17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (3736)

93. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Við 1. umr. lýsti ég nokkuð skoðun minni á þessu máli, og skal ég játa, að ekki hefir hirt yfir þeirri skoðun í huga mínum síðan, allra sízt eftir að fram komu till. hv. minni hl. landbn. Mér finnst þar votta fyrir einkennilegri kommúnistískri stefnu, og ég hefi því minni trú á, að málið verði leitt til heillavænlegra lykta, þar sem slík stefna hefir komið upp. Að því er snertir einstakar brtt. hv. n.hl. get ég látið mér lynda svör hæstv. atvmrh.; ég er honum að mestu sammála um svörin við till. minni hl. n., en ég er honum algerlega ósammála um það, að frv. eigi að ganga fram, jafnvel í þeim búningi, sem það nú hefir. Ég held því fram, og það er hreint trúaratriði fyrir mér, að það mundi leiða til hins mesta ófarnaðar og óhappa fyrir þjóðfélagið, ef tekinn yrði, eins og frv. ætlast til, ráðstöfunar- og umráðaréttur eignanna af landeigendum og fenginn í hendur óviðkomandi mönnum, hvort þeir heita úttektarmenn, trúnaðarmenn búnaðarfélagsins eða jafnvel Búnaðarfél. Ísl. sjálft; en það virðist að vera alfa og ómega í öllu þessu frv., að svipta landeigendur fjárráðum. Sé ég ekki, hvað getur verið á móti því, að sama gangi þá t. d. yfir húseigendur hér í Rvík, og taki þá eitthvert bæjarráð eða „sovét“ að sér ráðstöfun húseigna hér, til þess m. a. að ákveða húsaleiguna, að sínu leyti eins og frv. ætlar búnaðarfélaginu að vera allsherjarsovét allra landeigna og hafa ráðstöfunarrétt á þeim. Er og mála sannast, að ólíku er saman að jafn, leigu algengustu af jörðum og húsaleigunni hér í Rvík. Ég býst líka við, að ekki þætti síður vel til fallið að taka ráðstöfunarréttinn af eigendum hinna stærri atvinnufyrirtækja, t. d. togaraeigendum, þegar sameignarstefnan hefði sigrað alla jarðeigendur, enda hafa jafnaðarmenn þráfaldlega krafizt þess, að rekstur togaranna væri háður einhverjum öðrum en þeim, sem togarana eiga, þ. e. einhverju „sovétinu“. Fyndist mér, að þeir hv. þm., sem fastast mæla með frv. þessu, ættu fyrir samræmis sakir að koma með brtt. í þessa átt.

Eins og ég benti á við 1. umr., er með frv. þessu ráðizt á 63. gr. stjskr., og sýnist mér sem réttast sé að láta skerðingu eignarréttar ganga jafnt yfir alla, ef á annað borð á að fara að draga úr gildi þeirra ákvæða stjskr. Ber og líka svo vel í veiði, að einmitt nú er hér á ferðinni í þinginu stjórnarskrárbreyt., og færi bezt á því, að þeir hv. þm., sem fastast sækja þetta mál, kæmu fram með breyt. við 63. gr. stjskr. í líkingu við þá, sem hv. 2. þm. Reykv. flutti hér fyrir nokkrum árum.

