13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í D-deild Alþingistíðinda. (2382)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Það er óþarfi fyrir hæstv. forseta að vera með þennan formála. Hann veit vel, að það er venja, að menn fái tíma til fleiri en einnar aths. Annars ætlaði ég að svara nokkru í ræðu þm. Str. Eftir ræðu þm. að dæma, þá mun samstarfið milli Framsóknar og Íhalds nú eiga að fara að verða um ærið margt, ef það á líka að hafa samvinnu um lélegt eftirlit með opinberum sjóðum. En fyrir þá, sem hafa kynnt sér þessi mál, er afstaða þm. Str. skiljanleg. Hann hefir sjálfur allra manna mest vaðið í þennan sjóð, þótt það væri ekki á sama hátt og dómsmrh., sem ætlaði að þverbrjóta skipulagsskrá sjóðsins. Tryggvi Þórhallsson veitti 40 ára lán til Vigfúsar Einarssonar úr sjóðnum og 10 ára lán til Stefáns Þorlákssonar o. fl. o. fl. Það er því skiljanlegt, að þm. vilji hlífa þeim, sem er honum samsekur, og gjarnan losna við ámæli. Það má þó e. t. v. virða fyrrv. atvmrh. þetta til vorkunnar, þar sem hann var að launa áður sýnda greiðvikni, því að það var Vigfús Einarsson, sem gaf honum hugmyndina að þingrofinu.