02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (2300)

214. mál, launamál, starfsmannafækkun og fl.

Frsm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Hæstv. fors.- og fjmrh. gat þess í upphafi þessa þings, er hann lagði fram fjárlfrv. sitt, að hann hefði gert ráðstafanir til að láta hagstofuna semja skýrslur um starfsmannahald og launagreiðslur ríkissjóðs, og lagt svo fyrir, að fjvn. yrðu sendar þessar skýrslur. Beindi hann því til fjvn., að hún athugaði þessar skýrslur, eftir því sem tími ynnist til. Það var nú talsvert liðið á þing, er þessar skýrslur fóru að berast n. Um þær skýrslur, er fyrst bárust, er það að segja, að þær sýndu eingöngu launagreiðslur eins og þær eru ákveðnar í launal., með sérstökum l. eða þá eins og ríkisstj. hafði ákveðið þær. Auk þess húsnæðishlunnindi eða húsaleigustyrk. En slíkar skýrslur eru vitanlega ekki tæmandi. Fjvn. sá fram á það, að henni ynnist ekki tími til að koma fram með sjálfstæðar till. til breyt. á launakjörum embættis- og starfsmanna ríkisins. Til þess þurfti meiri tíma en þm. hafa yfir að ráða, og ekki sízt fjvn., sem segja má, að sé störfum hlaðin allan þingtímann. En fjvn. var það hinsvegar ljóst, að nauðsyn ber til, að þetta mál sé tekið til rækilegrar athugunar. Þess vegna voru 2 menn innan fjvn. kosnir til að taka þetta til nánari athugunar, eftir því sem föng væru á. Við athugun þeirra kom strax í ljós, að skýrslur þær, sem fjvn. hafði fengið, voru algerlega ófullnægjandi til að byggja á þeim rökstuddar till. Þeir létu því semja skrá yfir þá starfs- og embættismenn ríkisins, sem hafa, svo vitað sé, aukatekjur fram yfir föst laun. N. fékk slíkar skýrslur, en við athugun þeirra kom enn í ljós, að þær innihéldu ekki allar þær upplýsingar, sem nauðsynlegt var að fá. Eins og sjá má af þessu, kostar þetta allt mikla fyrirhöfn og tíma, og er því enn verið að afla þeirra skýrslna. Þótt ekki séu samkv. framansögðu öll kurl komin til grafar, hefir n. þó fengið allmiklar skýrslur og gögn. Við athugun þeirra kemur þegar í ljós, að geysilegt ósamræmi er í launagreiðslum ríkisins. Stofnlaun þeirra starfsmanna, er stjórnskipaðir eru, eru yfirleitt hærri en embættismenn ríkisins fá eftir launal. frá 1919, og það eins þótt dýrtíðaruppbótin sé tekin með. Þá kom og einnig í ljós, að launagreiðslur við hinar einstöku ríkisstofnanir eru mjög mismunandi. Skal ég taka nokkur dæmi, er sýna þetta ljóslega. Sýna þau, að forstöðumenn ríkisstofnana hafa margir meira og minna hærri laun en þeir embættismenn ríkisins, sem eru hæstlaunaðir nú samkv. launal., svo sem dómarar hæstaréttar. T. d. að taka hefir forstjóri skipaútgerðar ríkisins á fjórða þúsund kr. hærra en dómarar í hæstarétti og 2000 kr. hærra en dómstjóri hæstaréttar. Þá má benda á, að prófessorar við háskólann hafa, eftir því sem þeim hefir verið greitt síðastl. ár, frá 5190-6690 kr. sem hæstu laun samkv. launalögum, en í því sambandi má benda á, að forstjóri landssmiðjunnar hefir 9000 kr. laun og annar af forstjórum ríkisstofnana hefir sömu laun og hann, 9000 kr., en hinir allir mun hærri, og sumir miklu hærri laun. Forstjóri tóbakseinkasölunnar hefir t. d. 6000 kr. hærri laun en þeir af prófessorum háskólans, sem hæst eru launaðir. Ennfremur má benda á, að yfirkennarinn við menntaskólann hefir 5690 kr. laun, en skrifstofustjórinn hjá útvarpinu hefir 7000 kr. — Kennarar menntaskólans hafa 3921 kr. laun, en skrifstofumaður hjá skipaútgerð ríkisins 6000 kr., eða liðlega 2000 kr. hærri laun en menntaskólakennararnir. Póstfulltrúanum í Reykjavík eru greiddar 4692 kr., en fulltrúa landssmiðjunnar eru greiddar 7200 kr., eða rúml. 2500 kr. meira en póstfulltrúanum. Aðrar ríkisstofnanir greiða ýmsum starfsmönnum sínum yfir 6000 kr. föst árslaun, en laun presta í landinu eru frá 2500-4600 kr. hæst, eftir brauði og þjónustualdri. — Þá má einnig gera samanburð á þessum launagreiðslum við laun sýslumanna úti á landi, jafnvel þó að skrifstofufé þeirra sé að nokkru leyti talið með laununum, en allmikið af skrifstofufénu þurfa þeir að borga út, eins og kunnugt er, fyrir keypta vinnu. T. d. má benda á það, að verkstjóranum í áfengisverzluninni eru greidd nákvæmlega sömu laun og elzta sýslumanni landsins. Einnig má benda á það, að fjórir verkstjórar hjá landssmiðjunni hafa í árslaun hver um sig 5400 kr. og auk þess kr. 3,50 um hverja klst. fyrir eftirvinnu og helgidagavinnu, og sum árin hefir það hleypt laununum svo mikið upp, að árstekjur þeirra hafa stundum orðið allt að 8000 kr., en bókaverðir Landsbókasafnsins fá frá 3565-4693 kr. árslaun.

