27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (3346)

117. mál, barnavernd

Magnús Jónsson:

Ég leyfði mér hér við fyrri part umr. þessarar að bera fram brtt., sem ég skal ekki tefja hv. d. á að gera grein fyrir. Í stuttu máli er brtt. um það, að í stað barnaverndarnefndar skuli hafa eftirlit með myndum einn þar til skipaður eftirlitsmaður, til þess að fá samræmi í það starf. Á móti þessari till. hefir ekkert verið haft hér í þessari hv. d., eða þeirri hugsun, sem liggur til grundvallar henni. En n., sem athugaði till., var ekki allskostar ánægð með fyrirkomulagið á þessu, og út af því hefi ég borið fram þessa brtt., svo að ég held, að nú sé burt numinn ásteytingarsteinninn. Till. fer nú aðeins fram á, að ákvæði frv. um eftirlitið fái að standa kyrr, nema að heimilt sé ráðh., að fengnum till. barnaverndarráðs, að skipa eftirlitsmann og annan mann til vara hér í Reykjavík, til þess að þessi eftirlitsmaður skoði þær myndir, sem hér verða fyrr sýndar en annarsstaðar á landinu. En nálega allar þær kvikmyndir, sem til landsins koma, eru sýndar hér í Reykjavík fyrst. En allt er látið standa óbreytt fyrir þær myndir, sem sýndar eru fyrst annarsstaðar en í Reykjavík, til þess að fyrirgirða skipun óþarflega margra eftirlitsmanna eða óþægindi vegna sendingar á myndum.

Ég ætla að vonast eftir því, sérstaklega þar sem hér er ekki farið fram á útgjöld úr ríkissjóði, að hv. d. samþ. þetta frv. og brtt. mína.