07.03.1933
Efri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

66. mál, lögreglumenn

Jón Baldvinsson:

Hæstv. dómsmrh. þóttist hafa farið svo illa með mig, að ekki stæði steinn yfir steini eftir af því, sem ég hefði sagt. Læt ég hv. þdm. um það að dæma, hversu veigamikil rök hæstv. ráðh. voru. Þeir sem kunnugir eru hæstv. ráðh., vita, að það er allajafna pex, útúrsnúningar og hártoganir á einstökum orðum, sem hæstv. ráðh. leggur í ræður sínar.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði rangfært orð 3. gr. frv., en ég skal segja hæstv. ráðh. það, að minn skilningur á orðum þessarar gr. er í fullu samræmi við það, sem færustu lögfræðingar leggja í orðalagið á þessari gr. Þar er aðeins um lævíslegt orðalag að ræða, til þess að stj. geti gripið til ríkislögreglunnar í hvert skipti, sem atvinnudeilur verða. (MG: Til þess að berja á verkalýðnum!). Já, einmitt til þess að berja á verkalýðnum. Efast ég ekki um, að hæstv. dómsmrh. mundi nota lögregluna á þennan hátt, ekki af mannvonzku, því að hæstv. ráðh. er allra bezti maður í eðli sínu, heldur af því, að hæstv. ráðh. lætur brúka sig til alls fjandans.

Hæstv. ráðh. svaraði mér engu um það, með hvaða heimild stj. hefði eytt tugum þúsunda úr ríkissjóði til ríkislögreglunnar, enda hafði stj. enga heimild til slíkrar fjáreyðslu, þótt verið geti að vísu, að stj. fái samþykki þingsins á þessu nú eftir á. En hvað nemur það miklu, sem stj. hefir eytt ólöglega til ríkislögreglunnar. Mér er sagt, að forsrh. hafi upplýst það í Nd., að eyðslan vegna ríkislögreglunnar hafi verið 52 þús. kr. til 1. jan. og 94 þús. kr. til 1. marz. Auk þessa hafa svo farið fram stórfelldar breyt. á gömlu símastöðinni vegna ríkislögreglunnar, sem ekki verða undir 20—30 þús. kr. Á nokkrum mánuðum hefir kostnaðurinn vegna ríkislögreglunnar þannig stigið hátt á annað hundrað þús. kr. Hvað mun þá síðar, þegar búið er að lögfesta ríkislögregluna? Þessi lögregla hlýtur að kosta mörg hundruð þúsunda á einu ári eftir því að dæma, sem komið er. Margt mætti gera þarflegra við það fé. Með því mætti draga mikið úr atvinnuleysinu og þá um leið þessari ófriðarhættu, sem menn óttast svo mjög, og er af því, að nú ganga menn þúsundum saman og hafa ekkert að gera. Með þessum 400 þús. mætti draga úr þessari hættu, ef þeim væri varið til að láta menn fá vinnu í staðinn fyrir að verja þeim til að halda úti vopnuðu liði til að auka þá hættu, sem þeir þykjast vilja draga úr.

Hæstv. ráðh. vék að því, að það væri á valdi mínu og annara, sem móti þessu frv. stæðu, hversu fjölmenn þessi lögregla yrði, þ. e. a. s. ef við vildum ganga í lið með þeim að útbúa þennan her, þá mundi hann draga úr því. Ég hefi gefið hæstv. ráðh. það í skyn hálft í hvoru, að ég væri ekki alveg frá því að samþ. þessa 10 manna lögreglu, sem ræðir um í 1. gr. frv., ef það verður þá bundið fast, að stj. hafi ekki heimild til að bæta við eftir því sem henni sýnist. Ég vil taka það til athugunar, hvort ég geti ekki til samkomulags gengið inn á þetta, ef það gæti svo orðið til þess að draga úr þessu herbákni, sem hér á að koma upp og komast hjá þessari ófriðarbliku, sem stj. er nú að ýta undir með stofnun þessa liðs. Ég vil vinna þetta fyrir friðinn, því að friðurinn þykir mér góður. Ég hefi aldrei viljað stofna til þessa ófriðar. Ég var á móti lögreglufrv. 1925, af því að það var ófriðarfrv., og af sömu ástæðum er ég líka á móti þessu.

Hann sagði, að ég hefði hótað að búa út lið á móti þessari lögreglu, og það er satt. Verkalýðsfélögin munu ekki horfa þegjandi á það, að stofnuð sé vopnuð lögregla, sem á að setja til höfuðs þeim. Þau munu búast til varnar. Þetta var engin hótun, ég var þar aðeins að skýra frá staðreyndum.