Út af því, að hv. frsm. minni hl. og hæstv. forseti létu hilla undir einhver ókjör, sem leiguliðar ættu við að búa, skal ég geta þess, að ég hefi athugað nákvæmlega, hver afgjöld leiguliðar greiða á þeim jörðum, þar sem ég þekki í nágrenni mínu, og eins á þeim umboðsjörðum, sem ég hefi haft umsjón með nú í 25 ár. Af umboðsjörðunum eru afgjöldin eftir gildandi verðlagsskrá 1,5 til 2,7% af matsverði jarðanna, og svipuð eru afgjöldin eftir eignarjarðir einstakra manna, þó e. t. v. eitthvað hærri, en það hæsta, sem ég þekki, er 2,9% af matsverðinu. Þessi eru nú ókjörin, sem leiguliðarnir verða að búa við og hv. 1. þm. Skagf. hefir verið að fárast yfir; ætti þetta að vera nægilegt svar við skýrslu hans og því, sem aðrir hv. þm. hafa sagt í þessu efni. Skal ég að vísu ekki fullyrða, að svo geti ekki verið einhversstaðar, að leiguliðar eigi við verri kjör að búa. Ég þekki einstök dæmi þess, að þegar kosta- og hlunnindajarðir eru boðnar til leigu, þá myndist um þær kappboð, sem leiða til þess, að leigumáli verður óeðlilega hár. Hinsvegar hefir undanfarið gengið svo illa að byggja jarðir, að margar hafa jafnvel lagzt í eyði af þeim sökum, á sama tíma sem fólkið hefir flúið sveitirnar. Gæti ég talið í nágrenni mínu margar jarðir og grasbýli, sem svo hefir farið um, en læt það þó hjá líða, af því að tilheyrendur þekkja þar ekki til staðhátta og myndu því ekkert gagn af því hafa. Segir það sig sjálft, að þegar svo er ástatt, sem ég hefi lýst, þá er barlómskliðurinn út af kjörum leiguliðanna skvaldur eitt, tilefnislítið eða tilefnislaust.

Ég minntist áðan á þá kommúnistísku bliku, sem hér hefir dregið upp, og vil ég í framhaldi af því drepa lítillega á brtt. hv. minni hl. landbn. við 3. gr. frv. Hún hljóðar svo:

„Hver maður, sem á jörð, er hann hefir ekki heimild til að nytja sjálfur“ o. s. frv., í stað þess að frv. segir: „... á jörð, er hann nytjar ekki sjálfur“.

Þetta er ósvikinn kommúnismi hjá hv. minni hl., að eigandi skuli ekki hafa heimild til að nota þann hlut, sem er hans viðurkennd eign. Þetta sker úr, því að kommúnistar viðurkenna ekki eignarrétt einstaklinga, en ætla ríkinu og ráðstjórn þess að drottna yfir öllum verðmætum. Auðvitað er hugsunin í þeim tilvitnuðu orðum frv. eins og það er á þskj. 410, að ef svo stendur á, að maður á jörð, sem hann getur ekki nytjað sjálfur, þá skuli með fara sem 3. gr. segir. Margt getur borið til, að eigandi geti ekki nytjað jörð þá, er hann á. Hitt ættum vér ekki að þurfa að deila um, hvort hann hafi heimild til að nota eign sína. Það er beint öfugmæli að kveða svo að orði, að eigandi hafi ekki heimild til þess að nota frjálsa eign sína, svo sem að eigandi reiðhests hefði ekki heimild til að koma hestinum á bak.

Það mun nú að mestu þrotinn tíminn. Ætla ég því ekki að eyða öllu fleiri orðum í bili að frv. þessu, en vel má vera, að ég óski eftir aths. seinna meir. Það vil ég þó taka fram áður lýkur, að frv. eins og það liggur fyrir mun ég ekki greiða atkv., og því síður, ef eitthvað af brtt. minni hl. verður samþ. Margir kunna að hugsa: Hví hefir þú ekki sjálfur komið með brtt. um þetta? Ég skal hreinskilnislega játa, að ég hefi ekki getað trúað því, að þetta frv. yrði samþ., né heldur hefir mér gefizt tími eða tækifæri til nauðsynlegrar athugunar. Ég álít sem sé, að umsteypa þurfi frv. öllu frá rótum, og til þess hefir ekkert tóm gefizt að þessu. Ég mun þess vegna verða á móti frv. gegnum þykkt og þunnt, ef ekki tekur það stórbreyt. Það er óframbærilegt og stórhættulegt, ef að 1. verður. Og það munu þeir fá að reyna, sem væntanlega lifa lengur en ég, að verði þetta að lögum, þá líður ekki á löngu áður en róttæk óánægja kemur upp út af þessari löggjöf og kröfur um enn víðtækari skerðingu eignarréttar. Ég ætla engu að spá frekar um það, til hvers þetta getur leitt, en get þess einungis að leikslokum, að ef ég hefði verið á ungum aldri og slík lög verið sett sem þessi, þá hefði ég heldur yfirgefið ættlandið — fremur kosið að fara landflótta af Íslandi — en að beygja mig undir slík lög.

