29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (3686)

173. mál, óréttmæta verslunarhætti

Pétur Magnússon:

Það er síður en svo, að þetta ákvæði sé nokkurt nýmæli. A. m. k. er það bæði í dönskum og þýzkum lögum. Það er óskiljanlegur misskilningur hjá hv. 5. landsk., ef hann í alvöru heldur, að ekki megi ákveða lægri smásöluálagningu en 25%. Sú álagning er hámark, en ekki lágmark. Framleiðanda er því heimilt að ákveða álagningu svo lága sem honum þóknast; og má gera ráð fyrir að hún yfirleitt sé ekki ákveðin hærri en nauðsynlegt er, til þess að kaupmenn fáist til að verzla með vöruna. Hitt þykir mér ekki ólíklegt, að til séu þær vörur, sem nauðsynlegt þyki að leggja á allt að 25%. En að óþörfu mundi enginn framleiðandi ákveða svo háa álagningu. Of mikil álagning mundi fyrst og fremst verða honum sjálfum til tjóns, því vitanlega mundi hún jafnan leiða til tregari sölu.