06.03.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í D-deild Alþingistíðinda. (2356)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Frá því þessi þáltill. kom fram hafa orðið nokkrar breyt. á þessu máli, sem gera það að verkum, að við flm. munum óska eftir sérstakri afgr. á till., og kem ég að því síðar, í hverju þessi sérstaka afgreiðsla er fólgin. Ég get þó ekki gengið framhjá því að fara nokkrum orðum um málið að því er snertir kaupin á Hlaðgerðarkoti og vörzlu þessa minningarsjóðs, sem sýnir einmitt átakanlega, hvernig slíkum sjóðum er stjórnað í stjórnarráðinu. Ég mun þó tala stuttlega um málið, af því að þm. er það nú þegar allkunnugt orðið af skrifum Alþýðublaðsins sérstaklega og annara blaða.

Samkv. skipulagsskrá 14. okt. 1914, staðfestri 15. okt. s. á., útgefinni á venjulegan hátt af ráðh., er lagt til hliðar allmikið fé, er myndi sjóð, er nefnist „Minningarsjóður hjónanna Jóhanns Jóhannessonar og Sigurbjargar Guðnadóttur“. Í hinum sjö gr. skipulagsskrárinnar er svo nánar tiltekið um fyrirkomulag sjóðsins að öllu leyti og tilgang hans. Segir fyrst, að stofnandi sjóðsins hafi afhent Eggert Claessen hrm. til innheimtu fjármuni þá, er mynda stofnfé sjóðsins, eftir því sem þar að lútandi skuldabréf og samningar kveða á, og jafnframt að koma þessum fjármunum í peninga, er hann jafnóðum afhendi stjórnarráðinu til að leggja í sjóðinn. Tilgangur sjóðsins er samkv. 3. gr. „að veita fátækum ellihrumum mönnum og konum, eldri en 65 ára, sem ekki hafa notið sveitarstyrks frá fullnuðu 30. aldursári til fullnaðs 55. aldursárs, íslenzkum og búsettum hér á landi, lífsuppeldi til dauðadags, sjá þeim fyrir öllum nauðsynjum og loks kosta sæmilega útför þeirra“. Í 4. gr. skipulagsskrárinnar er skýrt frá því, að þessum tilgangi sjóðsins skuli fullnægja með því að kaupa jörð í sveit „á heilnæmum stað, þar sem fagurt er og vistlegt til dvalar fyrir gamalmennin“. „Á jörð þessari skal á kostnað sjóðsins byggja hús, vel traust og úr því efni, sem telst endingarbezt. Skal húsið vera reisulegt, en skrautlaust. Yfir aðaldyrum hússins skal gera nafnspjald og á það skal letrað með gylltum stöfum nafn stofnunarinnar, sem skal verá: „Æfikvöld“, en yfir nafninu og kringum það skulu vera geislar lækkandi sólar. Útboð skal gera á byggingu hússins. Jafnframt skal sérstaklega heita íslenzkum listamönnum verðlaunum fyrir beztan uppdrátt af nafnspjaldinu, að dómi stjórnarráðsins. Í húsi þessu skulu eiga heimili gamalmenni þau, sem sjóðurinn veitir lífsuppeldi, og auk þess ráðsmaður stofnunarinnar með fjölskyldu sinni og þjónustufólki stofnunarinnar“. Í 5. gr. skipulagsskrárinnar segir svo, að sjóðurinn standi undir stjórn stjórnarráðs Íslands. „Það ræður kaupum á jörð handa sjóðnum skv. 4. gr., og áhöfn á hana, og sér um bygging húss þess, sem þar ræðir um. Ræður stjórnarráðið öllu fyrirkomulagi hússins og húsbúnaðar, en hafa skal aðallega fyrir augum, að gamalmenni þau, sem þar eiga að búa, fái hollan og hæfilega rúmgóðan bústað. Skal húsið vera fullbyggt og stofnunin taka til starfa á hundrað ára fæðingardegi hinnar látnu konu stofnandans, 13. apríl 1973. Skal vígja stofnunina þann dag. — Þangað til þörf verður á samkvæmt því, sem hér er sagt, að fara að nota fé sjóðsins, skal hann vera á vöxtum með sömu trygging, sem lög skipa fyrir á hverjum tíma sem er um ómyndugra fé, en að öðru leyti ræður stjórnarráð Íslands ávöxtun sjóðsins“.