— Ég skal svo ekki rekja þennan samanburð mikið lengur; þannig má telja í það endalausa. Forstjórar ríkisstofnana yfirleitt hafa nokkuð yfir 10 þús. kr. árslaun, að tveimur undanskildum, sem hafa um 9000 kr. En landsbókavörður hefir 6690 kr., eða eins og hæstu laun prófessora við háskólann.

Beri maður saman hliðstætt starfsfólk hjá ýmsum ríkisstofnunum, verður útkoman hin sama og mismunurinn áberandi. T. d. hefir annar bókari hjá áfengisverzluninni, en þar eru þrír bókarar, í árslaun 5857 kr., en gjaldkeri og bókari hjá lögreglustjóra hefir í laun 4620 kr., eða 1200 kr. minna. Verkstjóri hjá áfengisverzluninni hefir líka 5857 kr., en verkstjóri hjá landssímanum 4382 kr.; þar er 1500 kr. munur. Annar verkstjóri hjá landssímanum, sem verið hefir þar lengi, hefir aðeins 3690 kr., eða liðugum 2000 kr. minna en verkstjóri áfengisverzlunarinnar. Afgreiðslumaður í sömu verzlun hefir 5325 kr., en starfsmaður í hagstofunni fær 2700 kr. fyrir starf sitt þar, eða um helmingi lægri laun.

Tóbakseinkasalan greiðir þó ekki einum afgreiðslumanni meira en 4380 kr. eða um 1000 kr. minna en áfengisverzlunin. Birgðavörður tóbakseinkasölunnar hefir í laun 4920 kr., en tollvörður í Reykjavík fær 3885 kr., eða á annað þús. kr. minna en birgðavörðurinn. Vélritunarstúlku greiðir tóbakseinkasalan 2760 kr. laun, en í ýmsum öðrum ríkisstofnunum fá þær lægri laun. Svona er ósamræmið mikið bæði í hærri og lægri launaflokkum. Ég vil þó sérstaklega benda á tvennt. Það er mismunurinn á þeim launum, sem greidd eru samkv. launalögunum, og öðrum launum, sem greidd eru samkv. sérstökum lögum, og í öðru lagi hinn gífurlegi mismunur á launagreiðslum innan ríkisstofnana til hliðstæðra starfsmanna. Við nánari athugun þessara mála kemur það í ljós, að ósamræmið í launagreiðslum til ýmsra starfsmanna ríkisins stafar ekki einungis af því, hvort þeir fá laun samkv. launalögunum eða sérstökum lögum; ósamræmið stafar ekki síður af því, að ýmsum opinberum starfsmönnum eru greiddar upphæðir umfram föst laun, sem talið er fyrir aukastörf. Með þessum hætti verður ósamræmið í launagreiðslunum mest áberandi. Nú er svo komið, að laun þau, er ýmsir embættismenn fá samkv. launalögunum, eru ekki orðin nema hluti af því, sem ríkið greiðir þeim fyrir starfið. Fjöldamörg af þeim störfum, sem sérstök laun eru greidd fyrir, heyra beinlínis undir þá stofnun, sem hlutaðeigandi embættismaður starfar við, og eru ekki annað en hluti af þeim störfum, sem embættismennirnir eiga að vinna aðeins fyrir hin föstu laun. Þetta kemur svo ábærilega í ljós, þegar skýrslur og reikningar um starfsmannahald og rekstur ríkisins eru lesnar niður í kjölinn. Auk þess er það í sumum tilfellum alveg bersýnilegt, að ýms skyld verkefni eru þannig notuð sem átylla til þess að fá grundvöll undir viðbótarlaunagreiðslu til einstakra manna. Og það er oft gengið svo langt í þessum efnum, að aukagreiðslurnar til einstakra manna eru í mörgum tilfellum hærri en föstu launin, sem embættismaðurinn hefir. Og þetta á ekki síður við um þá embættismenn, sem teljast til hærri launaflokka, heldur en um hina, sem lægri laun hafa. Ég skal í þessu sambandi benda á nokkur atriði, er sýna það og sanna, að ég fer hér með rétt mál.

