21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2835)

30. mál, vigt á síld

Ólafur Thors:

Ég skil ekkert í hv. þm. Barð., að hann skuli vera að tala um kúgun í þessu sambandi. Er það nokkur kúgun, þó að forstöðumaður síldarverksmiðju segi við síldarseljandann: „Ég vil ekki kaupa nema eftir máli, m. a. af því, að ég álít það öruggara fyrir báða aðilja“? Af þeim umr., sem hér hafa orðið um málið, hlýtur hv. þm. að viðurkenna, að frá hans sjónarmiði hlýtur það a. m. k. að orka tvímælis — frá mínu sjónarmiði er það tvímælalaust —, hvort öruggara sé að mæla en vigta, þegar forstöðumaður löggildingarstofunnar hefir sagt, að um stórvægilegar skekkjur gæti verið að ræða, ef síldin væri vegin, og þar fyrir utan hafa verið færðar sönnur á það hér, að það sé réttlátara að mæla en vega síldina, þó að hvorttveggja fari rétt fram. Ég skil þess vegna ekki þá menn, sem láta sér þau orð um munn fara, að hér sé verið að beita kúgun.

Ef einhver segir t. d. við mig: „Ég vil selja hér síld á t. d. 5 kr. hver 135 kg. vegin“, og ég svara: „Ég vil ekki kaupa þessa einingu á á kr., en ég vil kaupa 150 lítra mælda“ fyrir eitthvað til tekið verð, er það þá kúgun, sem þar á sér stað? — Við skulum taka annað dæmi. Ég hefi ráðið sjómenn síðasta ár og það er tekið fram í samningnum, að þeir fái 6 aura af hverjum 150 lítrum mældum, og svo vil ég gera samning fyrir næsta vor. Er það þá kúgun, ef ég segi: Ég vil greiða ykkur t. d. 4 aura á hverja mælda 150 lítra, en ég vil ekki semja við ykkur um neina auratölu af vegnum 135 kg.“?

Ég sé ekki ástæðu til að reyna mikið á þolinmæði hæstv. forseta með því að svara hv. þm. Ísaf. Ræða hans var ekkert nema rökvillur frá upphafi til enda. Hann var að tala um, hvers vegna væri farið fram á að nota mál, sem ekki væri tryggt, að tækju vissa þyngdareiningu. Það er bókstaflega ekki hægt að búa til það síldarmál, sem tekur nákvæmlega 135 kg. af hvaða síld sem er. Ef síldin er ný, þá fara fá kg. í málið borið saman við það, þegar hún er orðin gömul og þvæld og þar af leiðandi verri vara. Slíkum röksemdafærslum er ekki ástæða til að svara. Í hverri ræðu sinni hefir þessi hv. þm. orðið sér til skammar fyrir slíkar rökfærslur.