31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (3271)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Sveinn Ólafsson:

Ég mun leiða hjá mér eldhúsdagsumr. þær, sem hér hafa farið fram. En ég get ekki leitt hjá mér að svara hv. 1. landsk. fáeinum orðum. Hann lét hér í ljós þá skoðun, að tortryggileg væri sú yfirlýsing mín, að ég vildi ekki láta hæstv. dómsmrh. í té óbeina traustsyfirlýsingu með því að greiða atkv. á móti vantraustsyfirlýsingu hv. jafnaðarmanna, ef hún væri fram borin í nafni míns flokks alls. Út af þessu vil ég taka það fram, að bæði það, sem fram kemur í dagskrártill. sjálfri og formála mínum fyrir henni, er sagt fyrir minn eiginn reikning. Ég veit eigi, hvað margir af flokksbræðrum mínum munu greiða dagskrártill. minni atkv. og læt mig það litlu skipta.

Með þessum orðum hefi ég þá líka svarað hv. 2. þm. Reykv., sem einnig vék að því, hvort ég mundi hafa talað í nafni flokks míns, eða aðeins fyrir mig sjálfan.

Þessu til viðbótar vil ég svo aðeins segja það, út af umr. þeim, sem fram hafa hér farið, að mig furðar ekkert, þótt einstakir hv. þm. vilji gera grein fyrir atkv. sínu. Það hefir stundum verið gert, þó minna hafi verið tilefni heldur en nú.

Að því er snertir brtt. þá, sem fram er komin frá hv. 2. þm. Rang., get ég sagt honum það, að ég er ekkert mótfallinn þeirri hugsun, sem í orðum hennar felst út af fyrir sig. En ef þeim orðum er skotið inn í dagskrártill. mína á þann hátt, sem hv. þm. leggur til, þá virðist mér, að hún muni verða dálítið tvíræð eða jafnvel lítt skiljanleg. Umsögn dagskrártill. er komin þarna á undan, og yrði því innskot þetta torskilið og mætti jafnvel skilja það á annan veg en ætlazt er til.

Það er aðeins þetta, sem ég hefi á móti brtt. hv. 2. þm. Rang. Ef koma ætti þessu innskoti fyrir í dagskrártill. svo vel fari, þyrfti að orða hana alla um. En á því sé ég ekki neina þörf. Finnst mér rétt, að dagskrártill. komi til atkv. í þeim búningi, sem hún nú hefir. Hún segir blátt áfram og umbúðalaust, hvernig því máli er nú komið, sem upphaflega þáltill. ræðir um, og ákveður út frá því, að sleppa skuli frekari umr. um málið og að gera ályktun um það, þar sem það er ekki lengur til í sinni upprunalegu mynd eða frambærilegt.

Ég þykist svo ekki þurfa að segja fleira þessu viðvíkjandi, og vil heldur ekki gefa tilefni til þess, að langt reiptog þurfi enn að verða um þetta mál.