Í síðari málsgr. 5. gr. segir svo: „Til gamalmennastofnunar þeirrar, sem reist verður fyrir fé sjóðsins, má eigi kosta meiru en svo, að öruggt sé að dómi stjórnarráðs Íslands, að vextir af þeim höfuðstól, sem afgangs verður kostnaði við kaup jarðarinnar með áhöfn, bygging hússins og útvegun húsbúnaðar, nægi til þess að standast ríflega allan kostnað við rekstur stofnunarinnar, en fé sjóðsins skal einnig eftir að stofnunin tekur til starfa ávaxta sem ómyndugra fé.

Í 6. gr. skipulagsskrárinnar kveður svo nánar á um rekstur elliheimilisins, eftir að það hefir tekið til starfa, um endurskoðendur reikninga þess o. s. frv.

Það er þannig augsýnilegt af ákvæðum skipulagsskrárinnar, að ætlazt er til, að ríkisstj. láti byggja hús sérstaklega fyrir elliheimilið, að undangenginni rannsókn á því, hvernig slíku húsi verður bezt og haganlegast fyrir komið í öllu tilliti, og ennfremur, að ætlazt er til, að þetta verði ekki gert fyrr né síðar en svo, að allt rétt aðeins sé til, þegar stofnunin á að taka til starfa. Nú verður það hinsvegar í þessu máli, að þeir taka sig saman hæstv. dómsmrh., sem nú er, og skrifstofustjórinn í atvinnumálaráðuneytinu, Vigfús Einarsson, sem er annar stjórnandi sjóðsins auk dómsmrh., og í raun og veru aðalstjórnandinn, og fara aðra leið í þessu máli en skipulagsskráin þannig skipar fyrir, að fara skuli, og kaupa fyrir sjóðsins fé jörðina Reykjahlíð í Mosfellssveit, áður og oftast nefnt Hlaðgerðarkot, af eiganda hennar, Vigfúsi Einarssyni, aðalstjórnanda sjóðsins, eins og ég áður sagði. Er það augsýnilegt, að jafnvel þótt þessi jörð væri hin heppilegasta fyrir elliheimili, væri þó þessi ráðstöfun engu að síður óverjandi. Skipulagsskráin er til þess gerð, að eftir henni sé farið, og henni verður ekki breytt, ef hægt er að framkvæma hana. Féð er gefið með ákveðnum skilyrðum, og það er trúnaðarbrot að brjóta þessi skilyrði gefandans. Þegar aðalstjórnandi sjóðsins selur sjóðnum sína eigin eign, sem hann þarf og vill losna við, er þar um að ræða óverjandi misbeitingu á embættislegri aðstöðu, til þess að koma þessari jörð ólöglega upp á sjóðinn. Eins og flestum er kunnugt, þá er jörðin auk þess alls ekki því verði kaupandi, er sjóðurinn var látinn kaupa hana, fyrir 90 þús. kr., því að samkv. fasteignamati var jörðin aðeins metin á 31 þús. kr. Vigfús Einarsson hefir að vísu síðan komið með nýtt mat á jörðinni, og kann það satt að vera, að umbætur hans ýmsar á jörðinni hafi kostað hann þá upphæð, en hitt er þó jafnvíst, að enginn kaupir jörðina þessu verði eða nálægt því fyrir peninga út í hönd. Þessi staður er og mjög óheppilegur fyrir gamalmennahæli. Bærinn stendur undir fjalli, sem skyggir á sólina úr suðri og vestri, og er sólargangur þarna mjög stuttur af þeim ástæðum; húsið, sem Vigfús Einarsson hefir látið reisa á jörðinni, var einskorðað við lúksuskröfur þessa efnaða manns og er þess vegna að öllu leyti mjög illa fallið til þess að því verði breytt í elliheimili. Um heita vatnið þarna er það að segja, að Vigfús Einarsson fékk greiddar 2000 kr. úr kirkjujarðasjóði og 500 kr. úr bæjarsjóði Reykjavíkur til þess að láta bora eftir vatninu. Var gert ráð fyrir, að ríkið mundi geta fengið heitt vatn til Mosfells, og Reykjavíkurbær áskildi sér forkaupsrétt að vatninu, ef til slíks kæmi, en vatnið reyndist minna en búizt var við, og hefir Vigfús Einarsson setið einn að vatninu, án þess þó að hann hafi endurgreitt ríkinu eða Reykjavíkurbæ þessar fjárhæðir. Vil ég vekja athygli á því í þessu sambandi, að ríkið á sjálft jarðir með hverahita til þess að nota í þessu skyni, sem allra hluta vegna lá betur við að nota, enda hefir hér eingöngu legið á bak við að þóknast skrifstofustjóranum, sem þurfti að afsetja jörðina á kostnað sjóðsins. Sú viðbára hæstv. dómsmrh., að tilgangurinn hefði verið að hafa þarna fávitahæli, er fjarstæða ein. Það mál var ekki komið á þann rekspöl á síðasta þingi, að hægt væri að gera neinar ráðstafanir í því, því að það eina, sem þingið gerði í málinu, var að skora á stj. að undirbúa málið, rannsaka, hve margir fávitar væru á landinu, hvernig bezt yrði að þeim búið o. s. frv. Slíkan nauðsynlegan undirbúning hefir hæstv. dómsmrh. þó látið fyrir farast með öllu. A. m. k. hefir hann ekki leitað sér neinna leiðbeininga hjá læknastétt landsins í þessu efni, en af eigin rammleik hefir hæstv. dómsmrh. ekki tök á að rannsaka þetta mál, ólæknislærður maður og ófróður um öll slík mál. Loks er sú afsökun hæstv. dómsmrh., að þetta hafi aðeins verið tilboð, sem háð var samþykki beggja fjvn. Alþingis. Fæ ég ekki séð, að þetta geti skipt neinu máli. Ég hefi að vísu ekki séð þann samning, sem þeir gerðu um þessi kaup sín á milli hæstv. dómsmrh. og skrifstofustjórinn, 2. nóv. síðastl., en það segir sig sjálft, að fjvn. hafa ekki neina heimild til að staðfesta slíkan samning fremur en hæstv. ráðh. að gera hann að tilskildu samþykki þeirra, enda kom það og á daginn, þegar málið var borið undir fjvn., að þær vildu engin afskipti af málinu hafa.

