06.05.1933
Neðri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

156. mál, innflutningur nauta af bresku holdakyni

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. hefir fallizt á að mæla með þessu frv. óbreyttu. Það, sem hér er um að ræða, er tilraun til að koma á ræktun nautgripa hér á landi til slátrunar. Er það einn liður í þeim tilraunum, sem nú verða að hefjast innan hins íslenzka landbúnaðar, til þess að breyta honum þannig, að hann verði frekar við hæfi þeirra tíma, sem við lifum nú á.

Eins og kunnugt er, er á ýmsum tímum árs kjötekla á markaðinum hér innanlands, þó á öðrum tímum berist aftur svo mikið kjöt á markaðinn, að það gengur ekki út. Þetta kemur af því, hvað kjötframleiðslan er einhæf. Nær eingöngu er framleitt sauðakjöt. Sauðfénu er nær eingöngu slátrað á haustin, og því getur of mikið kjöt borizt á markaðinn þann tíma árs, þó á öðrum tímum sé jafnvel mikill skortur á nýju kjöti. Með þeirri tilraun, sem hér er um að ræða, er verið að leita eftir leið til að fullnægja kjöteftirspurninni þann tíma ársins, sem nýtt sauðakjöt er ekki á boðstólum, og jafnframt leið til þess að skapa nýja möguleika fyrir sölu á íslenzku kjöti erlendis. Nautgripum er miklu hentugra að slátra á hvaða tíma sem er heldur en sauðfé. Þess vegna ætti sala nautakjötsins að geta fallið inn á dauðan tíma í innlenda kjötmarkaðinum. Einnig er hugsanlegt, að við gætum framleitt nautakjöt fyrir brezkan markað. Í því liggur hið mikla gildi, sem ræktun nautgripa til frálags gæti haft fyrir okkur nú, að kjöt þeirra gæti orðið verzlunarvara bæði innanlands og utan.

Ennfremur má benda á í þessu sambandi, að í sumum landbúnaðarsveitum, einkum hér sunnanlands, eru landkostir betur fallnir til nautgriparæktar heldur en sauðfjárræktar. Það eru góðar heyskaparsveitir, þar sem slægjur eru miklar, en léleg beit og lítil afréttarlönd. Á slíkum stöðum er sauðfjárrækt eigi talin arðsöm. Hugsanlegt er, að á þeim jörðum, þar sem sauðfjárræktin er ekki arðvænleg, geti það orðið bændunum til mikillar hjálpar að ala upp nautgripi til slátrunar, einkum ef þeir fengju þau nautgripakyn, sem bezt eru til frálags.

Landbn. lítur svo á, að sjálfsagt sé að gera þá tilraun, sem frv. ræðir um, til þess að bæta úr einhæfni hins íslenzka landbúnaðar.

Leggur hún því til, að frv. sé samþ. óbreytt.