21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2830)

30. mál, vigt á síld

Bergur Jónsson:

Það er engin ástæða til þess hér að vera að deila um, hvort betra sé að mæla síld eða vega. Hér er ekki um þær breyt. á lögunum frá 1930 að ræða, að slíkt komi til greina. Meiri hl. sjútvn. byggði álit sitt á því ákvæði laganna, að síld skuli vegin, ef sjómenn óska þess. Nú er þetta frv. borið fram eftir óskum sjómanna og seljenda, vestanlands a. m. k. Ég vil nú spyrja hv. þm. G.-K., hvort hann ætli sér að neita að verða við óskum seljendanna. Ef frv. Þetta verður samþ., veit firmað nú þegar um breyt. og getur haft sinn undirbúning, en annars gæti krafa sjómanna e. t. v. komið firmanu verr, ef hún kæmi síðar fram. Eða ætlar hv. þm. sér e. t. v. að daufheyrast við slíkri kröfu, þótt hún komi heim frá sjómönnunum sjálfum? Ef hv. þm. er jafnsannfærður um ágæti mælingarinnar fram yfir vigt og hann lætur, ætti hann að beita sér fyrir því, að lögunum frá 1930 yrði breytt þannig, að mæling yrði tekin upp í stað vigtar.