06.04.1932
Neðri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í C-deild Alþingistíðinda. (4433)

162. mál, sala þjóðjarða og kirkjugarða

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég þakka hv. þm., hve ýtarlega þeir ræða þetta mál. En rök sumra þeirra eru þó heldur erfið viðureignar, ef ætti að svara þeim á sama hátt. Þannig taldi hv. þm. Borgf. Það þjóðjarðasölunni til ágætis, að jarðir, sem konungs- og kirkjuvaldið hefðu hrifsað undir sig, hefðu við söluna komizt í hendur réttra eigenda. Við slík rök er erfitt að glíma.

Alveg sama er að segja um söguna um „sócíalistann“ (Henry George), sem dó fyrir 35 árum í New-York og 100 þús. manns fylgdu til grafar. Um hann er það þó vist, að hann var ekki sócialisti, þegar hann dó, hvað sem síðar hefir orðið.

Það er ekki nema rétt að vekja athygli hv. þdm. á því, að þessi maður, sem snerist í gröf sinni, neitaði ávallt sjálfur, að hann væri jafnaðarmaður, og var andvígur opinberri eign á jörð. Hinsvegar aðhylltist hann einskattskenninguna (Single Taæ), jarðskattinn, og taldi hann heppilegri en ríkiseign á landi.

Annars verð ég að segja, að mér finnst talað um þetta frv. á breiðara grundvelli en það gefur tilefni til. Hér er aðeins farið fram á, að hætt sé að selja þær þjóðjarðir, sem eftir eru, og ekki annað meira. Ef það er rétt hjá hv. 2. þm. Skagf., að lítið sé orðið eftir af þessum jarðeignum, sem ég að vísu efa, er varla ástæða til að tala um byltingu eða landflótta út af þessu frv. Annars hefði það verið skemmtilegur ábætir á eldhúsdagsumr., að þessum umr. hefði verið útvarpað, svo að bændum landsins hefði gefizt kostur á að heyra, hvernig þeir hæstv. forsrh., hv. 2. þm. Skagf., hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. S.-M. vitna hver í annan eins og í biblíuna eða passíusálmana.

Ég sný mér þá að hv. 2. þm. Skagf. Hann líkti mér við Harald hárfagra, og er ég honum þakklatur fyrir þann samanburð. Hann er þann dag í dag hinn merkasti konungur í augum þjóðar sinnar, sem hún hefir haft, enda safnaði hann fyrstur Noregi í eitt ríki, lagði á skatta, kom á skipulagi og friðaði landið fyrir ránsmönnum og illvirkjum. Fyrir þetta var norska þjóðin honum svo þakklát, að það var lengi fyrsta skilyrði fyrir því að hljóta konungstign í Noregi, að vera af ætt Haralds hárfagra.

Þetta sýnir mat Noregs á þessum manni, sem vildi, eins og hv. 2. þm. Skagf. orðaði það, ræna jörðunum af bændum. Annars var það nú mjög orðum aukið. Að vísu var skattur lagður á óðul manna, en umráð höfðu þeir alveg yfir þeim og enginn mun hafa orðið var við, að Noregi hafi hnignað við að Haraldur hárfagri varð þar konungur. Þvert á móti. Landbúnaður blómgaðist aldrei betur en eftir að hann tók við. Það er sjálfsagt rétt hjá hv. þm., að ýmsir ættstórir menn hafi sótt hingað til Íslands frá Noregi, en eitthvað talsvert slíkra manna mun þó hafa orðið eftir, ef ég man rétt. Og ekki munu þeir eingöngu hafa flutt burt vegna jarðaskattsins. Margir þeirra áttu von á því að missa höfuðið, eins og þeir, sem börðust við Harald í Harðangursfirði og víðar. Og þótt puntað sé upp á söguna með því, að óðalsrétturinn hafi verið svona ríkur, þá er ég nú hræddur um, að fleiri hafi flúið burt af hræðslu um að missa lífið en af tómri stórmennsku.