Þótt það snerti ekki beint hæstv. dómsmrh., sem nú er, vil ég þó í sambandi við þetta mál fara nokkrum orðum um vörzlu þessa sjóðs yfirleitt, af því að það sýnir átakanlega, hvernig stj. hafa látið sér sæma að fara með opinbera sjóði. Er þar þá fyrst að nefna, að Vigfús Einarsson hafði áður en til þessara kaupa á Hlaðgerðarkoti kom fengið 30 þús. kr. lán úr sjóðnum hjá hv. þm. Str., er var ráðh. 1930 og 1931. Var það lán veitt til 40 ára og afborgunarlaust í 20 ár. 1926 hafði Vigfús Einarsson áður fengið 20 þús. kr. lán úr sjóðnum, með 51/2% vöxtum, gegn fyrsta veðrétti í Fjólugötu 5. Aðalstjórnandi sjóðsins hefir þannig samtals fengið 50 þús. kr. lán úr sjóðnum, og þetta er ekkert bráðabirgðalán, því að eins og áður segir hefir hann fengið 30 þús. kr. til 40 ára, og meira að segja afborgunarlaust 20 fyrstu árin. Munu slík vildarkjör sem þessi mjög fátíð hér á landi. Þetta er og gert á sama tíma og ríkissjóður og bæjarfélög eru í hinni mestu fjárþröng, en hið opinbera hefir aðeins fengið eitt lán úr sjóðnum, til húsabóta á Hallormsstað 1928, til þriggja ára, sem enn er ógreitt, 6000 kr., auk lána til Reykjavíkur og Vestmannaeyja, 32500 kr., alls 38500 kr. Er auðvitað skyldugt að ávaxta opinbera sjóði á sem allra tryggastan hátt, sem er með ríkisábyrgð á öllum þeim lánum, sem úr þeim eru veitt, en það sýnir sig þó með þennan sjóð, og ég ætla, að svo muni reynast um fleiri, ef þetta verður rannsakað, að hann hefir verið notaður til að styrkja með lánum kunningja og venzlafólk aðalstjórnanda sjóðsins og þeirra ríkisstj., sem setið hafa á hverjum tíma. Skal ég nú gefa hér yfirlit yfir þessi lán. 1919 fær Helgi Hjörvar 6700 kr. lán úr sjóðnum gegn fyrsta veðrétti í Suðurgötu 6. Vextir 51/2%. Er þess látið getið um þetta lán, að „það muni hafa verið vilji sjóðsstofnanda, að lánið var veitt“, en hvað er hæft í þessu, veit ég ekki. — 1925 fær Snæbjörn Jónsson bóksali 12 þús. kr. lán úr sjóðnum, gegn fyrsta veðrétti í Holtsgötu 7. Vextir 51/2%. — 1928 fær Þorsteinn Þorsteinsson hagstofustjóri 20 þús. kr. lán úr sjóðnum, gegn fyrsta veðrétti í Laufásveg 57. Vextir 6%, og svo er um öll þau lán, sem hér eftir verða talin upp. — 1928 fær Guðmundur Finnbogason 10 þús. kr. lán úr sjóðnum, gegn öðrum veðrétti í Rauðará. — 1929 fær frú Anna Ásmundsdóttir 5000 kr. lán úr sjóðnum, gegn fyrsta veðrétti í Nönnugötu 16. — 1930 fær Einar Hjartarson bóndi í Saurbæ í Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu, nátengdur Vigfúsi Einarssyni, 3600 kr. lán úr sjóðnum, gegn öðrum veðrétti í jörðinni. — 1930 og 1932 fær Stefán Þorláksson bílstjóri, sá hinn sami og nú hefir keypt Hlaðgerðarkot af Sigfúsi Einarssyni, 15 þús. kr. lán úr sjóðnum, gegn fyrsta veðrétti í húsinu Laufásvegi 2. Er lánið til 10 ára, fyrsta afborgun 1932. — Af þessum lánum öllum hefir ekkert verið borgað, en að vísu vextirnir af þeim flestum.

