04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

21. mál, geðveikrahæli

Magnús Guðmundsson:

ég verð að taka undir það með hv. þm. Borgf., að það er talsverð óvissa um það, hver daggjöld verða á þessum spítölum, ef ekkert kemur í stað þessara laga, sem hár á að afnema. Ég vil þess vegna leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til n., hvort hún hafi ekki ætlazt svo til, að jafnað verði að einhverju leyti um kostnaðinn á þessum tveimur geðveikraspítölum. Ég verð að viðurkenna, að það er lítið réttlæti í því, að þeir sjúklingar, sem dvelja á nýrri spítalanum, greiði margfalt gjald á við þá, sem á gamla spítalanum eru, eins og verið hefir. Hitt yrði réttlæti, að jafnað væri um þessi daggjöld, svo að þau yrðu jafnmikil á báðum spítölunum, en ég hefi ekki tekið eftir, að neitt hafi komið fram í þá átt, hvorki í Ed. eða hér í Nd. Ég vil því spyrja um það, hvort það sé meiningin, að daggjöld á Nýja-Kleppi séu áfram eins og hátt eru nú, eða þau eigi að hækka. Ef daggjöldin á Gamla-Kleppi hækka, kannske það mikið, að þau verði allt að því eins há og nú er á Nýja-Kleppi, þá finnst mér of langt gengið.

Ég vil líka í þessu sambandi beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. n., hvort n. ætlist til, að hreppsfélögin njóti þeirrar ívilnunar að þurfa ekki að greiða meira en 400 kr. með hverjum sjúklingi árlega að því er snertir Gamla-Klepp, ef daggjöld verða þar hækkuð, sem ég geri ráð fyrir.

Til orða gæti líka komið að láta þá sömu reglu gilda um geðveikrahæli og gildir um önnur sjúkrahús, að ríkissjóður greiði hann hluta kostnaðar, sem er umfram 400 kr. á ári. Væri æskilegt að heyra, hvað hv. n. hefir hugsað sér um þetta.