Þessi hv. þm. — eins og raunar flestir, sem andmælt hafa þessu frv. — talaði þannig eins og honum væri hið mesta áhyggjuefni, hversu áfátt væri kjörum leiguliða yfirleitt. Einnig talaði hann svo sem ekki væri nema um eina tegund leiguliða að ræða. Það kemur undarlega fyrir sjónir, þegar menn, sem um fjölmörg ár og jafnvel áratugi hafa átt sæti hér í þinginu og aldrei hafa sýnt viðleitni til að fá réttan hag leiguliða, skuli nú standa upp, fullir af fjálgleik og óskapast yfir kjörum þeirra. Ef ég man rétt, þá hefir í þessari d. fjórum sinnum verið lagt fram frv. til ábúðarlöggjafar, sem felur í sér réttarbætur fyrir leiguliða, en mér er ekki kunnugt um, að nokkur af þeim, sem nú hafa andmælt þessu frv., hefi gert hið minnsta til að létta því gönguna. En sumir þeirra, eins og hv. 1. þm. S.-M., hafa andmælt því og barizt gegn því af öllu megni. En það er gott að geta skotið þessu fram svona til varnar í öðru máli, eins og þessu, sem hér er fram borið. Sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir þessa lagasetningu frá 1905–1907 er ennþá svo, að meira en helmingur af bændum landsins eru leiguliðar, og sé því lýsing þessara manna rétt á því, hvernig leiguliðar rækti og sitji jarðir sínar, þá er það hörmulegur dómur um þá sjálfa, að þeir skyldu ekki allan þennan tíma hafa reynt að bæta kjör þeirra. Um þá leiguliða, sem hér er um að ræða, er það að segja, að þeir eru tvöfalt fleiri, sem eru leiguliðar einstakra manna, en hins opinbera. Það var rétt, sem hæstv. dómsmrh. tók fram og hv. 1. þm. Eyf. undirstrikaði, að kjör leiguliða hins opinbera hér á landi eru yfirleitt betri en hinna, sem eru leiguliðar einstaklinga. Ábúðarréttur þeirra er oft jafnvel tryggður og þeir væru sjálfseignarbændur, og hvað jarðræktarstyrkinn snertir, þá eru þeir jafnvel betur settir en sjálfseignarbændur. Hæstv. forsrh. mælti eindregið gegn því, að frv. yrði svo mikið sem vísað til n. Í seinni ræðu sinni fannst honum þó sjálfum, að þetta væri nokkuð fruntalega að farið, og vildi afsaka sig með því, að í grg. frv. væru gífurmæli, þau, að það orkaði vart tvímælis lengur, að lagasetningin hefði orðið til hins mesta ógagns. En hæstv. ráðh. hefir enga viðleitni sýnt til að hnekkja þessum ummælum, nema hvað hann fullyrti, að lagsetningin hefði orðið lyftistöng fyrir landbúnaðinn. En það voru bara rökin, sem vantaði.

Hv. 1. þm. Eyf. skýrði hér frá einni þjóðjarðasölu. Ég ætla, að ég hafi tekið rétt eftir, að jörðin hafi verið seld úr eigu hins opinbera fyrir 4000 kr., en fáum árum síðar verið seld aftur fyrir 41000 kr. Má vera, að einhverjar umbætur hafi verið gerðar á þessu tímabili, en engum getur blandazt hugur um, að þarna hefir ríkissjóður verið rúinn stórfé. Ég get bent á mýmörg önnur dæmi þessu svipuð. Það er víst, að jarðeignir, sem seldar hafa verið, hafa, þegar tekið er tillit til greiðslukjaranna, verið seldar fyrir gjafverð, og hitt er einnig vist, að einstöku stjórnir hafa notað sér heimildir til jarðasölu til þess að lyfta sínum gæðingum og gefa þeim fé úr ríkissjóði. Hver bót hefir verið að því fyrir íslenzkan landbúnað, að t. d. þessi jörð hefir verið seld úr ríkiseign? Ríkissjóður er þarna rúinn um fé. (Forsrh.: Hún var ekki ríkiseign). Nei, hún var kirkjujörð, en það er sama. (Forsrh.: Kirkjujarðir eru séreign kirkjunnar). Gott og vel, en hún er nú þjóðkirkja ennþá, og það er því eitt og hið sama á meðan aðskilnaður ríkis og kirkju hefir ekki farið fram. Þetta ætti forsrh. að vita, sem sjálfur var prestur. (Forsrh.: Kirkjujarðasjóður er séreign kirkjunnar). En þjóðin á hann, þótt hún hafi kosið að ráðstafa nokkrum hluta hans til þess að greiða laun prestanna, og slíkt skapar þeim ekki eignarráð yfir honum.

