20.05.1932
Neðri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í C-deild Alþingistíðinda. (4075)

70. mál, ábúðarlög

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Ég tel þær brtt., sem fram hafa komið, yfirleitt vera til bóta og er því flm. þakklátur fyrir þær. Þær lagfæra flestar frv., en skerða mjög lítið efni þess. Yfirleitt mun ég því ekki gera þær að ágreiningsefni. Sú tilhliðrun, sem á sér stað í einstökum atr., stríðir ekki á móti tilgangi frv. Fer og bezt á, að lögin séu sanngjörn í garð allra í framkvæmd og engum gerð meiri óþægindi en nauðsyn ber til.

Viðvíkjandi brtt. hv. 2. þm. Reykv. get ég látið í ljós, að þær er til bóta og gera frv. ljósara. Um 11 brtt. vil ég segja það, að þótt okkur þætti þörf á að búa vel um matið eftir 36. gr., þá er rétt, að í ýmsum efnum eru lagðar svo miklar skyldar á herðar úttektarmanna, að eins má trúa þeim fyrir endurmati á leigumála. Brtt. gerir matið einfaldara og kostnaðarminna, þar sem jafnan á að vera tiltölulega auðvelt að ná til útttekarmanna, en ætti þó ekki að draga úr öryggi þess.

Um till. hv. 1. þm. N.-M. er það að segja, að ég get fallizt á tvær aðalbrtt. hans, III. og V. brtt. Fyrir okkur, sem sömdum frv., vakti að búa sem tryggilegast um það, að ekki væru seldar burt jarðarnytjar, án þess að jörðinni væri haldið í góðri rækt. En staðhættir og þjóðlífshættir hafa breytzt svo, að oft getur verið auðveldara fyrir leiguliða að bjarga sér, ef hann hefir frjálsari hendur í þessu efni, að því tilskildu, að jörðin gangi ekki úr sér.

Ég hefi flutt brtt. við 34. gr. um það, að leiguliða sé ekki skylt að annast um efnisflutninga innanlands. Ég get að vísu fallizt á, að leiguliði hjálpi stundum til að endurreisa jarðarhús, enda er sú kvöð lögð á hann, að hann flytji að nærtækt efni, en jafnframt, að hann flytji að allt byggngarefni úr kaupstað. Ég hefi áður vikið að því, að þetta gæti orðið óbærileg kvöð, þegar hún bætist ofan á vexti og fyrningargjald. Þetta er því ekki viðhlítandi. Við skulum hugsa okkur, að hús falli í jarðskjálfta. Þá getur allmikill hluti af verði húsanna verið fólginn í flutningskostnaði, og þetta þótti leiguliði að leggja til, án þess að fá nokkrar bætur og greiða auk þess vexti og fyrningargjald.

Ég hefði talið æskilegt að finna hér einhverja millileið, en af því að ég sá, að hún myndi verða út í loftið, hefi ég lagt til, að þetta ákvæði verði fellt niður. Ég hygg, að flestir Leiguliðar muni aðstoða eftir getu við endurbyggingu jarðarhúsa, án þess að reikna fyrirhöfn sína.

Þá er brtt. frá hv. 1. þm. Eyf. og mér um það, að þegar jarðeigandi eða leiguliði telji leigumála óviðeigandi, geti þeir óskað eftir mati, og ætti það að tryggja báðum sanngjarna lausn. Ella gæti risið ágreiningur milli þessara tveggja aðilja, sem spillti sambúðinni og ylli því, að meðferð jarðarinnar yrði verri en ella. Landbn. vill fella niður orðin „og leggja málið í gerð“ o. s. frv. Ég get fallizt á, að hitt nægi, einkum ef brtt. hv. 2. þm. Reykv., sem miðast við, að svo verði gert, verður samþ.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um till. Mér þykir vænt um, að hv. þm. vilja leggja sitt bezta til málanna, og þótt horfur séu á því að málið fái ekki afgreiðslu á þessu þingi, tel ég þó undirbúning þann, er það hefir fengið, mikilsverðan.

Ég ætla ekki að svara þeim ummælum hv. l. þm. S.-M., að frv. skorti á margt bæði í efni og orðfæri. Ég ætla, að við verðum seint sammála um efni frv. En ég hygg, að hans efnisbreyt. séu sízt til bóta. Það var leiðinlegt að heyra það til svo rökviss og greinds manns, að frv. rækist á stjskr. Hér er öllum tryggður fullkomin eignarréttur. Hinsvegar hefi ég aldrei heyrt hv. 1. þm. S.-M. segja, að gamla löggjöfin hyggi skarð í eignarrétt leiguliða, en það gerir hún þó á ýmsan hátt. Og er hann drap á hús í kaupstöðum og skip, og sagði, að engin ákvæði væru til um að þau skyldu vera nothæf, þá er því til að svara, að það er fullkominn misskilningur, því með löggjöfinni eru reistar rammar skorður við því, að hús eða skip séu í því ástandi, að notendur bíði tjón af og lagður skyldur á herðar eigendum í því efni. Mér virðist hv. þm. ekki hafa gert sér grein fyrir, hve afstaðan er orðin gerbreytt frá því sem áður var, og að þetta sé ástæðan fyrir því, hve bágt hann á með að sætta sig við ákvæði frv., sem brjóta í bága við gamlar venjur. En ég vil benda á, að í aðalatr. göngum við ekki lengra en gert var í lögum, sem giltu frá stofnun Alþingis og þangað til gömlu ábúðarlögin voru sett. Því þó að konungur upphaflega, og ýmsir aðrir í kjölfar hans, kæmu af höndum sér þessum skyldum, þá höfðu það þó verið lög. Og venjan var svo rík í þessu efni og sat svo fast í mönnum, að þrátt fyrir það, þó landsdrottnarnir gætu komið sér undan þessum skyldum, lögðu þeir samt jörðunum til nauðsynleg hús eins og tíðkazt hafði til forna.

Frekar skal ég svo ekki ræða um þetta.