13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (2392)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Dómsmrh. sagði, að ég hefði fengið að sjá samninginn rétt eftir að ég hefði beðið um það. En þetta er ekki rétt, því að 7. marz, þegar ég átti að fá að sjá hann, fæ ég bréf frá Vigfúsi Einarssyni, þar sem hann segir, að ég muni ekki fá að sjá samninginn. Hann sé nú kominn í sína eign, dómsmrh. hafi gefið sér hann. En þegar ég tveim dögum síðar fór þess á leit við dómsmrh. að fá að sjá samninginn, var mér sýnt þetta óstaðfesta eftirrit.

Dettur mér ekki í hug að halda, að þetta uppkast þarna uppi í stjórnarráðinu sýni samninginn eins og hann er í raun og veru.

Mér virðist dómsmrh. vera farinn að sækja í sig veðrið upp á síðkastið. Það er eins og honum finnist hann ekki hafa gert mikið af sér. Hann var að tala um það, hve góður ávöxtur sé af Fjalakettinum, sem er undir umsjá Eggerts Claessens. Ég staðhæfi nú, að hæstv. dómsmrh. muni ekki hafa haft eftirlit með þeim sjóði. Eftir skýrslum frá E. Claessen er ekki að sjá, að hann sé betur ávaxtaður en sjóður sá, sem hér er um að ræða. Held ég, að full þörf væri á því að rannsaka þann hluta sjóðsins, sem E. Claessen ávaxtar, og skora ég á hæstv. dómsmrh. að láta mér í té skýrslur um hann.

Þá ber hæstv. dómsmrh. saman 30 þús. kr. lán Vigfúsar Einarssonar úr sjóðnum með 6% vöxtum og 20 þús. kr. lán hans með 51/2% vöxtum. En eftir skýrslum Vigfúsar Einarssonar er þetta síðara lán uppsegjanlegt með 6 mánaða fyrirvara. Er því ekki hægt fyrir hæstv. dómsmrh. að verja þetta, og má hrekja það allt fyrir honum.

Flokksmenn hans hér í bænum óska einskis frekar en að hann verði gefinn Framsfl. eftir því sem ég veit af tali við þá. Vera má, að svo verði, og sjást þó ekki forlög hans ennþá.