05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (2502)

119. mál, stjórn varðskipanna

Hannes Jónsson:

Mér þætti nú farið verr, ef þessi þáltill. væri felld hér í þessari d. Í grg. till. er bent á það, að meðan þetta starf var undir skipaútgerð ríkisins, þá hafi hún, að mér skilst, tekið upp nokkuð nýja háttu um stjórn varðskipanna, sem leitt hafi til bóta. En mér er ekki vel kunnugt um það, hvort þetta muni virkilega vera svo, en ef það er rétt, þá er ekki vafi á því, að sú ráðabreytni, sem gerð var, að setja stjórn varðskipanna undir skipaútgerð ríkisins, hefir leitt til góðs. En hitt er annað mál, hvort ekki megi taka sér bendingar af framkvæmd skipaútgerðarinnar, þó skipin haldi áfram að heyra undir dómsmálaráðuneytið.

Ég vil því leggja til, af því að mér finnst það hafa við nokkur rök að styðjast, að þetta mál sé látið heyra undir stjórnarráðið, þar sem það verður að stjórna einu skipi til, sem ekki er hægt að vísa til skipaútgerðarinnar, að þessu máli verði vísað til ríkisstj. og hún taki það svo til athugunar, hvort ekki væri hægt að halda rekstri skipanna í svipuðu horfi eins og var hjá skipaútgerðinni.

Einnig vildi ég játa stj. athuga það, hvort ekki væri hægt að komast af með minni kostnað við þessa starfrækslu heldur en verið hefir, bæði meðan skipaútgerðin hafði hana á hendi og eins síðan.

Þetta er nú kannske aukaatriði, en hitt skiptir ef til vill mestu máli, að þar sem stj. á nú við svo mikla örðugleika að stríða um það að láta ríkisbúskapinn bera sig, þá hefir hún allan veg og vanda af því, hvað mikið er hægt að spara á þessari starfsemi ríkisins.

Ég fyrir mitt leyti er því mjög fylgjandi og vil gera allt í því efni til þess að skapa stj. sem bezta aðstöðu í þessu efni, þó að hvorki hún eða deildin hafi tekið undir þær till. mínar, sem ég hefi áður flutt í sambandi við fjárlagafrv. En þrátt fyrir það, þó að hún vildi ekki taka í þá útréttu hönd, þá vil ég ekki í þessu máli fremur en öðrum kippa að mér hendinni, og er það í samræmi við mína aðra afstöðu í fjármálum þjóðarinnar. Og ég legg til, að þetta mál verði hvorki samþ. eða fellt, því að það mætti líta svo á, ef till. væri felld, að það væri ábending um, að ekki bæri að taka neitt til eftirbreytni þær nýjungar, sem teknar voru upp meðan skipaútgerðin hafði þetta með höndum.

Stj. getur bezt séð það, hversu mikið er hægt að spara á þessari starfsemi án þess að það valdi tjóni á öðrum sviðum, á þann hátt, að eftirlitið verði ekki nægilegt.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frekar, en vænti þess, ef þessi till. mín um að vísa þessu til stj. verður samþ., að stj. taki það til rækilegrar yfirvegunar, á hvern hátt hún getur sem bezt unnið í sambandi við skipaútgerðina um starfrækslu þessara mála.