31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

66. mál, lögreglumenn

Vilmundur Jónsson:

Rétt í þessu hefir verið útbýtt brtt. frá mér við 5. gr. frv., þess efnis, að núverandi tollverðir ríkisins verði ekki skipaðir í varalögregluna, ef þeir ekki vilja það sjálfir.

Við Alþýðuflokksfulltrúarnir fluttum í gær brtt. við þessa sömu gr. frv., sem þótti fjarstæða, og var það að vísu, því að hún fór í þá átt að skipa mætti ýmsa af starfsmönnum ríkisins í varalögregluna. Till. var af ásettu ráði flutt sem fjarstæða og aðeins til að sýna það, hver dæmalaus fjarstæða það er að leggja þá skyldu á tollþjónana að gegna varalögreglustörfum. Það er sem sé ekki hóti meiri fjarstæða að skipa t. d. fornminjavörðinn, landsbókavörðinn, biskupinn eða hvern annan af þeim mönnum, sem í till. okkar voru nefndir, til að gegna þessari skyldu, heldur en tollverðina. Tollverðirnir eru margir búnir að starfa árum saman og hefir aldrei dottið í hug að þessi kvöð yrði á þá lögð, og mundu ekki hafa tekið það starf að sér, ef þeim hefði dottið það í hug. Nú er búið að fella úr frv. hina almennu herskyldu, sem er allra þakka vert, en því sjálfsagðara er að létta henni einnig af tollvörðunum og raunar líka skipshöfnum varðskipanna. Hvers eiga tollverðirnir að gjalda? Það eru gersamlega óskyld störf að skoða vörur og að vopnast kylfum og bareflum til þess að taka þátt í blóðugum bardögum. Líkt má að vísu segja um skipshafnir varðskipanna, en þó eru þeirra störf skyldari þessum lögreglustörfum heldur en störf tollvarðanna. Ég vona, að till. mín fái góðar undirtektir. Þessum mönnum, sem hér eiga hlut að máli væri þar með sýnd sjálfsögð sanngirni. Mér er kunnugt um, að í þessu liði er margt ágætra starfsmanna, sem mundi verða það mjög óljúft að gegna þessari skyldu, og það svo, að ef knýja ætti þá til þess, væri það sama sem að reka þá frá starfi sínu.