10.03.1933
Sameinað þing: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (2372)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Í tilefni af ræðu hv. 1. landsk. og nokkrum ummælum hv. 2. þm. Reykv. vil ég minna á það, sem gerðist í lok síðasta þings, þegar hv. jafnaðarmenn báru fram vantraustsyfirlýsingu á ríkisstj. Kom þá í ljós, að stj. sat ýmist með stuðningi eða hlutleysi þm. Framsfl. og Sjálfstfl. að baki. Ég hygg, að svo muni vera enn, og því er ekki hægt að gefa neina eina yfirlýsingu um afstöðu allra þm. þessara flokka til stj. Þetta er ekkert nýtt, að stj. byggir setu sína ekki einungis á fullum stuðningi meiri hl. þings, heldur bæði á stuðningi og hlutleysi. Ég þarf í því sambandi ekki annað en minna á, hvernig afstaðan var áður en núv. stj. tók við völdum. Hv. jafnaðarmenn neituðu ávallt, a. m. k. hin síðari ár, að veita framsóknarstj. fyrrv. stuðning, og þar kom, að þeir neituðu einnig um hlutleysi. En það mun yfirleitt venja, að meðan stj. sjá ekki sjálfar ástæðu til að segja af sér, þá sitja þær þangað til þingið samþ. beina vantraustsyfirlýsingu. Hver sú afgreiðsla á vantrauststill., sem miðar að því að komast hjá að lýsa yfir vantrausti, hún sýnir þingvilja fyrir því, að stj. sitji áfram, eða a. m. k. segi ekki af sér að svo stöddu. Sama gildir að sjálfsögðu þegar um vantraust á einstaka ráðh. er að ræða.