10.03.1933
Sameinað þing: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (2365)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég ætla að byrja með því að rifja upp, hvað gert hefir verið í þessu máli. Á síðasta þingi var stj. falið að undirbúa stofnun fávitahælis. Sá undirbúningur var framkvæmdur á þann hátt, að stj. tryggði það, að þingið gæti, ef það vildi, fengið fasteign, sem hægt væri að reka fávitahælið á. Þetta er þá það, sem hefir gerzt, og ekkert annað. Engu var slegið föstu, heldur átti vilji þingsins að ráða um, hvort þetta væri gert. Út af þessu er svo vantraustið komið. Það er komið af því, að stj. gerði það, sem þingið hafði lagt fyrir hana að gera, án þess þó að fastbinda nokkurn hlut.

Ég verð nú að segja, að þau fara nú að tíðkast hin breiðu spjótin, ef það á að sæta vítum, að stj. framkvæmi vilja þingsins. Og næsta undarleg verður hún, breytingartillaga hv. 2. þm. Rang., þegar hún er athuguð í ljósi þess, sem hefir gerzt, því hún segir þá blátt áfram, að það megi ekki koma fyrir oftar, að stj. fari að vilja þingsins. Ég held ekki, að í stuttu máli sé hægt að setja skýrar eða nánar fram, hvað fram hefir farið í þessu máli, en ég nú hefi gert.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum til hv. 5. landsk., sem ég satt að segja beið eftir að „kæmi upp“ í þessu máli. Í ýmsum leikritum er eitt hlutverkið ætlað fífli. Og í þessu máli er það hv. 5. landsk., sem leikur fíflið. Afskipti hv. 5. landsk. af þessu máli byrja á því, að hann gefur Vigfúsi Einarssyni skrifstofustjóra skriflega yfirlýsingu um þessa eign. Skal ég með leyfi hæstv. forseta lesa hana upp. Hún er svona:

„Ég vil að gefnu tilefni taka það fram, að ég hefi skoðað jarðeign Vigfúsar Einarssonar skrifstofustjóra, Reykjahlíð í Mosfellssveit, og virðist mér jörðin hin prýðilegasta, jarðhitinn mikill og góður, og byggingar, sem eru miklar, vel og traustlega gerðar, og tel ég, að jörðin mundi vel fallin til einhverra opinberra nota, svo sem fyrir gamalmennahæli eða eitthvað slíkt hæli, ef til kæmi.

Reykjavík, 21. júlí 1932. Jónas Jónsson frá Hriflu.“

Ég endurtek niðurlagsorðin, því ég er ekki viss um, að menn hafi heyrt þau fyrir hlátri: „... að jörðin mundi vel fallin til einhverra opinberra nota, svo sem fyrir gamalmennahæli eða eitthvað slíkt hæli, ef til kæmi.“

Þessa yfirlýsingu gefur hann nú 21. júlí í sumar. En svo þegar hann fréttir, að skrifstofustjórinn muni máske geta selt þessa eign sína, þá skrifar hann honum bréf og skipar honum, að viðlögðum æru- og embættismissi, að skila yfirlýsingunni aftur. Þetta er nú drengskapur hv. 5. landsk. Fyrst gefur hann vottorð um, að eignin sé á allan hátt hin prýðilegasta, byggingar ágætar, jarðhiti mikill og góður og að hún sé prýðilega fallin til opinberrar notkunar, t. d. sem gamalmennahæli. — Þegar hann svo heyrir, að búið sé að festa kaup á jörðinni í svipuðum tilgangi, þá heimtar hann vottorðið aftur. Er nú þetta drengskapur? — Ég get látið öðrum mönnum eftir að dæma um það. Eitt er víst. Þessi framkoma verður hv. 5. landsk. aldrei til sóma. Nú reynir hann að hanga í því, að jörðin hefði verið of dýrt seld á 90 þús. kr. Hana hefði ekki átt að kaupa fyrir meira en fasteignamat. En því ekki fyrir t. d. 10000 kr.? Svo mikil er löngun hans nú til að níða niður þessa eign, er hann þó var nýbúinn að gefa hin glæsilegustu meðmæli.

