30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

66. mál, lögreglumenn

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki segja, hvort Hermann lögreglustjóri ber ábyrgð á þeim aðförum, sem urðu á bæjarstjórnarfundinum, en það er a. m. k. víst, að hv. þm. G.-K. ber ábyrgð á málshöfðunum gegn þeim, sem hafa orðið fyrir barðinu á misbeitingu lögregluvaldsins. (ÓTh: Ég er ekki dómari!). Nei, en hafði samt ákæruvaldið. Og mér vitanlega var ekki beint neinni rannsókn að því, að hve miklu leyti þetta var lögreglustjóranum að kenna. Og nú er viðurkennt af flestum mönnum í landinu, að fyrsta orsök til þessara atburða var það, þegar kröfu verkamanna um fjölgun í vinnu var svarað á þá leið, að bæjarstj. ákvað þriðjungs kauplækkun. Það voru dáfallegar viðtökur, sem verkamenn fengu, þegar þeir komu til að hlýða á rökræður um vandamál sín, að lögreglunni var sigað á þá. Fyrst var neitað að fjölga í vinnunni, síðan er kaupið lækkað, og síðan send lögregla til að berja þá niður.

Þá vildi hv. þm. færa þá afsökun fyrir að hafa ekki gefið út bráðabirgðallög, að hann hafi ekki viljað einskorða ramma framkvæmdanna. Vill hann þá heldur framkvæma fyrir utan lög og rétt! Því að eftir engum l. gat hann þá gert slíka hluti nema bráðabirgðalögum. En hann kaus fremur lögleysuna til þess að þjóna lund sinni heldur en bera fram l., sem hann yrði síðar að skýra nánar og verja í Alþingi. Hann sagði, að þá hefði síður verið hægt að breyta fyrirkomulaginu eftir reynslunni. Þetta er eins og hver önnur vitleysa, slíkt var eins hægt fyrir því, þótt löglega væri að farið í fyrstu.

Þá vill hv. þm. sérstaklega geta þess, að þetta lið sé ekki svo hættulegt vegna þess að alþýðusamtökin muni hafa sitt eigið varnarlið til þess að verjast, ef á það yrði ráðizt. Ef það er nægilegt til þess að standast óþarfar árásir af hendi þessa liðs, til hvers er það þá? Og er þá nokkuð betra, þegar komið er upp öðrum liðsveitum, eins og Heimdellingar, flokksmenn þessa þm., hafa gert og nazistar. Allt saman orsakast þetta af varalögregluliðinu. Ennfremur hafa kommúnistar sitt sérstaka lið. Það er þessi vopnaði friður, sem hv. þm. virðist trúa betur á en hinn óvopnaði. Svo er eitt að athuga: Við höfum ekki fengið neina yfirlýsingu um það frá hálfu stj. né þm. G-K., sem gleymir því, að hann er ekki ráðh. nú og verður það vonandi aldrei aftur, hvaða tæki þetta lið eigi að hafa. Ef það á að vera útbúið með gasi, þá geta 100 menn orðið hættulegir 1000 í höndum óhlutvandrar stj. og orðið nægilegt til þess að halda niðri mönnum í landinu, sem eru þeim andvígir, og það er ósvinna, að ráðh. haldist það uppi að ríkja hér á móti l. og lagalaust á sama hátt og þm. G.-K. gerði í þessu ríkislögreglumáli.

Þá er loksins eitt eftir, sem hv. þm. lafir í, og það er, að miðstj. Sjálfstæðisfl. hafi ekki samþ. kauplækkun. Það hefi ég ekki sagt, að hún hafi gert, heldur fært líkur að því, og ég er svo kunnugur þm. G.-K., að ég fullyrði, að hún hafi gert það, fyrst hann segir hið gagnstæða. Guðmundur Ásbjörnsson, þáverandi borgarstjóri, lýsti yfir því, að miðstj. Sjálfstæðisfl. hefði samþ. þetta og því væri ekki hægt að breyta án hennar vilja.