12.04.1932
Neðri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

21. mál, geðveikrahæli

Pétur Ottesen:

Við hv. 1. þm. Árn. höfum flutt brtt. við frv. þetta. Er hún í samræmi við það, sem ég hefi látið í ljós hér í deildinni, að varhugavert væri að fella niður úr núgildandi löggjöf ákvæðin um það, hvaða daggjöld sveitarfélögum beri að greiða fyrir sjúklinga, sem þau hafa til framfærslu á geðveikrahæli. Við höfum lagt það til, að þangað til lög verða sett um geðveikrahæli, skuli daggjald í hverri deild hælisins fyrir hvern þann sjúkling, sem þar er á sveitarframfæri, vera kr. 1,50. Við þessa till. okkar hafa þeir hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Seyðf, flutt brtt., sem er shlj. till. okkar að öðru leyti en því, að þetta á ekki að gilda lengur en læknar spítalans telja sjúklingnum spítalavistina nauðsynlega. Fylgi okkar hv. 1. þm. Árn. við vatill. þessa fer eftir því, hverja skýringu hv. flm. gefa á því, hvernig beri að skilja þetta ákvæði. Mun ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta fyrr en ég hefi heyrt hv. þm. Ísaf. skýra till. sína.