02.03.1933
Neðri deild: 14. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (3119)

52. mál, friðun fugla og eggja

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á þær breyt. á fuglafriðunarlögunum, að tveir fuglar, sem hafa verið alfriðaðir, verði nú ófriðaðir, annar að nokkru leyti, en hinn að öllu leyti.

Annar þessara fugla er uglan, sem samkv. þessu frv. á að vera algerlega ófriðuð. Uglan er sem kunnugt er ránfugl, sem lifir á öðrum dýrum. Hefir hún verið hinn mesti spellvirki, sérstaklega í varpi. Mér er kunnugt um, að þar, sem uglan hefir lagzt á varplönd, hafa þau eyðilagzt á 1-2 árum, en vegna þess að uglan hefir verið friðuð, hafa menn staðið uppi varnarlausir gagnvart þessum ófögnuði. Það virðist hart að leyfa í friðunarskyni þeim fuglum, sem samkv. eðli sínu eru mestu vargar í fuglahjörðinni, að vera óáreittum, en leyfa þeim að útrýma fleiri fuglum en menn þyrftu að gera, þó þeir dræpu allar þær uglur, sem hér eru. Auk þess er uglan sérstaklega ógeðslegur og óálitlegur fugl, svo að það er fjarri öllum sanni að friða hana, frá hvaða hlið sem á er litið. Mér finnst álíka mikil fjarstæða að fara að friða ugluna eins og að friða lús og fló og ýmsa þá sýkla, sem spilla að meira eða minna leyti lífi mannanna,

Um hinn fuglinn, álftina, er allt öðru máli að gegna. Hún er ekki ránfugl og hefir allt frá upphafi Íslands byggðar verið nytjafugl og einn af þeim fuglum, sem þjóðinni hefir til skamms tíma verið leyft að færa sér í nyt. Hún hefir lengst af verið ófriðuð, og a. m. k. ekki alfriðuð nema frá 1913. En þrátt fyrir það, að álftin hefir lengst af verið ófriðuð, hefir hún alltaf haldizt við á þessu landi, og eina verulega hættan sem henni hefir verið búin, hafa verið harðindavetur, en eins og gefur að skilja, er ekki hægt í fuglafriðunarlögum að bæta úr þeirri hættu, sem henni stafar af þeim.

Eftir að álftir voru alfriðaðar árið 1913 fjölgaði þeim mikið. En 1918 var mjög harður vetur, og þá féllu þær í þúsundatali á þeim stöðum, þar sem þær héldu sig aðallega. Mér finnst því ákaflega einkennilegt að meina mönnum að hafa þau not af þessum fuglum, sem hægt er, en friða þá alveg og láta þá svo verða hræfuglum að bráð í harðindaárum. Og svo er annað. Síðan álftunum fjölgaði svona mikið, hafa þær lagzt á lönd manna og gert þar óbætanlegan skaða. Þær hafa lagzt á engjar og heimalönd manna og gert þar svo mikinn usla, að stórar spildur hafa eyðilagzt. (LH: Eru álftir ekki mest uppi í óbyggðum á sumrum?). Þær eru í byggð á vorin, og þegar þær eru í óbyggðum, spilla þær víða afréttarlöndum bænda. Þess vegna er það alveg sjálfsagt, að álftirnar séu sömu lögum undirorpnar og aðrir samkynja fuglar, t. d. gæsir, og vegna arðsins álít ég rétt, að fólk fái að hagnýta sér þennan fugl eins og önnur gæði landsins.

Hinsvegar er það ákvæði í frv., að ef svo skyldi fara, að álftinni fækkaði mikið, sem yrði þá sérstaklega í ísaárum, þá sé heimilt að alfriða hana til að koma í veg fyrir gereyðingu. Ég álít sjálfsagt að haga lögunum þannig, að menn hafi leyfi til að hagnýta sér öll landsins gæði, og það er miklu meiri ánægja að því, að menn veiði fuglana hæfilega mikið, heldur en að stórar fuglahjarðir alist upp og falli svo unnvörpum, þegar harðir vetur koma og enginn mannleg hönd getur veitt þeim 1ið.

Það er sagt, að álftin syngi fegurst, þegar hún er frosin niður í ísinn, og það eru þau hljóð, sem ganga mér næst hjarta, þegar ég hefi séð álftirnar frosnar niður eða máttlausar í dauðateygjunum,~ svo að þær hafa ekki getað hreyft sig. Það er ekkert mannúðlegra að láta fuglana fara þannig heldur en hreinlega að skjóta þá og lofa mönnum þannig að njóta arðsins af þeim eins og öðrum fuglum loftsins og dýrum merkurinnar, sem

menn verða að neyðast til að lifa á í þessari ömurlegu tilveru.