07.05.1932
Efri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í C-deild Alþingistíðinda. (3787)

15. mál, fimmtardómur

Jón Þorláksson:

Hæstv. dómsmrh. fór dálítið lengra út í umr. um fiskveiðin en áður. Hann sagði, að ég hefði ekki talið það mikla þjóðarógæfu, þó að bankarnir töpuðu þessum umræddu 300 þús. og jafnvel yrðu að hætta að lána. Allt er þetta ekkert annað en venjulegur heilaspuni, sem sprettur upp í heila hans sjálfs, því að ég hefi ekki látið neitt af þessu í ljós. Hitt sagði ég, að ég fyndi ekki ástæðu til þess að leggja niður æðsta dómstól þjóðarinnar, þó að hann kæmist að sömu niðurstöðu og héraðsdómarinn hér, að ekki þyrfti að borga sama fiskinn tvisvar sinnum. Annars þykir mér leiðinlegt, að það skyldi koma fyrir, sem hent hefir mann þann, sem sekur hefir verið dæmdur fyrir að selja sama fiskinn tvisvar. Því að það er eingöngu fyrir þá sök, að nægilegt eftirlit hefir vantað af hálfu bankanna. Eftirlit, sem auðvelt hefði verið að framkvæma. — Annars fór áðan fyrir hæstv. dómsmrh. eins og segir í norsku sögunni um smiðinn og skollann. Skollinn miklaðist yfir því, hvað hann gæti gert sig lítinn. Smiðurinn spurði þá, hvort hann gæti gert sig svo lítinn, að hann gæti skriðið inn í smálegg, er hann hélt á. Það gerði skolli, en smiðurinn rak tappa fyrir gatið. Hæstv. dómsmrh. gerði sig nefnilega svo lítinn, að hann sagðist ekki vera nema einn 40 þúsundasti partur af S. Í. S. og einn 14 þúsundasti partur af ritstjóra Tímans. Þetta eru ekki nema örlítil brot, lítið stærra en núll, og ég get verið ánægður með að enda þessar umr. með því að gefa hæstv. ráðh. þá viðurkenningu, að þetta mat hans á sjálfum sér er það réttasta, sem mér er kunnugt um, að hann hafi látið frá sér fara.