27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2882 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

Afgreiðsla þingmála

Sveinn Ólafsson:

Hér hefir verið lýst eftir málum í dag, sem tafizt hafa á leið sinni í gegnum þingið, og vil ég í framhaldi af því minna á mál eitt, sem ég var annar flm. að og vísað var til fjvn. 8. marz, en n. þó ekki enn hefir skilað neinu áliti um, þótt furðulegt sé, þar sem svo langt er frá liðið. Þetta mál fjallar um greiðslu víxilskulda á Austfjörðum vegna Síldareinkasölu Íslands. Er upplýst, að þarna hefir verið um að ræða saknæmt athæfi af hálfu síldareinkasölunnar, sem ekki er annað að fara en til Alþingis til þess að fá réttlætingu á. Menn þeir, sem þarna eiga hlut að máli, hafa verið sviknir og blekktir af síldareinkasölunni, og er hin mesta nauðsyn á, að máli þeirra verði sinnt sem fyrst, og skora ég því á hæstv. forseta að ýta undir n. með afgreiðslu málsins. — Ennfremur vil ég skora á hæstv. forseta að taka sem fyrst á dagskrá till. til þál. um að fela Skipaútgerð ríkisins stjórn varðskipanna, sem lögð var hér fram í þingbyrjun og n. hefir skilað áliti sínu um fyrir alllöngu.