Hæstv. ráðh. fór að vitna til aðgerða jafnaðarmanna erlendis. Það hefði hann ekki átt að gera, því að hann fer svo flatt á því. Hvað er eitt af stærstu málum Stauningsstjórnarinnar? Veit hæstv. ráðh. það? (Dómsmrh.: O-já-já). Þá hefir hann sagt rangt frá. Hún hefir viljað minnka herinn úr 20 þús. niður í 7 þús. Þarna er stefnt í aðra átt en hæstv. ráðh. vill gera hér. Hann vill hér, þar sem enginn her er, fá fyrst 10 manna her, sem má síðan fjölga, eftir því sem stj. telur sig þurfa á hverjum tíma. Sama er að segja um Branting. Hann var einlægur friðarvinur og gerði allt, sem hann gat til að draga úr her í Svíþjóð. Svo kemur hæstv. ráðherra hnakkakertur og ber sig saman við þessa menn, sem vildu draga sem mest úr hernum, hann, sem vill nú fara að stofna her, sem má verða eins fjölmennur og stjórninni þykir þurfa.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði ekki verið hægt að taka neinn fastan út af þeim mótmælum, sem komið var með gegn þingrofinu 1931. En það hefði ekki verið hann, sem hefði þá átt að ákveða það, heldur þáverandi dómsmrh., núverandi hv. 5. landsk. Hann átti þá að ákveða, hvað væri löglegt og hvað ólöglegt. Og hann sagði hér áðan, að aldrei hefði þurft að taka í taumana af öflugri lögreglu nema þá, þegar þessi „Reykjavíkurskríll“, sem stundum hefir verið nefndur svo, óð hér um göturnar. Hv. 5. landsk. lét það þannig ekki lengi bíða hér að koma með yfirlýsingu, sem sannaði þau orð mín, að pólitískir ráðherrar mundu misbeita lögreglunni til að taka fasta pólitíska andstæðinga sína. Og þótt hæstv. ráðh. vildi kannske ekki nota lögregluna þannig, þá væri hætt við, að einhverjir harðsvíraðir flokksmenn hans heimtuðu, að henni væri beitt á sama hátt og hv. 5. landsk. gaf í skyn, að gert mundi hafa verið vorið 1931, nefnilega til að klekkja á pólitískum andstæðingum sínum.

Þá vil ég beina einni fyrirspurn til hæstv. ráð. Mér er sagt, að „generölum“ varalögreglunnar og fjölda af civilklæddum varalögreglumönnum sé dreift hér víðsvegar í hóp áheyrenda. Til hvers er þetta gert? Það er að líkindum til þess, að þeir geti heyrt lagaskýringar hæstv. ráðh., svo að þeir viti, hvernig þeir eiga að haga sér, þegar þeir eru komnir í starfið fyrir fullt og allt. Eða kannske þeir séu sendir hingað til að ógna þm. Það er þá ekki óþekkt fyrirbrigði hjá fascistum og íhaldsflokkum.

Þá hafa orðið nokkrar umr. um bæjarstjórnarfundinn 9. nóv. milli hv. 5. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. Ég þarf ekki að bæta við það, sem ég sagði áðan, að framkoma bæjarstj. Rvíkur hefði verið fordæmd af öllum bæjarbúum nema meiri hl. bæjarstjórnar. Þetta veit hv. 1. þm. Reykv., að er satt, og þarf því ekki til sönnunar annað en benda á, að jafnvel „Morgunblaðið“ var með snuprur til bæjarstj. fyrir þetta. (JakM: Þetta eru tilhæfulaus ósannindi). Ég hefi ekki blaðið hér. (JakM: Nei, ætli hann eigi gott með að ná í það), en það væri auðvelt að finna þetta þar, ef íhaldsmenn eru þá ekki búnir að brenna allt upplagið. Svo veit ég líka af viðtali við marga af íhaldsmönnum hér í bæ, að þetta var alstaðar fordæmt. (JakM: Þetta er tilhæfulaus lygi frá upphafi til enda. — Forseti hringir). En ég verð að segja það íhaldssamasta þingmanninum, Pétri Halldórssyni, til hróss, að hann stóð við þau orð, sem hann mælti í lok þessa fundar, og þegar hann kom út úr „hættunni“, stóð hann við þau, að kaupið skyldi haldast óbreytt. (JakM: Þetta er allt saman rangfærsla). Þetta er rétt, því að sama kvöld lýsti Pétur Halldórsson því yfir f. h. meiri hl. bæjarstj., að kaupið yrði óbreytt og vinnan skyldi haldast áfram.

Hv. 5. landsk. var að hæla lögreglunni fyrir starf hennar 9. nóv. Ég hefi ekki áfellst lögregluna, heldur stjórn hennar, því að þessar barsmíðar urðu eingöngu vegna þess, hve ógætilega lögreglunni var beitt. Það var ekki nema eðlilegt, að barsmíðar yrðu, þegar henni var sagt að ráðast á mannþyrpinguna, sem var þá orðin talsvert æst. Þetta var allt þeim að kenna, sem stjórnuðu lögreglunni, því að þegar henni var skipað að ganga í flokkinn, þá hlaut það að valda ryskingum og ekki nema eðlilegt, að lögreglan hlyti meiðsli, svo fámenn sem hún var, borið saman við mannfjöldann, sem hún átti í höggi við.

Mér þykir vænt um, að hv. 5. landsk. er mér sammála um það, að frv. eigi að ganga til allshn. Þar á það heima, enda hefi ég gert það að till. minni, að því verði vísað þangað, ef það kemst svo langt, að því verði vísað til n., en réttustu meðferðina á því teldi ég, að það væri fellt nú þegar við þessa umr.