31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

66. mál, lögreglumenn

Frsm. (Ólafur Thors) [óyfirl]:

Það er ekkert í ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem ég þarf að svara, því að allt, sem hann sagði, er margtuggið hér í d. áður. Ég tel mér ekki heldur þörf að skipta mér af rökræðu hæstv. forsrh. og hv. þm. Seyðf. Heldur þar hvor sínu sjónarmiði, sem við er að búast.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ræða mín í gær hefði valdið uppþoti á pöllunum. Ég verð að segja, að þeir, sem þar voru, sýndu mér sízt meiri ókurteisi en honum. Einar Olgeirsson greip t. d. oft fram í fyrir honum, en aldrei fyrir mér. Hitt er óeðlilegt, ef á Alþingi má ekki fara lofsverðum orðum um lögregluna, eins og hún á skilið, en annað gerði ég ekki.

Það er langt frá því, að ég telji það ámælisvert af forseta Sþ. að kveðja lögregluna á vettvang. Það var skylda hans. Kommúnistar og fleiri höfðu haft í hótunum um að gera aðsúg að þinginu. (Hrópað fram í af pöllunum: Lýgi!). Þetta var sjálfsögð tilraun forseta Sþ. til að tryggja friðinn.

Þá er það rangt hjá hv. 2. þm. Reykv., að ég hafi í heimildarleysi stofnað varalögregluna. Heimild fyrir því er í stjórnarskránni, og eins liggur hún í því, að hverri stj. er skylt að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til að halda friði í þjóðfélaginu. Ástandið í bænum 9. nóv. var þannig, að enginn getur fullyrt neitt um það, hvað af hefði hlotizt, ef ríkið hefði ekki gripið til varúðarráðstafana. Það var ekki höfuðtilgangur minn eða annara, að barið yrði á verkalýðnum. Höfuðtilgangurinn var að halda l. Sá ráðh., sem notaði þessa lögreglu til annars, myndi fá sinn dóm. Hann yrði ekki lengi í stj.