Í stjórnarráðinu er þeim ýmsu opinberu sjóðum skipt upp á milli skrifstofustjóranna og þeim greitt sérstakt kaup fyrir að gæta þeirra. Og benda má á það t. d., að aðalendurskoðandi ríkisreikninganna, sem hefir föst laun, álíka há og skrifstofustjórar í stjórnarráðinu, fær sérstakar greiðslur fyrir endurskoðun á reikningum ríkisstofnana, — ein þeirra stofnana greiðir honum 500 kr. á ári fyrir starfið. Þetta er hér tekið samkv. skýrslum frá skrifstofustjóranum í fjmrn. Þessi endurskoðun á auðvitað að heyra undir endurskoðanda ríkisreikninganna án sérstaks endurgjalds. Eins er um mjög mörg önnur störf, er undir stjórnarráðið heyra, að búið er að gera þau að sérlaunuðum aukastörfum. Störfum við Lögbirtingablaðið er skipt á milli tveggja manna. Annar hefir ritstjórn blaðsins og útsendingu, en hinn er gjaldkeri fyrir blaðið. Gjaldkerastarfið er launað með 1200 kr., en ritstjórn og útsending með 1580 kr., samkv. því, sem skýrslur skrifstofustjórans í fjmrn. herma. Þá eru nokkrir starfsliðir, sem borgað er fyrir alveg sérstaklega, auk hinna föstu launa, svo sem skipaskráning, vörumerkjaskrásetning, afgreiðsla stjórnartíðinda, framkvæmdir á berklavarnalögum, ritstjórn stjórnartíðinda, skrásetning einkaleyfa og ótal margt fleira. Engum blandast hugur um, að allt þetta er aðeins hluti af skyldustörfum stjórnarráðsins, þó að búið sé nú að gera það að sérlaunuðum störfum. Hér er aðeins verið að kljúfa störf, sem á að vinna fyrir föstu launin, í marga parta, til þess að embættismennirnir fái hærri laun. Sem dæmi um aukatekjur embættismanna frá því opinbera skal þetta nefnt: Skrifstofustjórinn í dómsmrn. hefir í laun samkv. launalögum 6690 kr., en greiðslur til hans fyrir aukastörf í stjórnarráðinu nema 10 þús. kr. Alls fær hann því fyrir störf sín í stjórnarráðinu 16690 kr. Skrifstofustjórinn í atvmrn. hefir í laun samkv. launalögum 6290 kr. Fyrir aukastörf fær hann 3900 kr. Aðstoðarmaður einn í stjórnarráðinu hefir í laun 3500 kr. og fyrir aukastörf 5180 kr. Annars aðstoðarmaður hefir líka í laun 3500 kr., en fyrir aukastörf 5000 kr. Í báðum þessum tilfellum eru aukalaunin mun hærri en stofnlaununum nemur. Þó að ég nefni ekki fleiri dæmi, þá er það svo um alla fasta starfsmenn, er vinna í stjórnarráðinu, að aukatekjur þeirra eru hærri eða eins miklar og stofnlaunin.