Ég hafði hugsað mér, áður en ég lyki máli mínu, að minnast á fáar gr. frv. sérstaklega. (Forseti: Ég vil benda hv. þm. á, að ef mikið er eftir af ræðu hans, fer vel á að fresta fundi nú, og að hann ljúki ræðunni eftir fundarhlé.). Ég get fallizt á uppástungu hæstv. forseta. — [Fundarhlé].

Ég hefi haldið því fram, að frv. þetta væri bæði að efni og orðbúningi ærið viðsjált, og því til sönnunar verð ég að benda á nokkrar setningar.

Í 1. gr. er t. d. skilgreining á hugtakinu jörð, sem er svo fráleit, að hún fer í bág við málvenju. Þar er ekki tekið fram, að það, sem kallast jörð (bújörð), þurfi að hafa ákveðin takmörk eins og málvenjan gerir, heldur er sú skilgreining höfð, að jörð sé hvert það býli, sem sérstaklega sé metið til verðs samkv. fasteignamati og framfleyti minnst 9 kúgildum, eða að landverð þess sé að fasteignamati minnst 1000 kr. En slík býli heita oftast samkv. málvenju hjáleigur, kot eða grasbýli. Má þó að vísu segja, að þetta skipti ekki miklu máli.

Að því er 2. gr. snertir, þá hefir nokkuð verið rætt um hana áður af hæstv. atvmrh. Ég vil þó benda á það, að þar sem í henni er talað um, hvað jarðnæði megi vera stórt, sem 1 maður hefir til umráða, þá er við það miðað, að hægt sé að framfleyta þar 36 kúgildum, eða því minna, sem þar kann að vera útræði. Þarna virðist mér sniðinn allþröngur stakkur, og mega allir sjá, að ekki á að leyfa stóran búrekstur, þótt 36 kúgildi leyfist, ef sjávargagn vantar. Það svarar til þess, að bóndinn megi hafa 5 kýr, 160 ær, 48 gemlinga og 3 hross, en slíkt er ekkert stórbú; þó er þetta hámark þess, sem einn maður má hafa á tveimur eða fleirum sameinuðum smábýlum. Fleyti þau meiru, þá má svipta hann landi. Mér þykir undarlegt, að þessi stakkur skuli sniðinn svona þröngur. Það á þá beinlínis ekki að líðast hér eftir nokkurt myndarlegt bú í sveit, jafnvel ekki óðalsbónda á eigin jörð. Þá má landeigandi ennfremur, samkv. þessari grein, ekki skipta jörð milli barna sinna, nema með ráði úttektarmanna. Þannig er hver silkihúfan upp af annari í þessu fáranlega frv.

3. gr. frv. ætla ég ekki að gera að umtalsefni, og þó er sízt betur gengið frá henni en hinum, en á 7. gr. vildi ég minnast lítilsháttar. Það er einkennilegt, að þrátt fyrir mjög alvarlega viðleitni höfunda frv. þessa til að hlynna að landsetunum á kostnað landeiganda, þá hefir þeim alveg brugðizt bogalistin í 7. gr. Þar stendur í 2. mgr.: „Nú meta úttektarmenn jörð til eftirgjalds, og skal þá miða landskuld við leigumála hennar að fornu“. Mér finnst fremur óeðlilegt að miða hér við það, sem var til forna. Hversu langt hér á að fara aftur í tímann, verður eigi séð eða sagt. En eigi t. d. að fara 50—60 ár aftur í tímann, þá yrði það sízt til hagsbóta fyrir leiguliðana, því að þá var það algengt að greiða í landskuld af leigujörðum fiskavætt eða veturgamla kind fyrir jarðarhundrað hvert, en væg bygging þótti það, ef kind var fyrir annaðhvert hundrað, en spesía eða 4 kr. fyrir hitt. Ef taka ætti upp þá reglu að miða afgjaldið við þennan forna leigumála, þá yrði það a. m. k. tvígilt við það, sem nú er algengast. Hér hafa því hinir vísu menn skotið yfir markið. Þeim hefir brugðizt bogalistin og boginn hefir snúizt við í höndum þeirra.

