04.03.1932
Efri deild: 20. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (3421)

57. mál, land Garðakirkju

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta frv. fer fram á að heimila ríkisstj. að selja Hafnarfjarðarkaupstað þann hluta úr landi Garðakirkju á Álftanesi, er fellur í hlut heimajarðarinnar við skipti þau, er nú fara fram á áður óskiptu landi heimajarðarinnar. Þetta frv. fer því í sömu átt og mörg lagafrv., sem komið hafa fram á undanförnum árum og miða að því að selja ræktanleg lönd til bæja og kaupstaða, til þess að auka atvinnu- og bjargarmöguleika íbúanna og koma fótum undir jarðræktarstarfsemi við sjávarsíðuna.

Frv. þetta er flutt að beiðni bæjarstj. Hafnarfjarðar, og hefir verið leitað álits Sigurðar Sigurðssonar búnaðarmálastjóra um það, og er álit hans prentað sem fskj. við grg. frv. Þar segir m. a. á þessa leið:

„Hafnarfjarðarkaupstaður á lítið ræktanlegt land, enda eru tún þar eigi talin meira en 35 ha. og garðar 4 ha. Nautgripir eru taldir 70 og uppskera af garðavöxtum um 300 tnr.

Nú er íbúatala í Hafnarfirði 3500, og þyrfti þá til að fullnægja mjólkurþörf bæjarbúa að vera þar um 590 mjólkurkýr, og ef nægilegt ætti að afla af garðavöxtum, mætti það eigi minna vera en 3550 tnr.

Hafnarfjarðarkaupstaður á einna minnst af ræktanlegu landi af öllum kauptúnum landsins, því er lífsnauðsyn fyrir hann að fá umráð yfir nokkru landi, og er þá nást land Garðakirkju. Mikið af því liggur vel til ræktunar, einkum það, sem liggur næst veginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Ég leyfi mér því að mæla eindregið með því, að frumvarp þetta nái fram að ganga“.

Í grg. frv. er ennfremur vikið að því, hversu litið og lítt ræktanlegt land kaupstaðurinn hefir til umráða, og að áhugi manna sé mikill fyrir ræktun, ef hún væri möguleg í kaupstaðnum, og að ekki sé um annað ræktanlegt land að ræða í námunda við Hafnarfjörð, en í landi Garðakirkju. Ef sala þessi kæmist í framkvæmd, sem engin ástæða er til að efast um, þá er sjálfsagt, að ríkið setji það skilyrði, að bæjarstj. seldi landið ekki aftur í hendur einstakra manna, því þá væri lítið unnið við samþykkt þessa frv. Slíkar kvaðir eru algengar á þeim löndum, sem seld hafa verið til kaupstaða og kauptúna fyrir atbeina ríkisvaldsins, sbr. í því sambandi þegar Akranes fékk land til ræktunar ekki alls fyrir löngu.

Ég tel víst, að þessu frv. verði vel tekið, sem og öðrum slíkum frv. áður, og leyfi ég mér að leggja til, að því verði vísað til hv. alshn. að lokinni þessari umr.