Ég vík þá aftur að því, sem fyrr var frá horfið. Ég neita því, að sala þessarar jarðar hafi orðið lyftistöng fyrir íslenzkan landbúnað. Það er fullvíst, að það verð, sem jörðin er seld fyrir úr ríkiseign, eða úr eign kirkjujarðasjóðs, svo að é lati að vilja hæstv. forsrh., til fyrsta kaupanda, er hvergi nærri sannvirði, og það er tvísýnt fyrir þann kaupanda, sem kaupir hana á 41000 kr., að hann geti framfleytt búi á henni, sem nægi til að standa straum af þessu kaupverði, eða sé betur settur en sá, sem fyrstur keypti hana, þrátt fyrir þær umbætur, sem gerðar kunna að hafa verið. Þetta liggur í augum uppi. Setjum svo, að vextir af þessum 41000 kr. séu um 3300 kr., eða um 8%. Þetta þarf að greiðast. Setjum ennfremur svo, að jörðin hefði verið áfram í eign ríkissjóðs og þótt hún hefði ekki verið leigð sem 4000 kr., heldur t. d. 12000 kr. eign, þá hefði afgjaldið orðið þriðjungur til fjórði partur af því, sem eigandi hennar nú þarf að skila til þess að standa í skilum. Með þessu braski á sölu þjóðjarða er ríkissjóðurinn rúinn , og þungar kvaðir lagðar á herðar bænda.

Hv. þm. S.-Þ. var einnig mjög hneykslaður á ummælunum í grg., og getur það, sem ég hefi svarað hæstv. ráðh., einnig verið svar til hans. Hann sagði hér sögu af málarekstri út af sölu þjóðjarðar, sem farið hafði til héraðsdóms, hæstaréttar o. s. frv. o. s. frv. Mér dettur ekki í hug að bera brigður á þessa sögu, en hún kemur bara þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við. Ég veit ekki betur en að málaferli rísi engu síður og jafnvel miklu fremur út af ábúð leiguliða á jörðum, sem eru einstakra manna eign, og út af eignarrétti jarða, sem eru í sjálfseign, landamerkjaþræturnar, sem allir sveitabændur kannast svo vel við.

