23.05.1933
Efri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

66. mál, lögreglumenn

Magnús Torfason:

Ég skal þegar lýsa því yfir, að ég get fallizt á þetta frv. með þeim breyt., sem hv. 2. þm. S.-M. hefir borið fram á þskj. 694. Annað þarf ég ekki að segja um frv. en get aðeins í því sambandi lýst því yfir, að eins og á stendur nú, sökum þeirra breyt., sem hafa orðið á ýmsu hér í bænum, þá get ég ekki skilið annað en að lögreglan, sem sett er upp með þessu frv. og brtt. við bað, muni nægja að því er séð verður.

Það, sem gerir, að ég stend upp, er 5. brtt. á þskj. 612. Ég fyrir mitt leyti tel ekki ráðlegt að samþ. þá brtt. Sem lögreglustjóri er það reynsla mín, að þessi borgaralega skylda, sem þessi hjálp við löggæzlu á að vera byggð á, sé ekki mikils virði yfirleitt. En því er ekki að neita, að fyrir aldarfjórðungi höfðu slík ákvæði í lögreglusamþykkt þó nokkuð að segja, en smátt og smátt hefir dregið mikið úr því gagni, sem af þessari skyldu hafði orðið. Og ég get blátt áfram lýst því yfir, að það sem hefir gert það að verkum, að menn hafa ekki virt þá skyldu eins og hefði átt að vera, eru áfengislögin. Ég fékk þá reynslu, að smátt og smátt dró mjög úr því, að borgararnir vildu hjálpa til að halda þeim lögum uppi, og jafnvel ekki aðeins þeir, sem voru á móti þessum lögum, heldur líka þeir, sem fylgdu þeim lögum og það af fyllstu sannfæringu. Mér vildi reynast það svo, að menn, sem voru miklir bindindis og bannmenn, flúðu í holur hvenær sem á þeim þurfti að halda til þess að halda uppi lögum og reglu, að því er framkvæmd þessara mála snerti, og það ágerðist meir og meir. Þess vegna býst ég við, að þessi borgaralega skylda, sem hér er talað um, muni ekki vera mjög mikils virði. En þó er það annað, sem gerir það sérstaklega að verkum, að ég get ekki fylgt þessari till., þó að hún sé í sjálfu sér af góðum huga gerð, og það er það, að mín trú er, að það þýði ekki að hafa menn í lögreglu, sem eru þvingaðir til þess. Það er mín trúa, að það sé ekki til neins að hafa aðra menn í lögreglu heldur en þá, sem hafa áhuga fyrir starfi sínu og séu sannfærðir um, að það starf, sem þeir hafa tekið að sér, sé rétt og gott. Ef það á að taka menn nauðuga mundi það verða lið, sem ég er ekki í neinum vafa um, að mundi reynast ótrútt, þegar á þyrfti að reyna og ekki koma að haldi. Yfirleitt er það eitt einkenni þessarar þjóðar frá upphafi, að henni er illa við allar þvingunarráðstafanir, og þær þykja óþjóðlegar, og ef menn væru þvingaðir til slíkra starfa mundi það verða til þess, að í meðvitund manna mundi sú lögregla verða heldur illa séð.

Ég hélt, að ef það væri þörf á að bæta lögregluna verulega frá því, sem nú er, þá yrði það varla gert hér á landi með miklu liði, heldur miklu fremur með hinu, að lögreglan væri þannig útbúin og með slíkum tækjum, að hún gæti betur neytt sín, enda er ég ekki í neinum vafa um það, að það ráð mundi vera miklu ódýrara heldur en hitt ráðið, að ætla, að hafa lögregluna á sama hátt og nú er vopnlausa eða vopnlitla, en æði fjölmenna. Vitaskuld er það, að slíkt kemur varla til mála í hinum minni kaupstöðum landsins, en það er vitanlegt, að þessi þörf á lögreglu, sem hér er talað um, á sérstaklega við hér í Rvík.

Ég lýsti því yfir, að ég fyrir mitt leyti gæti sætt mig við þetta frv., sökum þess að ég hefi þá von, eins og nú er komið, að það muni ekki þurfa að gera svo ýkja miklar ráðstafanir, en verð hinsvegar að halda fram, að það muni vera rétt í þessu máli að gera ekki meira en komizt verður af með á hverjum tíma. Við megum ekki gleyma því, að á slíkum tímum sem þessum, þegar þarf að velta hverjum eyri mörgum sinnum milli handanna áður en hann er gefinn út, þá fellur það vel líka að því er þetta snertir að ganga ekki lengra og veita ekki meira fé til þess en óhjákvæmilegt er. En ef það skyldi nú reka að því, að þetta dygði ekki, þá standa þeir menn, sem vilja auka lögregluliðið, vel að vígi, því að þá er það nauðsyn, sem mundi knýja fram málið, en ég sé ekki, að það sé nein brýn nauðsyn að gera það nú.

Ég skal svo að endingu aðeins geta þess um 1. brtt. á þskj. 612, að í sjálfu sér get ég verið með þeirri brtt. og mun ekki leggja neitt sérlegt kapp á það, hvort hún verður fremur samþ. heldur en 1. brtt. á þskj. 614.