um hneykslismál. Og ég get frætt hv. þm. á því, að hans blöð, bæði á Ísafirði — þó ég hafi ekki lesið þann snepil sjálfur. — Og eins hér, hafa viðhaft þessi orð. Og ég veit ekki, hvort það er nokkuð vægara orð um þessa misfellu, sem hv. þm. veit, að ég á enga sök á, a. m. k. ekki visvítandi, að kalla hana hneyksli, eins og hann gerir.

Hv. þm. sagði, að það munaði eilitlu á því, hvað skekkjan á málunum væri eftir minni skoðun og hans. Það munar ekki eilitlu, heldur helmingi. Og það er enga skoðun hjá mér, heldur vissa. Ég fer þar beint eftir umsögn löggildingarmannsins í réttarskýrslunni.

Ræða hv. þm. gefur ekki tilefni til nýrra aths. af minni hálfu, þar sem hún var ekki annað en þessar sömu fullyrðingar, sem hann var með í gær. Ég hrakti þær í gær og sé ekki ástæðu til að endurtaka það nú, þó hann hafi endurtekið fullyrðingarnar. Hugarfar hv. þm. til mín hefir komið svo greinilega fram í ræðu hans, að ég get ekki stillt mig um að lesa upp setningu, sem ég skrifaði upp eftir honum. Hann sagði: „Mér liggur við að segja, eða öllu heldur, illgjarn maður mundi segja —“. Hv. þm. vildi svo sem ekki segja það, sem þessi illgjarni maður mundi segja. En ég verð þó að segja, að svo mikil var illgirni hv. þm. að hún var jafnvel meiri en ég bjóst við.

Ég vil sýna þá hreinskilni að játa, að ég hefi nokkra ástæðu til að þakka hv. þm. fyrir að hafa flutt þetta frv. í fyrsta lagi af því, að hann gefur mér tækifæri til að láta koma inn í þingtíðindin skýrslu um þetta mál, skýrslu, sem ég vona, að nægi til að sanna, að við bræðurnir verðum ekki vændir um illan tilgang í þessu máli, þó svo slysalega hafi tekizt til, að beykir sá, sem smíðaði fyrir okkur síldarmálin, hafi gert sömu skekkju og löggildingarstofan. Og í öðru lagi hefir það lengi verið sagt, að það væri gaman að heyra mann, sem heitir Vilmundur Jónsson, halda ræðu á Ísafirði. Ég hafði nú reyndar heyrt hann halda ræðu hér í þinginu, en hér hafði hann reynt að vanda mál sitt og tala nokkurnveginn virðulega, þangað til í gær, að það gafst ágætt tækitæri, sem gaf til kynna, hvernig hann er á sínum rétta vettvangi. Ræða hans þá var sem sé ekki svo sprengvönduð að orðfæri sem hann hefir áður gert sér far um hér í þinginu. Og það var fróðlegt að sjá, hvernig hann er þegar menn hafa hinn einstakasta viðbjóð á honum.

Ég ætla ekki að beina mörgum orðum að hv. frsm. meiri hl. n., ef hann þá vakir. (EA: En ef hann sefur?). Þá ætla ég að tala í mínum hærri tón, til þess að reyna að vekja hann. Hann hefir getið sér fremur lítinn orðstír við þessar umr. Á þinginu 1930 flytur hann sjálfur till. um heimild til að mæla síldina. Nú flytur hann till. um að banna þetta. Og í umr., sem eiga þó að sanna, að rétt sé að nema úr lögum alla heimild til að mæla síld, er hann þó þráfaldlega að tala um, að það geti svo sem vel komið fyrir, að ekki verði hægt að vigta síldina, og þá megi auðvitað til að mæla hana. Þetta er það, sem kallað er hugsanagrautur, og hann sangur. Við slíkan mann er ástæðulaust að reyna að rökræða alvarleg mál.

Að endingu þetta: Ef menn vilja breyta til og hafa það lögboðið, að ekki megi bæði vega og mæla síld, heldur eigi annaðhvort að vega eða mæla alla síld, því hygg ég mig hafa sannað, að það sé miklu réttlátara að mæla en vigta. Ég held þess vegna, að ef menn vilja breyta um og nema úr l., að það megi gera hvorttveggja, þá sé miklu réttara að fyrirskipa mælingu á allri síld, en ekki vigt.