Ég vil taka undir það, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér, og ég álít, að hann hafi komizt rétt að orði, er hann sagði, að fyrsta kynslóðin, sem ætti jarðirnar þegar styrkir eru veittir eða ódýr vildarkjarlán út á þær, græddi yfirleitt á því, en við næstu sölu er þessi hagnaður burtu tekinn og getur beinlínis snúizt svo, að hann verði aukið álag, sem komi meir niður á eigendunum en leigjendum. Annars minnir þetta mig á tvær greinir, sem hafa nýlega birzt í því ágæta blaði „Tímanum“, blaði stjórnarflokksins. Önnur var eftir dómsmrh., þar sem hann talar um kröfur unga fólksins í sambandi við eignarumráð yfir jörðunum. Þetta er athyglisvert fyrir þá, sem muna eftir því, að fyrir þrem árum fullyrti dómsmrh. og fullvissaði bændur um, að að því er snertir eignarréttinn yfir jörðum, þá væri hann fyllilega sammála hv. 1. landsk. í því, að halda eignarrétti einstaklinganna yfir jörðunum, en það gleður mig, að þessi hæstv. ráðh. skuli nú vera farinn að taka tillit til unga fólksins. Þá vil ég benda framsóknarmönnum á aðra grein í „Tímanum“ eftir einn af ráðunautum Búnaðarfél. Íslands, þar sem ljóslega er sýnt með dæmum, að hag bænda sé þann veg bezt borgið, að jarðirnar séu þjóðareign, og ég vil í því sambandi benda á þær merkilegu upplýsingar, sem hv. 1. þm. Eyf, gaf, að tveir bændur hefðu keypt upp meiri hluta allra jarðeigna í heilum hreppi. Ég veit ekki, hvað bændaumhyggjunni líður, ef þingið reynir ekki að gera ráðstafanir til þess, að slíkt geti ekki átt sér stað. Mér er líka persónulega kunnugt um, að úti um sveitir landsins eykst þeirri stefnu fylgi með ári hverju, að hagkvæmast sé og öruggast fyrir bændurna, að jarðirnar séu ekki einkaeign, sem hver og einn má spekulera og braska með eins og t. d. silkisokka og sigarettur. Það ætti að liggja í augum uppi, að landið, sem er undirstaðan undir afkomu bæði núlifandi og óborinna kynslóða, megi ekki, ef réttur bænda á að vera tryggur, lenda í höndum hvers óvandaðs braskara, sem keypt geti jarðirnar undan tugum bænda. Ég bendi aðeins á þetta í sambandi við þær almennu umr., sem hér hafa orðið, en ekki sérstaklega í sambandi við þetta frv., sem ég játa, að ekki fyrirbyggir þetta nema að litlu leyti. Fái þetta mál að fara til 2. umr., vona ég, að ég geti lagt fram gögn um, að jarðir, sem hafa verið seldar úr eign ríkissjóðs, hafi ekki verið í sjálfseign nema skamman tíma, heldur leigðar til ábúðar af einstökum mönnum. Og dæmi eru líka til þess, að jarðir, sem ríkissjóður hefir selt fyrir sárálítið verð, hefir hann orðið að kaupa aftur fyrir margfalt verð. Í öllum kaupstöðum er þetta svo daglegt brauð, að bæjarfélögin neyðist til að kaupa rándýru verði lóðir, sem þau hafa látið af hendi fyrir svo að segja ekki neitt. Þessar sögur þekkja allir héðan úr Reykjavík, og ég veit, að svipuð dæmi eru mörg í öðrum kaupstöðum og sennilega nokkur einnig utan kaupstaða.

Ég skal ekki segja margt um verðhækkun jarða í sveitum, en ég get ekki annað en minnt á það, að hæstv. núv. ríkisstj. hefir fyrir skömmu keypt landspildu fyrir austan Hellisheiði fyrir 100 þús. kr., og margir láta svo, að þetta hafi, eftir atvikum, verið sæmileg kaup. En það er vist, að fyrir tiltölulega fáum árum hefir þessi landspilda ekki verið talin meira virði en 1/10–1/8 hluti þessa kaupverðs. Svo tala menn um, að verðhækkunin sé ekki stórvægilegt atriði í þessu sambandi. Það er oftast svo, að ríkissjóður kaupir fyrir hið háa verð, en selur einstaklingunum fyrir hið laga. Það, sem andmælendur þessa frv. hafa yfirleitt fundið því til foráttu, er, að leigujarðir séu almennt lakar setnar en sjálfseignarjarðir. Við flm. þessa frv. höfum játað, að eins og ábúðaðarlöggjöfinni er nú háttað sé hætt við slíku, en jafnframt bendum við á, hvernig við því megi gera með breyttri löggjöf, þar sem tryggður sé réttum ábúanda til umbóta og afnota jarðarinnar jafnvel og jörðin væri hans sjálfs eign. Þess vegna látum við fylgja þáltill. Þess efnis, að ríkisstj. undirbúi slíka löggjöf. Ég gleymdi að geta þess, þar sem hæstv. forsrh. talaði um gagnsemi sölu þjóðjarða fyrir jarðræktarsjóð og að hann hefði fengið þar mikið fé, að þetta er mjög villandi frásögn hjá ráðh. Það er rétt, að eitthvað af andvirði þjóðjarða hefir runnið í þennan sjóð, en afgjald þjóðjarða á og að renna til ræktunarsjóðs. Ef svo er, sem raun hefir sannað, að jarðeignir ríkisins hafi yfirleitt verið seldar undir sannvirði, þá liggur í hlutarins eðli, að með því að selja jarðirnar þegar í stað til höfuðstólsaukningar hafa tekjur sjóðsins verið skertar, enda er svo komið fyrir þjóðjarðasölu, að afgjald þjóðjarða, sem rennur til ræktunarsjóðs, er ekki áætlað í fjárl. nema 20 þús. kr. Og það er vegna fjármalaspeki af sömu tegund og speki konunnar, sem átti hænuna, sem verpti gulleggjunum, og slátraði henni, — þá hættu gulleggin að koma. Hæstv. forsrh. virðist vera þeirrar skoðunar, að bezta ráðið til að styrkja ræktunarsjóðinn sé að selja þjóðjarðirnar. En þá hættir afgjaldið að koma. (Forsrh.: Sjóðurinn vex jafnt og þétt). Já, maður veit nú, hvernig það verður, og úr því forsrh. gefur tilefni til þess, er bezt að athuga þetta í fjárl. (Forsrh.: Það sest í reikningum Búnaðarbankans, en ekki í fjárl.). Fjárl. sýna, hvað ríkissjóður leggur beinlínis til hans, og það er ekkert á móti því að rifja það upp, úr því að hæstv. ráðh. er farinn að ryðga í því.

