21.03.1932
Neðri deild: 34. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2836)

30. mál, vigt á síld

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. þm. Ak. spurði hvaða sönnun ég hefði fyrir því, að ekki risi upp deila út af vigt á síld. Ég skal jata, að ég hefi engar sönnur fyrir því. Ég veit vel, að það eru möguleikar fyrir því, að deilur rísi út af vog, því að vitanlega geta vogir orðið meira og minna vitlausar, en vogin verður samt alltaf tryggari en málið. Þess vegna er líka svo fyrirskipað í lögum, að vega skuli síldina. Það sýnir, að menn hafa álitið, að með sæmilegu eftirliti væri vogin réttari.

Það er nýstárlegt að heyra það nú og fá um það yfirlýsingar, að það sé heilmiklum vandkvæðum bundið að vega síldina. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt þær raddir við fyrri umr. þessa máls. Hv. 4. þm. Reykv. vill jafnvel láta banna vigt, af því að mælingin sé svo miklu tryggari. Það er líka einkennilegt og athyglisvert, að þeir menn, sem mesta reynslu og þekkingu hafa í þessu efni, eins og þeir, sem standa fyrir síldarverksmiðjunum hér á landi, þeir hafa ekki hreyft neinum mótmælum gegn vigtinni eins og hún er nú.

Ég verð að segja það, að jafnvel þó að það sé forstöðumaður löggildingarstofunnar, sem fullyrðir, að vogir séu svikulli, þá get ég ekki tekið þau orð eins til greina og ummæli þeirra manna, sem ég hefi leitað til um upplýsingar, því að það eru þeir menn, sem öllum öðrum fremur hafa reynslu í þessu máli, og þeir segja, að vogir séu öruggari. Vitanlega geta vogir bilað, en það er ekki meiri vandkvæðum bundið að hafa þessar vogir réttar en allar aðrar.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það væri mikill munur, hvað það mældist meira upp úr skipunum, þegar vegið væri heldur en þegar mælt er. Ég vil bæta því við þessi orð hv. þm., að ég hefi fengið þær upplýsingar, að þetta er alveg rétt, sérstaklega þegar um stóra farma er að læða. Þetta ósamræmi milli vogar og máls bendir í þá átt, að réttast sé að nota eingöngu annaðhvort vog eða mál, því að þá væri meira samræmi í verzlun þessarar voru en nú er.

Hv. þm. G.-K. skoraði á mig að nefna nöfn þeirra manna, sem gáfu mér þær upplýsingar, sem ég hefi fengið. Ég hefi sagt, að sumri þeirra hefðu verið yfirmenn á togurum Kveldúlfs. Ég tók það fram til að sýna, að ég hefði leitað til manna, sem þekkingu hefðu á þessum málum. (VJ: Það er ekki vert að nefna þá, þeir yrðu kannske reknir). Eina ástæðan, sem getur legið á bak við þessa kröfu, að ég nafngreini mennina, hlýtur að vera sú, að hv. þm. haldi, að ég sé að segja ósatt um þetta atriði, ef ég tilgreini ekki heimildarmenn. Ég læt hann alveg sjálfráðan um þá skoðun. Þeir, sem trúa því ekki, að ég segi sátt, þeir geta haft þá skoðun sína fyrir mér, en nöfn nefni ég engin hér.