Hv. 5. landsk. hefir sagt, að þetta væri þrefalt fasteignamat á jörðinni. En þess er að gæta, að stórmikið hefir verið gert á þessari jörð eftir að fasteignamat fór fram, svo að ekki er við það að miða nokkurn skapaðan hlut. En nú skulum við samt halda okkur við þetta fasteignamat. Ætli það sé einsdæmi, að keypt sé jörð fyrir þrefalt fasteignamat? Við skulum athuga, hvað hv. 5. landsk. hefir gert sjálfur. Hann keypti kot hér austur í Ölfusi fyrir 100 þús. kr. Hvað voru þau metin að fasteignamati? Ekki 1/3 af þessari upphæð. Og þó var það endanlegt fasteignamat, án viðauka síðar.

Annað dæmi vil ég nefna úr sögu hv. 5. landsk., kaupin á hálfu Laugarvatni. Það var líka keypt fyrir meira en þrefalt fasteignamat. Svo kemur hv. 5. landsk. á eftir og metur þessa hálflendu á 300 þús. króna. Ég veit ekki, hvað hann vildi meta hitann í Reykjahlíð á móti þessu, en undir 100 þús. gæti aldrei komið til mála. Svo að hvernig sem litið er á þetta frá hlið hv. 5. landsk., þá situr hann jafnilla í því.

Hv. 5. landsk. hefir nú sýnt kunningja sínum það drenglyndi, að eftir að hafa gefið honum vottorðið, sem ég las upp, þá heimtaði hann, að hann skilaði því aftur, þegar hann þurfti á því að halda. Vottorð þetta gæti gefið bezta tilefni til að álykta sem svo, að hv. 5. landsk. hafi meðan hann var ráðh. verið búinn beinlínis að lofa skrifstofustjóra því að kaupa jörðina fyrir gamalmennahæli. Fyrir slíkri ályktun þarf ekki að seilast nándar nærri eins langt eftir röksemdum eins og hv. 5. landsk. gerir í þessu máli. Það var auðséð á því, sem hann sagði, að hann hafði talað mikið við skrifstofustjóra um málið. Þeir skoðuðu eignina saman og ræddu ákaflega greinilega um þetta allt saman, og ég tel mig hafa talsverðar líkur til að ímynda mér, að þeir hafi verið komnir langt á veg að gera kaupin. Ég vissi það ekki fyrr en ég sá þetta bréf frá hv. 5. landsk., hvernig þessu máli var komið milli þeirra. En þá fór ég að ganga á skrifstofustjóra og fann það, að það var heilmikið, sem þeim hafði farið á milli.

Hv. 5. landsk. var að tala um það, að jörðin væri „prýðileg“, „ágæt“ og „skemmtilegt óhóf“ fyrir einhvern ríkan mann að vera þarna. En hvað segir vottorðið um þetta? „Ég tel það vera vel fallið til einhverra opinberra nota, svo sem fyrir gamalmennahæli“. Er þetta falsvottorð frá hv. 5. landsk., eða hvað? Hv. 5. landsk. segir, að það vildi enginn líta við þessari eign. En hvernig fór með þessa eign? Það er búið að selja hana og fyrir 90 þús. kr., móti fasteign hér í bænum, sem er látin með fasteignamatsverði. Nú er enginn maður hér í bænum, sem ég þekki, sem vill láta hús sitt með fasteignamatsverði. Þar af leiðir, að jörðin er í raun réttri keypt hærra verði en 90 þús. kr. Og þó stendur hv. 5. landsk. hér upp og segir, að enginn vilji líta við henni. Þessi hv. þm. er ekki mikið að kæra sig um það, hvort það er rétt eða rangt, sem hann fer með.

Eitt var enn, sem hv. þm. var að klifa á og mjög er líkt hans aðferð yfirleitt, nefnilega allt hans skraf um þennan seinni tíma tilbúning, að málið hefði átt að bera undir fjvn. þingsins. Ég skal, til að slíta þrætu um þetta, lesa úr 7. gr. samningsins.

„Kaupsamning þennan skal bera undir fjárveitinganefndir beggja deilda Alþingis, og öðlast hann fyrst gildi, er þær hafa mælt með því, að kaupin fari fram samkvæmt honum“.

Það er náttúrlega hægt að segja eins og hv. 5. landsk. gerir, að þetta hafi verið falsað á eftir. En það er þá bezt fyrir hann að fara upp í stjórnarráð og vita, hvort hann finnur ekki frumritið af þessu. Ég gef honum hér með leyfi til að sjá það mín vegna, og ég þykist vita, að skrifstofustjóri lofi honum að sjá það. En svo vil ég ekki hafa þessar dylgjur hans um það, að hér sé fals á ferð. Ég vísa því til baka og tel það dæmalausa ósvífni af þessum hv. þm. að leyfa sér að gefa slíkt í skyn.

