11.03.1933
Neðri deild: 22. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

89. mál, silfurberg

Sveinn Ólafsson:

Með l. frá 1922 um einkarétt ríkisins á silfurbergi er á engan veg bannað að leita að silfurbergi eða vinna silfurberg. Ríkið hefir aðeins einkarétt á sölunni. Virðist það svo, ef það hefði þótt álitlegt og arðvænlegt að vinna silfurberg, að hver og einn, sem hafði tök á því, mundi geta gert það, eins þótt hann þyrfti að selja það gegnum einkasölu ríkisins.

Nú er það svo, að fyrir löngu er vitað, að silfurberg er á fleiri stöðum hér á landi en Hoffellsnámu — og e. t. v. meira magn — og í Helgustaðanámu, en það hefir ekki verið neitt verulega gert að því að leita þess, nema þá á þessum eina stað, undir Hoffelli við Hornafjörð, af því að verðið hefir smám saman á seinni árum þokazt niður.

Nú er ég í dálitlum vafa um það, hvort rétt er að taka burt þennan einkarétt, sem ríkið hefir. Ég get allt eins búizt við, að einstökum mönnum, sem vildu leggja í að leita að sifurbergi eða vinna það, þar sem það finnst í jörðu, geti komið vel að snúa sér til þessarar einkasölu ríkisins um söluna.

En að því er snertir ummæli hv. flm. um Helgustaðanámu, þá vildi ég aðeins taka það fram, að það er engum fært að segja um það, hvort náman er auðug að silfurbergi eða ekki. Það hefir sem sé í þeim framkvæmdum, sem gerðar voru 1927—28, ekki verið mikið gert að því að leita að silfurbergi. Aðalframkvæmdirnar voru innifaldar í því að búa út löng og vönduð námugöng, svo að ruðningurinn úr námunni kæmist auðveldlegar burt og hægara væri að vinna námuna. Það hafði verið unnið í henni í áratugi á þann hátt að grafa niður í bergið og hefja grjótið upp úr námunni með miklum kostnaði og fyrirhöfn og ryðja ofan fyrir bratta brekku. Nú síðan námugöngin voru gerð er tiltölulega auðvelt að koma öllu grjótinu ofan fyrir brekkuna með miklu minni vinnu og fyrirhöfn. En það er tiltölulega lítið, sem gert hefir verið að því síðan göngin komu, að sprengja bergið frá til að leita að nýjum skápum eða silfurbergsæðum. Og það er þess vegna dálítið vafasamt, sem stendur í grg. frv., að vonir séu litlar eða engar um það, að þarna kunni að finnast silfurberg. Ég held — þvert á móti — að þær séu engu minni nú en þær hafa verið. Það hefir blátt áfram ekki verið leitað neitt verulega seinni árin eftir silfurbergi, vegna þess að meðan nokkrar birgðir voru óseldar, þá var ekki talið arðvænlegt að vinna mikið í námunni, og þess vegna var það auðvitað, að hætt var rekstri hennar.

Ég vildi sem sagt gera þessa aths. áður en málið fer í n. Mér finnst það muni ekki vera ýkja aðkallandi að nema þennan einkasölurétt ríkisins úr lögum, því að þeir, sem annars vilja vinna silfurberg eða leita þess, geta það auðvitað engu að síður þótt hann haldist. Vitanlega mun n. afla sér frekari upplýsinga en ennþá liggja fyrir um þetta, og þar á meðal um það, hvort annarsstaðar eða úr öðrum héruðum landsins hafi komið skýrslur um nýjar námur eða slíkan fund silfurbergs. Ég fyrir mitt leyti veit af silfurbergi á þremur stöðum austanlands öðrum en Helgustöðum. En hvað mikið það kann að vera, er ekki hægt að segja um, þess hefir ekki verið leitað neitt verulega, en komið í ljós þar sem veðraðir klettar hafa hrunið og silfurbergsæðar opnazt.