Í fyrsta lagi leggur ríkissjóður til hans afgjöld af þjóðjörðum, 20 þús. kr. Ennfremur kostnaðartillag, 6 þús. kr., og hluta af útflutningsgjaldi því, sem lagt er á sjávarafurðir, 50 þús. kr. Þetta er það fé, sem samkv. fjárl. er ætlazt til, að renni af opinberu fé til ræktunarsjóðs, sem ekki er nema einn hluti af Búnaðarbankanum. Stærsta upphæðin, sem þar er um að ræða, er byggingar- og landnámssjóður, 200 þús. kr., og bústofnslánadeild 50 þús. kr.

Hv. þm. Borgf. var einna fjölorðastur allra andmælenda frv. og hann bar það á okkur flm., að við neituðum staðreyndum. Ég hefi nú engan mann vitað öllu duglegri að slást við staðreyndirnar en hv. þm. Borgf., og syndi hann hina prýðilegu leikni sína í þeim efnum, þar sem hann fullyrti á sama hátt og hæstv. forsrh., hve þjóðjarðasalan hefði orðið mikil lyftistöng fyrir landbúnaðinn. Ég hefi bent á, hvernig Hrafnagilssalan hefir lyft undir landbúnaðinn.

Hv. þm. sagði, að ég hefði talað svo fyrir frv., að það væri eins og verðhækkun jarðanna væri sökkt niður í undirdjúpin og enginn hefði síðan gagn af. Ég ætla ekki að fara út í þetta líkingamal hv. þm., en það ætla ég að segja honum — og veit nú, að ég geng alveg fram af honum —, að verðhækkunin er í mörgum tilfellum verr notuð en þótt henni væri sökkt niður í undirdjúpin, því að hvernig kemur þessi verðhækkun fram? hún kemur yfirleitt þannig fram, að sá, sem tekur við jörð til eignar eða leigu, verður að gjalda fyrir hana, annaðhvort sem kaupverð eða vexti og afborganir, þeim mun hærra sem verðhækkunin er meiri. Það liggur hinsvegar í hlutarins eðli, að einmitt sú verðhækkun, sem á jörðinni verður, orsakast oftast að mestu leyti fyrir aðgerðir hins opinbera, en ekki einstaks eiganda, sem þó hefir rétt til að heimta hana af notendum jarðarinnar, oft með aukaálagi, vöxtum og vaxtavöxtum. Og sú verðhækkun, sem þannig kemur fram sem sívaxandi skattur á notendur jarða, er verri en þótt hún væri þurrkuð út með öllu. Ég get bent á mjög einfalt dæmi, sem ég veit, að hv. þm. Borgf. hlýtur að skilja. Hann byr að ég ætla á sjálfseignarjörð, og að því er ég bezt veit situr hann hana mjög vel og nytir hana til hagsbóta fyrir sig og sína. Á seinustu tímum hafa gerzt margir merkilegir atburðir í nágrenni þessa hv. þm. Ríkissjóður hefir lagt fram stórfé til að gera höfn á Akranesi, og verður væntanlega meira. Fólkinu hefir fjölgað þar og er nú um 1200 manns. Ríkissjóður hefir lagt þarna fram fé til lendingabóta ásamt Akranesbúum sjálfum, til þess að byggja þarna höfn fyrir mörg hundruð þús. kr. Bílvegur hefir verið gerður umhverfis Hvalfjörð. nú spyr ég þennan hv. þm.: Heldur hann, að allt þetta hafi engin áhrif á verð þeirrar jarðar, sem hann situr? Ég er ekki í vafa um, að ef hv. þm. ætlaði að selja þessa jörð, myndi hann meta hana hærra eftir en áður, þótt ég fullyrði, að til þess að framkvæma þessar umbætur hafi hv. þm. ekki lagt neitt frekar en hver annar borgari þessa þjóðfélags. Og hann á, eftir minni skoðun, engu meiri rétt að hafa til þessarar verðhækkunar en hver annar. Þessi verðhækkun á að mínum dómi að renna til hins opinbera, en ekki koma fram sérstaklega sem hagnaður fyrir þennan hv. þm. Setjum nú svo, að afrakstrarmöguleikar hafi hækkað sem svarar 10–20 þús. kr. verðhækkun á jörð hans vegna þessara framkvæmda hins opinbera, til viðbótar því, sem hann hefir sjálfur framkvæmt. Ef svo er og jörðin yrði seld þessari upphæð hærra en ella myndi, þarf verðmæti afurðanna að aukast a. m. k. um sem svarar þessari verðhækkun, ef kaupandinn á að vera jafnvel settur og ef hann hefði tekið við jörðinni áður en umbæturnar fóru fram. Ef svo fer ekki, þá er sá, sem í framtíðinni situr þessa jörð, verr settur en pott engar umbætur hefðu verið gerðar. Af þessu má hv. þm. vera ljóst, að stórkostleg verðhækkun, sem verður fyrir atbeina hins opinbera, á ekki að verða eign þeirra manna, sem eiga jarðirnar, þegar umbæturnar eru gerðar.