Lögreglustjórinn í Rvík hefir samkv. launalögum 8990 kr., en aukagreiðslur frá því opinbera eru 3600 kr., svo að launin verða samtals 12590 kr. Landssímastjórinn í Rvík hefir í laun 9590 kr., en 3600 kr. í aukatekjur frá því opinbera, svo að laun hans verða samtals 13190 kr. Stöðvarstjórinn í Rvík hefir í föst laun 4552 kr. og auk þess stóra fría íbúð, ljós og hita, sem óhætt er að meta á 3000 kr. Auk þess fær hann allt, sem inn kemur fyrir auglýsingar í símaskránni, og gaf það honum 4000 kr. síðastl. ár. Laun stöðvarstjórans eru því alls 11552 kr. þó að grunnlaunin séu aðeins 4552 kr., það sem greitt er í peningum. Vegamálastjóri hefir samkv. launalögum 6690 kr., en fyrir ýms opinber störf önnur er honum greitt kr. 4700, og verða laun hans því samtals 11390 kr. — Fulltrúi veðurstofunnar hefir föst laun samkv. launalögum 6190 kr., en fyrir önnur opinber störf fær hann greitt 2200 kr., og verður það samtals 8390 kr. Þá má ennfremur nefna, að samkv. skýrslu frá skattstjóra starfar fulltrúi í skattstofunni, og eru laun hans ákveðin 5610 kr., en fyrir aukavinnu í skattstofunni eru þessum fulltrúa greiddar 6070 kr. Laun hans á skrifstofunni eru því samtals 11682 kr. á ári. Fangavörður hegningarhússins í Rvík hefir föst laun, auk húsnæðis, ljóss og hita, 2265 kr., en fyrir eftirlit með gæzluföngum fær hann sérstaklega 2040 kr. Það er einkennilegt að kljúfa þessi laun í tvennt. Og auðvitað á það fyrst og fremst að vera starf fangavarðar að hafa eftirlit með gæzluföngum í húsinu. — Þá má nefna forstjóra ríkisútgerðarinnar, sem hefir í föst laun 9770 kr., auk þess er hann formaður í stjórn landssmiðjunnar og fær 1200 kr. fyrir það; eru þetta samtals 10970 kr. Ofan á þetta kaup, tæplega 11 þús. kr., eru honum greiddir fæðispeningar, 3 kr. á dag. Hann fær því alls hjá því opinbera yfir 12 þús. kr. — Þá má geta þess, að einn fréttaritarinn hjá útvarpinu hefir 4800 kr. á ári, og landssíminn greiðir þessum sama manni 2628 kr. fyrir einhverskonar teikningar. Árskaup hans verður því samtals 7428 kr. — Loks má nefna hæstaréttarritara. Laun hans eru ákveðin í fjárl. 3000 kr., en auk þess fær hann fyrir störf í hagstofunni 5190 kr. — þetta verða samtals 8190 kr. Og þó var það svo, að árið sem leið kom hann ekki í hagstofuna til neinna starfa, svo að þessi laun voru aðeins greidd fyrir hæstaréttarritarastarfið eitt síðastl. ár. Mér hefir ekki tekizt að fá upplýst, að ritarinn vinni annarsstaðar en í hæstarétti fyrir það opinbera.

Ég hefi viljað benda á þessi dæmi til þess að sýna fram á mismuninn í launagreiðslum til opinberra starfsmanna, og sérstaklega á ósamræmið, sem aukagreiðslur umfram föst laun valda. Þá vil ég geta þess, eftir upplýsingum frá síðastl. ári, sem fylgdu fjárlfrv., að ríkisstj. hafði gert ráðstafanir til þess, að laun þeirra opinberu starfsmanna, sem taka laun utan launalaganna, yrðu lækkuð um 15% á árinu 1932, í samræmi við lækkun dýrtíðaruppbótar á launum þeirra starfsmanna, sem hafa laun samkv. launalögunum. En eftir upplýsingum, sem fólust í þessum skjölum, þá höfðu þessar lækkunarráðstafanir eigi komið til framkvæmda nema hjá sumum ríkisstofnunum og starfsmönnum hins opinbera. Þær ríkisstofnanir, sem ekki höfðu lækkað kaup við starfsfólk sitt um 15% árið 1932, eru þessar: Landssíminn, pósthúsið, landssmiðjan, öll sjúkrahúsin, ríkisprentsmiðjan, hagstofan, lögmaðurinn í Rvík, tollstjórinn í Rvík, lögreglustjórinn í Rvík, vegamálastjóri, skipaútgerð ríkisins, skipaskoðun ríkisins, bifreiðaeftirlit ríkisins, áfengisverzlunin.

