17.03.1933
Neðri deild: 28. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

60. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það á náttúrlega nokkurn þátt í því, að menn eru nú fúsari til að gefa þessa ábyrgðarheimild til lengri tíma en þeir voru í fyrra, að það hefir gengið mjög vel um ráðstöfun þeirra peninga, sem teknir hafa verið að láni á síðastl. ári skv. þessari heimild. Fyrir þetta lánsfé hafa eingöngu verið keyptir „liquid“víxlar, mestmegnis fiskvíxlar, og mun lánið vera greitt, nema sem nemur um 8000 sterlingspundum, en það er fiskur á leiðinni út, og verður allt greitt að fullu fyrir eða um 28. þ. m. Hefir á allan hátt verið farið með þetta lán eins og þingið ætlaðist til. Þar sem óttinn er minni nú en hann var á síðasta þingi, mun hv. d. vera tilleiðanlegri til að veita þess ábyrgð nú til fleiri ára, þar sem aðrar ástæður mæla sterklega með því, eins og hv. frsm. meiri hl. n. og ég höfum bent á.

Ég vil aðeins biðja hv. aðalframsögumann velvirðingar á því, að mér láðist að nefna það við hann, að málið yrði nú tekið á dagskrá, en það var vegna hans fyrirvaraleysis.