02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (3303)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði við 1. umr., að útreikningar hv. 1. landsk. eru miðaðir við, að tvisvar sé dreginn frá tekjuskattur og útsvar. Til viðbótar vil ég nefna nokkur dæmi: Maður hefir t. d. 19 þús. kr. tekjur. Samkv. þessum l. myndi viðbótin með útsvari og öllu, sem er áður í gildi, valda því, að skatturinn yrði 48%. Annað dæmi: Maður hefir 81 þús. kr. tekjur. Hann greiðir í skatt og útsvar 61% af tekjum sínum. Hvorugt rekur sig upp undir 100%-línuna. Þetta er reyndar nokkuð há hundraðstala, en þegar hækkanir verða hjá bæjarfélaginu, er ekki að undra, þótt svo verði einnig hjá ríkinu. Ráðstafanir þessa þings um kreppumál valda því, að svo verður að líta á sem hér er gert. Ég vil endurtaka það, að skatturinn rekur sig ekki upp undir tekjurnar á sama hátt og haldið hefir verið fram.