Að fara að tína upp hverja grein á þennan hátt og sýna fram á hverja einustu fjarstæðu, get ég ekki átt við, og sízt þegar ég hefi lýst yfir því, að ég muni greiða atkv. á móti frv. í heild. En þar sem búast má við, að þessi löggjöf verði afgr. frá þinginu, þó seinna verði, þá tel ég mér skylt að benda á misfellur þess og það, sem betur má fara.

Að því er snertir 12. gr., þar sem þessi almenna umbótakvöð er lögð á landeigendur, þá þykir mér rétt að minna á það, að fjölmargar hinna minni jarða í sveitum eru metnar frá 1200 til 2000 kr. Þegar sú fortakslausa skylda eftir 12. gr. er lögð á landeigandann að reisa jarðarhús á hverjum tíma eftir breyttum ástæðum, eða jafnvel eftir duttlungum leiguliða og úttektarmanna, þá getur í mörgum tilfellum svo farið, að landeigandi geti alls ekki uppfyllt kvöð þessa og neyðist til að farga jörðinni. Ef ég t. d. tek jörð, sem metin er að fasteignamati á 1800 kr., en þar sem leiguliði telur sig þurfa aukin útihús, þá má ætla, að jarðarverðið allt hrökkvi ekki til húsabótanna. Og eins og verðlag er nú, þarf ekki að vera um mikil hús að ræða til þess að verð þeirra komist í 2—3 þús. kr. Það myndi því oftast ekki hægt fyrir landeiganda að fá helming þess láns út á jörðina, sem þyrfti til húsabótanna. Í slíkum tilfellum yrði ekki um annað fyrir landeiganda að velja en að beygja sig undir ákvæði 18. gr., að gera jörðina fala fyrir það, sem úttektarmenn meta hana, og gefa að auki langan frest á jarðarverðinu, til þess að forðast enn harðari kosti, svo sem það, að jörðin yrði seld á nauðungaruppboði. Út frá þessu fæ ég ekki annað séð en að það opinbera verði að sleppa eignarumráðum sínum á öllum þeim jörðum, sem í þess eign eru. Það mundi tæpast talinn mikill búhnykkur af ríkisstjórn að gefa stórar upphæðir með jarðeignum þeim, sem þó eru leigðar fyrir sáralítið gjald. Þessi 18. gr. virðist mér bera einna ljósastan vott um það, hversu fljótfærnislega hefir verið að frv. þessu unnið og óvægilega að landeiganda búið. Þar stendur t. d.: „Nú sér landsdrottinn sér ekki fært að fullnægja þeim skyldum, sem á hann eru lagðar með lögum þessum, og er honum það vítalaust, ef hann býður við votta leiguliða jörðina“ o. s. frv. M. ö. o.: honum skal það vitalaust að sjá sér ekki fært að fullnægja kröfunum. Hér er alleinkennilega að orði kveðið. Meiningin á eflaust að vera sú, að þegar hann geti ekki fullnægt þessari erfiðu lagaskyldu, þá eigi hann að láta jörðina fala eftir mati úttektarmanna og gefa gjaldfrest á 3/4 hlutum jarðarverðsins. Þetta má þó telja kostakjör samanborið við ýmislegt annað í frv. þessu. En að búa þannig að jarðeigendum, að þeir sjái sér ekki annað fært en að sleppa eignum sínum, hversu lágt sem þær eru metnar, það er meira gerræði og ónærgætni en ætla verður, að nokkur löggjafarsamkoma geti fellt sig við að sýna í verki.

Ég gæti nú alveg á sama hátt, eða a. m. k. líkan, minnzt á allar greinar frv., sem eftir eru, en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Mér virðist ekki eyðandi „púðri“ á frv. þetta frekar en orðið er. Læt ég því máli mínu lokið að sinni, en vel má vera, að síðar gefist kostur á að ræða mál þetta betur.