29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (3215)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Ég var svo óheppinn að vera kvaddur frá umr.unum um þetta mál, sem fóru hér fram í gær. Og hæstv. forsrh. mun hafa flutt svarræðu sína til mín á meðan ég var fjarverandi, eftir því sem mér er tjáð. Vitanlega má ég algerlega kenna sjálfum mér um þetta, en ekki honum. Annars held ég, að þetta hafi ekki gert svo mikið til. Ég er svo oft búinn að hlusta á þau rök, sem flutt hafa verið með og móti í deilum um beina skatta hér á Alþingi, þing eftir þing, m. a. í viðureign þeirra hæstv. forsrh. og hv. þm. Seyðf., og sömuleiðis hefi ég sjálfur átt í brösum við hv. jafnaðarmenn um skattamálin. Ég býst ekki við því, að rökin, sem fram eru borin fyrir réttmæti tekju- og eignarskattsins, breytist neitt við það að flytjast úr munni hv. þm. Seyðf. í munn hæstv. forsrh., en ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. þyki það bara dálítið undarlegt.

Ég veit ekki, hvort ég á að vera að fara mikið út í almennar umr. um þetta mál eða um það, hvort leið jafnaðarmanna. sú, að taka mikið með beinum sköttum, sé sú heppilegasta. Þó verð ég að minnast á eitt atriði í ræðu hæstv. ráðh. Er á honum að skilja sem hann hafi viljað líkja afstöðu minni til skattanna við afstöðu þeirra, sem staðið hafa á móti breyt. á kjördæmaskipuninni. Er þetta dregið af því, sem ég sagði, að þegar þjóðfélagið væri búið að koma sér upp skattakerfi og finna aðferðir til þess að ná inn ríkistekjunum á sem beztan hátt, þá væri ekki óeðlilegt, ef auka þyrfti tekjurnar, að jafna því, sem á vantaði, niður á alla skattstofna ríkisins eftir sama hlutfalli. Af þessu er svo dregið það, að mér gangi það sama til og þeim, sem berjast gegn breytingum á kjördæmaskipuninni. Þetta er fjarri öllum sanni. Ég held ekki í þetta fyrir ást á þessu gamla fyrirkomulagi, en ég hygg, að rétt sé að byggja á því. En að öðru leyti er þessi samlíking líka rammskökk. Í rangláta kjördæmaskipun er haldið af stéttum, sem hafa fengið óeðlilega og óréttláta aðstöðu í þjóðfélaginu. En þegar verið er að láta líta svo út, sem skoðanir mínar í þessu máli séu ákveðnar af því, að ég sé fulltrúi þeirra, er setið geta hjá við skattagreiðslu, þá nær það engri átt. Einmitt Reykvíkingar borga óeðlilega háan tekjuskatt. Ég er hér sjálfum mér samkvæmur og vil í báðum málunum lagfæra misfellur, sem eiga sér stað. En með frv. því, sem fyrir liggur, er verið að auka á þær misfellur, sem eru.

Annars er róttækur munur á skoðunum þeirra manna, sem vilja taka ríkistekjur aðallega með tekjusköttum, og hinna, sem vilja ná þeim á annan hátt. Ég tel þá aðferð að afla ríkinu tekna með tekju- og eignarskatti skaðlega og hættulega, og þykist ég vita, að hún muni eiga meiri þátt í viðskiptakreppunni en margan grunar. Hefir það lamað allt framtak í veröldinni.

Það eru til tvær leiðir til þess að ná inn tekjum handa ríkinu. Önnur aðferðin

er sú, að taka peningana þar, sem þeir eru, eins og sagt er. Það er gripdeildaaðferð, eins og hjá víkingunum gömlu, en engin skattastefna. Mætti þá eins setja lög um það að taka innieignir manna í sparisjóðum, þótt ekki væri farið svo langt, að taka peningana hvar sem væri, t. d. þar, sem þeir lægju á borði, eða úr vösum manna. Hin aðferðin er sú, að ná nauðsynlegum ríkistekjum þannig, að það skaði sem minnst efnahagsstarfsemina í landinu. Til þess er tollaleiðin heppilegust, sú leið, að dreifa sköttunum á sem flesta liði, þannig að það hafi sem minnst áhrif á viðskiptalífið. Munurinn á þessum tveim aðferðum er sá, að önnur vill leggja skatt á tekjur manna, en hin á eyðslu manna. Tekjur eru enginn glæpur. Það á einmitt að eggja menn á það að hafa miklar tekjur. Þær gera engan skaða. Það getur reyndar komið fyrir, að þær séu svo illa fengnar, að einhver hafi beðið skaða af, en tekjur út af fyrir sig eru engum til tjóns, og ber ekki að refsa fyrir þær. Er meiri ástæða til þess að halda mönnum frá því að eyða gálauslega tekjum sínum, því að þeim á að verja í sjóði, er notaðir séu til þess að veita fjármagni til atvinnuveganna. Þessar tvær aðferðir eru nú til. Önnur segir: Þér verður straffað jafnt, hvort sem þú eyðir miklu eða engu. Hin segir: Ef þú eyðir miklu, þá heimtum við svo og svo mikið í ríkiskassann. Ef tveir menn hafa 20 þús. kr. tekjur hvor, þá er ekki út af fyrir sig ástæða til að gera mun á þeim, en ef annar ver þessum tekjum vel, en hinn illa, þá ber heldur ekki að gera þeim báðum jafnhátt undir höfði. Ef annar ver sínum tekjum í atvinnurekstur, er það skylda þjóðfélagsins að leggja ekki mikil gjöld á hann. Ef hinn notar sínar tekjur í eigin þarfir og eyðir miklu, þá ber líka að taka meira af honum. En með tekjuskattinum er tekið jafnmikið af báðum.

Sumir munu e. t. v. segja, að þetta komi ekki málinu við, en ég verð að segja, að hér er farið svo frekt í hækkun á tekju- og eignarskattinum, að spursmálið fer að snúast beinlínis um þessar tvær stefnur. Ef öll önnur sund væru lokuð, þá gæti verið um það að ræða að fara þessa leið, enda þótt margir séu henni mótfallnir. En svo er nú ekki komið ennþá. Verð ég

því að undrast það ástfóstur, sem hæstv. ráðh. hefir tekið við tekju- og eignarskattinn. Fyrir hann persónulega sem ráðh. er þetta erfiðasta leiðin. Getur engin leið orðið óvinsælli hjá þeim, sem borga eiga, en þessi. Engin leið er heldur tvísýnni um það, hvort tilgangurinn næst. Mætti ná inn þessari 1/2 milljón hljóðalaust utan þings og innan með öðrum aðferðum. Er hér því ekki um neina nauðsyn að ræða, heldur kemur hér fram beinn vilji til að beina skattamálunum inn á þessa braut.

Að endingu vil ég láta þá ósk í ljós, að hæstv. ráðh. haldi ekki fastar við þetta frv. en svo, að ef bent verður á aðrar leiðir til þess að leysa vandræði ríkissjóðs, þá gangi hann til samvinnu um þær. Ég efast reyndar ekki um, að hann muni njóta samvinnu jafnaðarmanna um þetta frv., þó að hv. þm. Seyðf. léti helzt í ljós, að þeir myndu snúast gegn því. Mér gengur ekki afbrýðisemi til, en þó get ég ekki stillt mig um að benda á það, að hæstv. ráðh. hefir með þessu frv. gefið í skyn, í hvora áttina hann hallast til samvinnu, og mun þá líklega gegna því sama í öðrum málum.