Hv. þm. sagði ennfremur, að aðalástæðan fyrir verðhækkun á eignunum væru umbætur, sem gerðar hefðu verið á þeim af eigendum sjálfum. Þetta er beinlínis rangt hjá hv. þm. Umbætur eigenda sjálfra á jarðeignum eiga ekki nema litinn þátt í verðhækkun þeirra. Eða heldur hann kannske, að það sé fyrir athafnir einstakra lóðaeigenda og umbætur þeirra á lóðum sínum hér í Reykjavík, að hver fermetri í þeim, sem áður var seldur á 2 kr., er nú jafnvel kominn upp í 200 kr.?

Þá sagði hann sögu af einhverjum ágætum búfrömuði, sem búið hefði í Reykholti, en ekki látið svo mikið sem eina járnplötu á kofa þar. Ég verð að segja, að eftir lýsingu hv. þm. fæ ég ekki séð, að þetta hafi verið neinn búfrönuður, og þá verð ég að segja, að þeir eru ekki stórvirkir í búnaðarframkvæmdum kjósendur hv. þm., ef þetta hefir verið einn sá ágætasti. Hefði nú Reykholt t. d. verið selt fyrir 20 árum eins og Hrafnagilið á 4000 kr., ætli ríkið hefði samt ekki orðið að kaupa það margfalt hærra verði nú undir skólann? ég er ekki í miklum vafa um það, þó að ekki hefði verið látið svo mikið sem járnplata á einn kofa allan tímann. Að lokum vil ég benda á, þeim til athugunar, sem vilja, að sem flestar jarðir komist í sjálfsábúð, að nú er miklu torveldara fyrir efnalitla menn að eignast jarðir og búa á þeim en var áður, og er það, auk verðhækkunar jarðanna sjálfra, m. a. sökum hinna sívaxandi krafna um bætt húsakynni og aukin þægindi. Ég býst því við, að svo fari að lokum, eins og hæstv. dómsmrh. segir í grein í „Tímanum“, er hann kallar „kröfur hinna ungu“, að láta verði undan hinum háværu kröfum til hins opinbera um það, að gera hinu unga fólki kleift að fá umráð jarðanna og afnotarétt með svo góðu móti, að það geti notað fé sitt til þess að kaupa bústofn, því án bústofns eru jarðirnar sara lítils virði.