Hann kvað svo að orði um hina rökstuddu dagskrá viðvíkjandi fávitahælinu í fyrra, að hún hafi hálffallið. Nú hefi ég þingtíðindin fyrir framan mig og sé, að hún var samþ. með 11:2 atkv.; ég hygg, að annar þeirra væri flm. sjálfur, því að hann vildi fá till. samþ. Ég get um þessa atkvgr. til að sýna, hvernig hv. 5. landsk. fer með sannleikann. Þá hélt hann hér langan fyrirlestur um það, hvað gerzt hafi í fjvn. út af þessu máli. Ég skal náttúrlega ekki segja, frá hverjum hann hafði sínar skýrslur, en réttar voru þær ekki. Í fjvn. var ég þegar þetta mál kom fyrir, en ekki hv. 5. landsk. Ég las upp þetta bréf, sem hann nefndi, og n. gerði þá ályktun, sem ég bað hana um, og þar með var málið búið. Annars getur n. svarað sjálf, ef henni þykir þörf, þeim spurningum, sem mér skildist hv. 5. landsk. rétta að henni fyrir að hafa skipt sér af þessu máli. En ég sé ekki, að hv. 5. landsk. sé fær um að vera siðameistari fjvn. Nd.

Ég hirði lítið um ummæli hv. 5. landsk. um Oddfellowa og barnahæli þeirra. En ef segja á rétt frá, þá gerðist nú það, að sjóðnum átti að verja til að byggja barnahæli nálægt Reykjavík, hæli, sem á að vera sumardvalarstaður barna og einnig fyrir skóla á vetrum. En Thorkillisjóðurinn er myndaður til þess að útvega fátækum börnum úr Kjalnesþingi hinu forna gott uppeldi. Svo kemur hv. 5. landsk. hér og segir, að það sé brot á skipulagsskránni að fara svona með sjóðinn. Ég er hræddur um, að ef tekið verður að ræða lánveitingar úr þessum sjóði, þá geti skeð, að komi í ljós, að þær séu ekki allar betur í anda sjóðsins en þessi ráðstöfun. Og yfir höfuð að tala er ég ekki hræddur við samanburð á ráðstöfunum mínum á opinberum sjóðum og ráðstöfunum hv. 5. landsk. Það kemur kannske betur fram síðar, en það skal líka koma fram. Ég vænti, að hann sé sjálfur saklaus af því, sem hann bar skrifstofustjóra í atvmrn. á brýn, að hann hafi ekki hugsað um sína venzlamenn í lánveitingum. Vill hann neita því, að hann hafi veitt einhverjum sínum skyldmennum lán úr opinberum sjóðum? Það er bezt fyrir hann að kasta ekki þungum steini að skrifstofustjóranum; hann hefir ekkert saknæmt aðhafzt í þessu máli, — og ég veit heldur ekki til í öðru. Hann er einstakur sæmdarmaður, og er hart, að hann skuli vera dreginn inn í slíkar umr. á þingi sem þessar, þar sem hann er algerlega varnarlaus. Það hefir verið talið hingað til að vera níðingsverk að taka mann og skamma blóðugum skömmum á þeim vettvangi, þar sem hann hefir ekki tækifæri til að verja sig sjálfur.

Mér liggur í mjög léttu rúmi, hvað hv. 5. landsk. álítur um meðferð dómsmála og landhelgisgæzlu í mínum höndum. Ég hefi aldrei ætlazt til, að hann væri ánægður við mig. Það er allt annað, sem ég legg áherzlu á en hann í þeim efnum. Ég legg áherzlu á að sýna öllum sanngirni og réttlæti, en það gerði hv. 5. landsk. ekki meðan hann var í þessu embætti. Og um landhelgisgæzluna er það að segja, að það mun seint henda mig að taka varðskip hins opinbera til að flytja sjálfan mig til og frá í stjórnmálaleiðangrum í þágu sjálfs mín. Þetta hefir þessi hv. þm. gert, eins og allir vita, og eytt til þess stórfé.

Ég læt svo staðar numið hér að sinni, en skal svara hv. 5. landsk. fullum hálsi, þegar hann bunar úr sér næst.