Tóbakseinkasalan byrjaði um það leyti, er þessi lækkun fór fram, og var kaup starfsmanna þar lækkað um 15% frá því, er það hafði áður verið hjá tóbaksverzlun Íslands h/f.

Hjá eftirfarandi stofnunum hefir 15% lækkunin komið til framkvæmda 1932 (sumstaðar þó aðeins að nokkru leyti): Ríkisútvarpinu (að nokkru leyti, ríkisbókhaldinu, veðurstofunni, efnarannsóknarstofu ríkisins, skattstofunni, viðtækjaverzluninni, vitamálaskrifstofunni (hjá einum manni), ríkisféhirði. Þær skýrslur, sem við höfum fengið í hendur, bera það ekki með sér, að launalækkun hafi átt sér stað hjá þeim stofnunum, sem taldar eru í fyrri flokknum hér að framan. Í svörum frá þeim til ríkisstj. eru tilgreindar ýmsar ástæður fyrir því að launalækkunin geti ekki farið fram. Sumstaðar er því borið við, að sérstakir samningar hafi verið gerðir um launagreiðslur til einstakra manna og þess vegna þyki ekki tiltækilegt að lækka þau.

Þá er það einn mikilsverður liður í þessu máli, að athugaðir verði möguleikarnir fyrir því að fækka ríkisstofnunum, og þó sérstaklega, að fækkað yrði starfsmönnum við þær stofnanir. Háværar raddir heyrðust um þessi atriði í fjvn., en n. taldi sig ekki hafa aðstöðu til þess að kveða upp úrskurði um það að lítt rannsökuðu máli. Hinsvegar vill hún benda stj. á að láta rannsaka þetta gaumgæfilega, og virðist sjálfsagt, að á þann hátt verði dregið úr útgjöldum ríkissjóðs eftir föngum.

Niðurstaðan af öllum þessum athugunum n. er sú, sem fram kemur í þál.till., er n. ber fram. Og ég vil skjóta því til hv. flm. að annari þál.till. hér í d. um svipað efni, að ég vona, að tilgangi þeirra sé fullnægt með þessari till., sem við flytjum. Það er síður en svo, að fjvn. hafi viljað ganga á snið við þáltill. þeirra að efni til, en till. okkar er víðtækari. Fjvn. lítur svo á, að það sé ekki lengur hægt að skjóta því á frest að taka launagreiðslur ríkisins til embættismanna og starfsmanna þess opinbera til athugunar og koma þar á meira samræmi en verið hefir. Ennfremur telur fjvn. sjálfsagt, að þegar ákvarðanir verði teknar um launakjör starfsmanna ríkisins, þá verði að ákveða þau með hliðsjón af greiðslumöguleikum ríkisins og því, hvað atvinnuvegirnir í landinu geta staðið undir miklum starfrækslukostnaði við þjóðarbúið. Því að þangað verður vitanlega að sækja það fé, sem nota þarf til ríkisrekstrarins. Og má þá vitanlega ekki ganga nær atvinnurekstri einstakra borgara í landinu en svo, að þeir liði ekki hnekki við það, en geti fært út kvíarnar fyrir hann í landinu. Þegar svo langt er gengið, að þetta fer að verða til þess að draga úr möguleikum atvinnuvega landsmanna, þá er ríkisvaldið komið út fyrir þau takmörk, sem því er veitt, því þá virðist það vera farið að starfa gagnstætt því, sem til er ætlazt í hverju lýðfrjálsu landi.

N. leit svo á, eins og ég sagði áðan, að þannig væri ástatt um þessar launagreiðslur, að það mætti ekki dragast lengur en orðið er að taka þetta til athugunar. N. gerir því ráð fyrir, að þetta mál verði rannsakað og athugað fyrir næsta þing og stj. leggi þá fyrir þingið frv. um nýja launalöggjöf. En hitt er vitanlega sjálfsagt, að stj. dragi úr embættum og færi til samræmis á þessu ári, eftir því sem hún hefir á valdi sínu.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta mál og ég vænti þess, að till. fjvn. fái góðar undirtektir í d. og hjá hæstv. ríkisstj.