M. ö. o. er það í kringum 120 þús. kr., sem hefir verið úthlutað til vina og venzlafólks þeirra, sem hafa stjórnað sjóðnum á hverjum tíma, og ég hygg, að ef meðferð fleiri sjóða væri rannsökuð, þá mundi þar koma í ljós svipað háttalag, þó að varla hafi þar verið gengið eins langt og núv. dómsmrh. og Vigfús Einarsson ætluðu að gera hér, þar sem þeir ætluðu bókstaflega að selja eign fyrir 90 þús. kr. úr sjóðnum og brjóta þar með skipulagsskrá sjóðsins og allan tilgang.

Nú hefir þessum kaupum verið riftað, svo að það kemur ekki til þess fyrir Alþingi að gera það, sem annars hefði verið sjálfsagt. En þá er eftir hin hliðin, sem snýr að þeim opinberu starfsmönnum, sem að þessu máli standa, sem sé dómsmrh. og Vigfúsi Einarssyni skrifstofustjóra, og hvernig þeir hafa farið að ráði sínu. Við jafnaðarmenn leyfum okkur því að bera hér fram svo hljóðandi rökst. dagskrá:

Þar sem kaupunum á Reykjahlíð fyrir Minningarsjóð Jóh. Jóhannessonar og Sigurbjargar Guðnadóttur hefir nú verið rift og þáltill. hefir að því leyti verið fullnægt, en hinsvegar hefir framkoma dómsmrh. og skrifstofustjórans í atvinnumálaráðuneytinu í því máli verið óverjandi gagnvart hinu opinbera, ályktar Alþingi að lýsa yfir vantrausti á dómsmrh. og því áliti, að maður, sem hefir komið eins fram og skrifstofustjórinn í þessu máli, eigi ekki að gegna svo mikilsvarðandi opinberri trúnaðarstöðu, og tekur fyrir næsta mál á. dagskrá.